20.12.1972
Efri deild: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að árétta stuðning minn við þetta frv., og ég verð að segja það, að mér finnst, að þau friðunarsvæði, sem um getur, lýsi ekki þeim stórleik, sem við látum í veðri vaka, að við höfum í friðunarmálum og verndi fiskistofna. Við höfum vakið heimsathygli nú upp á síðkastið einmitt fyrir þessi friðunarsjónarmið og það er ekki nokkur vafi á því, að það verður litið til okkar með vaxandi athygli, ekki aðeins varðandi útfærslu landhelgi, heldur ekki síður varðandi það, hvernig við sjálf stöndum að okkar friðunarmálum innan landhelginnar. Hins vegar, eftir að hafa verið á einum fundi fiskveiðilaganefndarinnar, er mér alveg ljóst, að hér er um mjög viðkvæmt og erfitt mál að ræða. Við lítum á þessa löggjöf hér sem bráðabirgðafyrirbrigði, og ég vænti þess, að við megum eiga von á víðtækari löggjöf, sem taki verulega aukið tillit til friðunarsjónarmiða. Ég gleðst yfir því, að það eru komnar inn víðtækar heimildir fyrir sjútvrn. til þess að grípa til friðunar, ef fullkomin nauðsyn er á, og ég vona, að þess verði ekki langt að biða, að við getum með sanni sagt, að við gætum þess, að ekki sé ofveiði á okkar ungviði, og enn fremur, að við verndum betur okkar hrygningarsvæði og hrygningarstaði heldur en nú er raunin á. Þetta er okkar framtíðarmál, því að okkur gagnar ekki að hafa stóra lögsögu, ef við vanrækjum að vernda ungviðið.