20.12.1972
Neðri deild: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

95. mál, almannatryggingar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Kveikjan að þessum umr., má segja, að sé spurningin um það, að hve miklu leyti og á hvern hátt við eigum að láta það koma fram, að við teljum, að líf sjómannsins sé áhættusamara en ýmissa annanna stétta í þjóðfélaginu. Ástæðan fyrir því að þessar till., sem hér er rætt um, eru fluttar, er breyting, sem gerð var á siglingal. í fyrra og einmitt varð til af þessari hugsun. Ég get ekki stillt mig um að láta það koma fram hér, að einhvern veginn stendur það alltaf undarlega í mér, af hverju við togumst svona mikið á um þetta fram og aftur, hversu mikið við eigum að greiða fyrir líf sjómannsins, þegar hann er látinn. Af hverju getum við ekki greitt honum það, sem vera ber, ef hann hefur það ekki þá þegar, meðan hann er lifandi. Mér finnst einhvern veginn, að ef við á annað borð teljum, að líf sjómannsins sé áhættusamara en er hjá ýmsum öðrum stéttum, þá hljóti það að viðurkennast með ýmsum aðgerðum í hans lifanda lífi. Vissulega er aðstaða fjölskyldu, ekkju og barna jafnerfið, hvort sem um er að ræða fjölskyldu, sem misst hefur húsbóndann í landi af slysi eða á sjó. Þess vegna blandast þessar hugsanir óneitanlega dálítið inn í umr. um þetta mál. En ég veit, að við megum ekki tefja tímann með heimspekilegum vangaveltum í þessa átt. Það liggur fyrir, að það þarf að leysa þetta mál, hvernig á að gera það kleift að tryggja sjómenn og um leið gera útgerðarmönnum kleift að taka þá tryggingu, sem skyldan í siglingal. leggur þeim á herðar að tryggja sig og sína menn fyrir. Þess vegna vil ég aðeins ræða um þetta mál, eins og það liggur nú fyrir, og það, sem fram hefur komið um það, hvernig aðdragandi þess hefur verið núna í vetur.

Nú ætla ég að líta burt frá því, sem er þó mjög alvarlegt atriði og mér fannst koma greinilega fram í orðum hv. 10. þm. Reykv., að raunverulega liggur því miður alls ekki eins rækilegt samkomulag fyrir milli þeirra hagsmunasamtaka, sem hér eiga hlut að máli, og hæstv. ráðh. lét hér í veðri vaka í dag. Mér virðist það hafa komið fram í umr. hér í kvöld. Sé það hins vegar rangt hjá mér og menn geti í raun og veru sætzt á það aðalefni málsins, sem hefur komið fram í till., sem hér voru kynntar í dag og eru að ýmsu leyti og meginstofni til svipaðar og í till, hæstv. trmrh., þá sýnist mér — og ég legg á það áherzlu — alveg einsýnt, að það hljóti að vera hægt að taka þessi meginatriði upp í sérfrv. Ég get ekki skilið annað en maður, sem kann sitt fag í lagasmið, eins og t.d. hv. skrifstofustjóri þessarar stofnunar, gæti með skjótum hætti stílað þessi sömu efnisatriði sem annaðhvort brtt. við siglingal. eða þá sem sjálfstætt frv. Ef það lægi fyrir, sýnist mér eftir þeim orðum, sem fram hafa komið í ræðum ýmissa þm. hér í dag, að það hlyti að vera hægur vandi að koma slíkri breytingu í gegn með þeim feiknahraða, sem virðist einkenna fleiri mál hér núna. En ég ímynda mér, að það væri mjög auðvelt og mönnum sé ljóst, að þetta mál þyrfti að ná fram að ganga fyrir áramót. En eins og þetta var lagt fyrir hér af hæstv. ráðh. Í dag, sýnist mér nauðsynlegt að fara um það nokkrum orðum.

