21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

Umræður utan dagskrár

(Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hv. 3. landsk. hefur hér nú sagt um Íoftárásir Bandaríkjamanna í Víetnam, vil ég aðeins segja örfá orð. Það veldur vissulega bæði áhyggjum og vonbrigðum, að Bandaríkjamenn skuli nú, svo skömmu eftir forsetakosningarnar, hafa gripið til stórfelldra loftárása á Norður-Víetnam. Fyrir aðeins örfáum vikum gerðu menn sér vonir um það, að stjórnmálaleg lausn á vandamálum víetnömsku þjóðarinnar væri að nást, og menn litu björtum augum til framtíðarinnar í þessu tilliti. En nú hefur skipazt veður í lofti á svo hryggilegan og hörmulegan hátt sem raun ber vitni og hv. þm. gerði grein fyrir.

Ríkisstj. hafði þetta mál til meðferðar á fundi sínum í morgun. Þar var utanrrh. falið að hefja undirbúning að því í samráði við utanrmn., að íslenzka ríkisstj. og íslenzka ríkið viðurkenndi stjórn Norður-Víetnams á sama hátt og stjórnir t.d. Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs hafa þegar gert. Mun ég að sjálfsögðu taka þetta mál fyrir í utanrmn., strax og tóm vinnst til að hafa þar nefndarfund. En auk þess hef ég ákveðið að kalla til mín bandaríska sendiherrann hér, hef þegar gert ráðstafanir til þess, til þess að tjá honum áhyggjur og vonbrigði okkar Íslendinga og íslenzku ríkisstj. með framvindu mála í Víetnam.