20.12.1972
Neðri deild: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

131. mál, vegalög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Sunnl., Ingólfur Jónsson, fyrrv. samgrh., hélt hér langa ræðu í kvöld um frv. til breyt. á vegal. Ég ætla ekki að svara hans ræðu í löngu máli, en tel þó rétt að víkja að henni nokkrum orðum.

Ég var í rauninni mjög undrandi yfir þeirri afstöðu, sem hv. þm. tók, þar sem hann býsnaðist yfir þeirri auknu skattlagningu, sem hér er um að ræða og hver einasti eyrir á að fara til umbóta í vega- og samgöngumálum. í öðrum sporum hefur þessi sami hv, þm. staðið áður. Hann hefur margoft staðið í mínum sporum og borið fram sams konar frv. og þetta. Hann hefur farið fram á hækkanir á benzínskatti, á þungaskatti og gúmmígjaldi, — flutt nákvæmlega sams konar frv. hvað eftir annað eins og þetta. Og hvernig undirtektir hafa þau frv. hans fengið? Þau fengu yfirleitt einróma afgreiðslu á Alþ., af því að menn sögðu: Jú, vond er nú skattlagning, það hefur mönnum alltaf þótt, en við setjum hina brýnu þörf samgöngumálanna ofar. — Og það gerði hv. 1. þm. Sunnl svo sannarlega sjálfur, þegar hann var flm, slíkra frv. og brýndi fyrir mönnum, að þetta væri gert fyrir samgöngumálin. Nú virðist svo sem hann brýni það fyrir sínum liðsmönnum að neita slíkum skattaálögum, þó að þær eigi að öllu leyti að fara til bættra samgangna. Í þessu er ekki allt of gott samræmi.

Það er ekkert nýtt, að það fara fleiri og fleiri krónur til verklegra framkvæmda frá ári til árs. Svo hefur það verið lengi, og svo er það enn. Frá því að þessi gjöld voru ákveðin fyrir tveimur árum hefur dýrtíð vaxið og það þarf fleiri krónur til að framkvæma sama verk og áður. Og það er það, sem hér er verið að fara fram á, að fá fleiri krónur til framkvæmda í vegamálum, til þess að ekki þurfi að draga framkvæmdir saman. Ekki deilum við hv. 1. þm. Sunnl. og ég um það, að bíllinn er orðinn nauðsynjatæki almennings. Það skal viðurkennt fúslega af mér, þó að þetta tæki sé kannske ofuotað, bæði af mér og öðrum, og við þyrftum ekki að nota það í eins ríkum mæli og við gerum og hefðum betra af oft og tíðum að nota það minna. En það er nú neyzlan í þjóðfélaginu, sem flestir segja, að eigi að skattleggja.

Það má segja, að nm þrenns konar fjáröflun geti verið að ræða til samgöngumálanna, það sé að taka þetta úr hinum almenna sjóði landsmanna, ríkissjóði, leggja þetta á ríkið eða að skattleggja neyzluna, skattleggja notendur bílanna eða í þriðja lagi að grípa til erlendrar lántöku. Ég tel ekki fyllilega réttlátt að taka þetta af hinni almennu neyzlu landsmanna og láta ríkissjóð standa undir því að öllu leyti. Ég tel réttara, að þeir, sem bíla eiga og bíla nota, taki á sig sérstakar skattálögur vegna þess, og tel, að að undanförnu hafi verið rétt stefnt með því að taka þessi gjöld í þjónustu vegamálanna.

Hv. 1. þm. Sunnl. er margoft búinn að flytja frv. eins og þetta, og þess vegna er benzínlítrinn orðinn 16 kr. Nú er lagt til, að hann hækki í 18 kr. Hann hefur smátt og smátt orðið að 16 kr. á lítra vegna endurtekinna frv. um hækkanir. Hv. 1. þm. Sunnl. fór líka aðra leið. Hann fór þá leið að taka lán erlendis til vegamála, svo að hundruðum millj. kr. skipti. Það er leið, sem ég skal alls ekki fordæma, en gott er þó að gæta hófs í og fara varlega út á.

Fjáröflunin samkv. frv. á að minnka þörf okkar og nauðsyn fyrir lántökur til vegamálanna, en fer þó að langmestu leyti aðeins til þess að standa undir auknum tilkostnaði við vegaframkvæmdir. Hér er ekki verið að bæta við möguleikum til aukinna framkvæmda, en framkvæmdir, sem framkvæmdar verða að ári, eru dýrari en þær, sem voru gerðar í fyrra eða í ár. Og ef þær eiga ekki að dragast saman, þurfum við peninga. Við erum búnir að fá hraðbraut austur til Suðurlandsundirlendisins, og við erum búnir að fá hraðbraut hér upp í Kollafjörð, en það er gallinn sá á gjöf Njarðar, að þær eru byggðar fyrir erlendar lántökur og þær eru í skuld. Þessi stóru og þýðingarmiklu mannvirki eru í skuld. Það er eftir að borga þau. Og þar er ekki um minni upphæðir að ræða en einn milljarð eða nálægt því. Ég held því, að það sé full ástæða til að fara eins varlega og unnt er í lántökuaðferðina í sambandi við vegamál.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að þetta frv. bryti í bága við anda vegalaga. Ég held, að það sé fjarstæða að mæla slíkt. Það er auðvitað nákvæmlega í anda vegal. að afla innlends fjár til slíkra framkvæmda.