Hæstv, ráðh. lagði þetta mál þannig fyrir í dag, að Alþ. stæði andspænis því annaðhvort að allir þessir menn, sem hér ættu hlut að máli, yrðu að vera tryggðir hjá Tryggingastofnun ríkisins og hvergi annars staðar, ella væri málið ónýtt og úr sögunni. Þetta fæ ég ómögulega skilið, að rétt sé. Aðalatriðið fyrir sjómennina, sem hér á að tryggja, hlýtur að vera, að þeir eða öllu heldur þeirra vandamenn eða fjölskyldur fái þær bótafjárhæðir, sem hér er um að tefla, útborgaðar, hvort sem það er frá Tryggingastofnuninni eða einhverjum öðrum. Mér finnst það nánast vera allt að því meinloka, að það sé nauðsynlegt, að Tryggingastofnun ríkisins hafi þetta með höndum. Tryggingastofnun ríkisins rekur alls ekki vátryggingastarfsemi, og það er ekki hennar hlutverk. Henni var að vísu gert heimilt að taka að sér frjálsar tryggingar, eins og stendur í 76. gr. þeirra laga núna, en á það hefur mjög lítið reynt, og það má segja, að sá sjóður sem hefur það með höndum, sé nánast tómur. Menn geta þá ímyndað sér, hvaða ástand mundi skapast, ef allt í einu ætti að fella þá skyldu á Tryggingastofnun ríkisins að taka að sér stóran hóp manna í tryggingu með mikla áhættu með tómum sjóði. Iðgjöld eru innheimt eftir á, og hvað á þá að gera, ef t.d. stórtjón yrði í jan.? í till. ráðh. lá ekkert fyrir um iðgjöld, ekkert um endurtryggingu, ekkert um ríkisábyrgð. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. hér áðan, að til þess að taka á sig ábyrgð á slíkri tryggingastarfsemi hefur ríkissjóður enga heimild eins og er. Til þess þarf sérstök lög, og málið er engan veginn svo einfalt, að það sé hægt að keyra það í gegn með þessum brtt. í því formi, sem þær lágu hér fyrir. Það verður að segjast eins og er, að málið var alls ekki tilbúið til afgreiðslu.

Heilbr.- og trn. þessarar d. tók það upp hjá sér að athuga dálítið þessar till., þó að þeim hefði alls ekki verið vísað til n. Þær höfðu alls ekki verið ræddar í d., þeim fylgdu engar skýringar af hálfu ráðh., og það er algerlega óvenjulegt, að þn. verði að fjalla um mál, sem hefur ekki verið fylgt úr hlaði. Í raun og veru má segja, að þetta sé nýtt mál, þó að það sé í formi brtt. við almannatryggingalögin. Því hafði ekki verið fylgt úr hlaði. Till. voru bornar fram eftir 1. umr., og samkv. eðlilegum hætti hefðu þær átt að ræðast við 2. umr. og síðan verið vísað til n., eins og raunar gert var í gær, en það hefði ómögulega verið hægt að afgreiða þær á þeim tíma, sem gert var, ef athugun fyrir fram af hálfu nm. hefði ekki komið til.

Í þessu sambandi vil ég nefna það, að hæstv. trmrh. sagði hér í dag, að um þessi atriði hefði verið samkomulag milli þeirra, sem hlut áttu að máli, sjómannasamtakanna og samtaka útvegsmanna, og þetta væri algerlega á samkomulagi byggt. Ég vil geta þess, að einn mikilsverður aðili hefur orðið út undan í þessum umr. um samkomulag. Það er sá, sem átti að borga allan brúsann. Það var ekki minnzt einu orði á þetta mál við Tryggingastofnun ríkisins, fyrr en einstakir nm. fóru að spyrjast fyrir um málið, nokkrum dögum eftir að það var lagt fram hér í Alþ. algerlega skýringalaust. Þetta vil ég, að komi fram, vegna þess, sem rætt hefur verið um þetta mál. að það hafi nánast verið tilbúið með samkomulagi, en Tryggingastofnun ríkisins, sem átti að taka að sér alla þessa tryggingu með tóman sjóð svo til í þeirri deild, sem átti að hafa þetta með höndum, hafði ekki hugmynd um málið, vissi ekki, hvað hér var á ferðinni, fyrr en mörgum dögum eftir að það lá fyrir hér í Alþ. Þetta verður að koma hér fram, til þess að menn sjái, hvernig málsmeðferð er hér á ferðinni. Og það er varla hægt að ætlast til þess, að hægt sé að framkvæma slíkt á svipstundu.

