20.12.1972
Neðri deild: 34. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

131. mál, vegalög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. segir, að ég hafi afflutt málið með því að lesa ekki upp alla skýrsluna um benzínverð í ýmsum löndum, heldur aðeins lægstu tölurnar. Ég tók þann kostinn að taka dæmi um nágrannalöndin. Ég tel Frakkland tæplega nágrannaland. Ég nefndi Danmörku, sem er hérna efst á blaði og er með það hæsta. Ég hef líklega hlaupið yfir Noreg, en það er alveg óviljandi. Það munar sáralitlu á verðinu í Noregi og Danmörku, og það er þess vegna ekki til að skekkja myndina. Ég nefndi Danmörk og Finnland, sem ég hef hérna efst á blaðinu. Ég nefndi Þýzkaland, ég nefndi Írland, ég nefndi Bretland. Þetta fannst mér alveg nóg. Ég nefndi þarna 7 nágrannalönd, og svo segir hæstv. ráðh., að ég hafi verið að falsa skýrsluna, af því að ég fór ekki til hinna fjarlægari landa. Það er allt annað mál. En hæstv. ráðh. befur vitanlega leyfi til þess að gera að gamni sínu. Ég skal ekkert amast við því.

Hæstv. samgrh. er mjög ánægður með það að hafa fengið það, sem hann kallar hækkanir á framlögum til vegasjóðs úr ríkissjóði. Hann segir, að það séu 250 millj. kr. Ég er ekki með vegáætlunina hérna fyrir framan mig, en vil aðeins segja það, sem er rétt, að bifreiðaskatturinn, sem var á lagður snemma á þessu ári, hefur farið til vegasjóðs. Ég býst við, að það sé rétt. En það er þá ekki frá ríkissjóði. Það voru peningar, sem voru teknir af fólkinu, og ríkissjóður lét þess vegna ekki í rauninni neina peninga í vegasjóð. Það er ekki heldur rétt hjá hæstv. ráðh., að það hafi aðeins verið 45 millj. á vegáætlun frá ríkissjóði hér áður. Ríkissjóður var búinn að taka að sér lánin að meginhluta til og greiddi vexti af þeim fyrir stjórnarskiptin, og þetta veit ég, að hæstv. samgrh. man, því að ekki hefur hann löngun til þess að falsa tölur, eins og hann vildi nú halda fram, að ég hefði tilhneigingu til að gera hér áðan. Sennilegast er það, að hvorugur okkar hafi beina löngun til þess að gera það viljandi. En þá skulum við líka vera sammála um það, að ríkissjóður hefur greitt vegasjóði eins mikið í minni tíð og á þessu ári. En það, að vegasjóður hafi fengið meira af sérstöku fé en í minni tíð, er rétt. En þá var ekki lagður nýr skattur á bifreiðar til þess að afla fjár í vegasjóðinn, eins og núv, ríkisstj, hefur gert, nærri 200 millj, kr. á þessu ári.

Hækkun til vegamála talar hæstv. ráðh. um. Jú, það var hækkun t.d. til Skeiðarársandsvegar á þessu ári. Það eru 100 millj. kr., og á næsta ári verða það 230 millj. kr. En eru þær framkvæmdir sérstaklega að þakka núv. hæstv. samgrh. eða núv. ríkisstj.? Var ekki búið að leggja grundvöll að þeim framkvæmdum fyrir kosningar og fyrir stjórnarskiptin með því að samþykkja lög hér á hv. Alþ. um, hvernig fjár skyldi aflað til þess, og var ekki fyrrv. ríkisstj. búin að gera ráðstafanir til þess, að Seðlabankinn gerði útboð á skuldabréfum, til þess að hefjast mætti handa um framkvæmdir á Skeiðarársandi? En einmitt framlög til Skeiðarársandsvegar hækka verulega heildarfjármagn til vegaframkvæmdanna. Það höfðu verið lögð drög að og undirbúin svokölluð Austurlandsáætlun fyrir stjórnarskiptin og eins Norðurlandsáætlun. En það eru fjárframlög til þessara framkvæmda, sem auka fjárhæðina í heild að nokkru umfram það, sem áður var. En þegar menn bera saman það fjármagn, sem vegasjóður sjálfur hefur yfir að ráða nú og hafði áður, þá kemur í ljós, að það er vafasamt, að vegasjóður hafi raunverulega eins mikið fé nú og hann áður hafði, þegar tekið er tillit til verðhækkana og hækkunar á kostnaði við vegagerð. Þegar þetta er athugað í réttu ljósi og borið hlutlaust saman, verður útkoman sennilega þannig, að hæstv. ráðh. hefur ekkert til þess að hrósa sér af. Þó hefði ég vel getað unnt honum þess, en útkoman verður þessi, ef við reiknum dæmið rétt. Ég veit, að hæstv. samgrh. er sammála mér um, ef hugarreikningurinn bregzt, að við fáum okkur þá blað og blýant og reiknum rétt, en þá verður útkoman þessi.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. ætlar að samþykkja þetta frv., 4. gr. og 5. gr., sagði hann, í þeirri trú, að lögin verði endurskoðuð seinna í vetur og þeim verði breytt þá. Mikil er trú þessa þingmanns, og mikið er traust hv. 4, þm. Norðurl. e. á hæstv. samgrh. að ætlast til þess, að hann fari að gera ráðstafanir til þess að breyta lögunum seinni partinn í vetur, sem nú er verið að samþykkja rétt fyrir jólin.