Hv. þm, vék að því, að benzínverð hér hefði verið lægra en í nágrannalöndunum, og það er rétt. Þetta atriði hefur verið athugað og samanburður gerður á benzínverði hér eftir þá hækkun, sem hér er lagt til og samanborið við benzínverð nú í okkar nágrannalöndum. Og þá kemur í ljós, að eftir þessa hækkun verður benzínverð hér mjög ámóta og í okkar nágrannalöndum, hærra en í sumum þeirra, en lægra en benzínverðið er í öðrum. Það yrði mjög svipað verð hér á benzíni og í okkar nágrannalöndum eftir þessa breytingu. Og það sjónarmið mun oftast hafa verið haft, að benzínverðið hér væri sambærilegt við það, sem gerðist í öðrum löndum.

Þá hafa menn gert aths. við 4. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að borgaður sé hálfur skattur af jeppabifreiðum. Ég verð að segja hv. 1. þm. Sunnl. það, að ég held, að hann ætti að fara að hætta að gráta fyrir hönd bænda, láta þá gera það sjálfa. Ég er alveg sannfærður um, að bændur kæra sig ekkert um neinar ölmusur í neinu formi, og það að hafa bifreið án þess að borga neinn skatt eru sérréttindi, sem bændur meta áreiðanlega ekki mjög mikils. Það er vitað, að hver einasti bóndi, sem á jeppabifreið, verður að viðurkenna, að hún er að verulegum hluta almennt ökutæki. Hún er að hluta landbúnaðartæki, og látum það vera, að það sé haft skattfrjálst, en hver einasta jeppabifreið í sveit er jafnframt ökutæki bóndans. Og ég veit, að bændur biðjast ekki undan því að greiða skatthluta, sem því svarar að eiga þarna almennt ökutæki.

Þá kem ég að þungavöruflutningunum, sem einnig var minnzt á af frsm. hv. minni hl. Vissulega er það verulegur útgjaldaliður hjá langferðabílaeigendunum að þurfa að borga þennan þungaskatt og hækkun á honum samkv. þessu frv. En hvernig er það með önnur flutningatæki, sem flytja vörur út á landsbyggðina? Þurfa þau enga slíka skatta að greiða? Ríkið gerir út skip til þess að annast vöruflutninga út um landsbyggðina. Þessi skip verða að borga hafnargjöld eins og önnur farartæki. Og það er í gangi að ósk margra þm. rannsókn á því, hvaða aðferð við flutninga vörumagns út um landsbyggðina, í lofti, á landi eða á sjó, sé þjóðhagslega hagkvæmust. Menn hafa viljað telja, að það væri mjög vafasamt, að flutningar á landi væru þjóðhagslega hagkvæmasta leiðin. En svo mikið er víst, að við komumst aldrei hjá því, að það er kostnaður við að flytja vörurnar út um landsbyggðina og vandamál út af fyrir sig, hvernig eigi að jafna þann aðstöðumun. En þessi rannsókn er í gangi, og alveg eins og skip Skipaútgerðar ríkisins verða að borga hafnargjöld um alla landsbyggðina, tel ég eðlilegt, að þungaskattur og önnur gjöld hvíli á þeim flutningatækjum, sem flytja vörur á landi. Hingað til virðist samkeppnisaðstaða vöruflutninganna á landi ekki standa höllum fæti á við skipin, því að skipin sigla að langmestu tóm með ströndum fram, en flutningabílarnir aka þungt hlaðnir þrátt fyrir ófæru, sem oft er snemma á vorin og fram á vetur, og vaða um vegi landsins og stórspilla þeim. Ég held því, að það eigi að bíða eftir niðurstöðum þessarar rannsóknar, sem fer fram varðandi það atriði, hvort þjóðhagslega sé hagkvæmara að beina meginvöruflutningamagninu að flutningum á sjó, á landi eða í lofti og þá að hvaða hluta hentugast sé að fara hverja leiðina um sig. — Þessar aths. taldi ég rétt að gera við þessa umr. málsins.

Annars endurtek ég það, að allt það fé, sem ætlunin er að afla með þessu frv., hver einasta króna, fer í vegasjóð til framkvæmda í vegagerð og til þess að fyrirbyggja, að samdráttur verði í þeim nauðsynlegu framkvæmdum. Hver sá maður, sem vill afstýra því, að samdráttur verði í vegagerð, á að greiða þessu frv. atkv. sitt. Hann getur sér til gamans, sér til hugarhægðar talið eftir hverja krónu til ríkissjóðs að öðru leyti. En þetta fer ekki í ríkissjóð, þetta fer í vegasjóð. Ég hafði reiknað með því, að mesti áhugamaðurinn um umbætur í vegamálum mundi vera fyrrv. samgrh., Ingólfur Jónsson, en hann verður hér mesti úrtölumaðurinn um það, að aflað sé fjár til vegagerðar. Slíkt er alveg hörmulegt að hlusta á. Nei, ég vil halda í lengstu lög í þá von, að áhugamaðurinn um umbætur í samgöngumálum, fyrrv. samgrh., hljóti að veita þessu máli stuðning og geti ekki orðið í röðum þeirra, sem telja eftir hverja krónu til þessara framkvæmda.