Hæstv. ráðh. skýrði frá því hér í dag, sem var þó aðeins að nokkru leyti rétt, að sjónarmið Tryggingastofnunarinnar hefði verið það, að hún vildi taka allan hópinn að sér í skyldutryggingu. Það er rétt að vissu marki. Sjónarmið Tryggingastofnunarinnar var það, að annaðhvort vildi hún taka að sér allan hópinn í skyldutryggingu eða vera laus við það. Nú var það svo, að algerlega nýr grundvöllur var kominn fyrir þessa tryggingu, sem hér var um að ræða, allt öðruvísi grundvöllur en fyrir lá í sumar, þegar erfiðleikar sköpuðust við að fá þessa hópa tryggða hjá tryggingafélögum. Þær bótafjárhæðir, sem um er að ræða núna, gera það að verkum, að málið horfir allt öðruvísi við að fá menn tryggða með eðlilegum hætti eftir þeim reglum, sem hér liggja fyrir, ef samþ. yrðu. Og það er mikið hagsmunaatriði fyrir þessa hópa, leyfi ég mér að segja, að geta valið sjálfir, hvar þeir tryggja sig. Og þegar svo er komið, sé ég enga ástæðu til að vera að fella þá skyldu á ríkisfyrirtæki, sem alls ekki kærir sig um að taka þessa starfsemi að sér, telur sig engan veginn geta framkvæmt hana ódýrar en önnur fyrirtæki, — ég sé enga ástæðu til þess að gera slíka breytingu á lögunum um þá stofnun. Tryggingastofnun ríkisins þarf að taka endurtryggingu með sömu kjörum og um aðra mundu gilda, og fleira og fleira kemur þarna til skoðunar. Og ég vil segja, að það er mitt sjónarmið, að þetta eigi að vera algjörlega á frjálsum grundvelli. Mér finnst alveg fráleitt að fara að fyrirskipa ríkisfyrirtæki að taka að sér þann atvinnurekstur, sem hér er um að ræða, vátryggingastarfsemi, ef aðrir aðilar geta leyst þetta og vilja gera það.

Þetta vildi ég taka fram — þetta síðasta með tilliti til þess fyrirvara, sem hv. formaður heilbr.- og trn. þessarar d. gerði fyrir því, að við drægjum okkar brtt. til baka. Ég held að vísu, að samþykkt þeirrar brtt. hefði getað lagað málið mjög, til bráðabirgða þó. En ég er þeirrar skoðunar, að í raun réttri séu þessar breytingar, sem í till. felast, e.t.v. dálítið undarlega staðsettar í tryggingalöggjöfinni, og ítreka það sjónarmið, að þær efnislegu breytingar varðandi bótafjárhæðir og varðandi það, til hverra ætti að borga þær út, þær ættu heima annaðhvort í sérstökum lögum eða þá í breytingu á siglingal. Og ég get ekki skilið annað með tilliti til þeirra yfirlýsinga, sem ríkisstj. hefur gefið um þetta efni, en það hljóti að vera hægt að að framkvæma það svo með samþykki þeirra alþm., sem á annað borð vilja hjálpa til að leysa þetta mál. Mér finnst það í raun og veru algerlega óframbærileg ástæða að láta það atriði, að einhverjar sérstakar hugmyndir um ríkisrekstur á svona vátryggingarstarfsemi fáist ekki samþykktar, verða til þess að fella málið eða koma því úr sögunni. Slík ástæða finnst mér alveg fráleit, því að ég tel mjög vandalítið að leysa þetta með breytingu á öðrum lögum.