24.10.1972
Sameinað þing: 7. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1973

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður var svo úrræðagóður, að ósjálfrátt dettur manni í hug undir ræðu hans, að núv. stjórnarflokkar ættu að skipta um fjmrh. og fela hv. síðasta ræðumanni störf fjmrh., hann væri ekki lengi að því að ráða bót á fjárvöntun ríkissjóðs. Og viss er ég um það, að hv. síðasti ræðumaður væri ekki eins hörundsár og núv. hæstv. fjmrh., sem tók allóstinnt upp nokkur ummæli, sem ég lét mér um munn fara hér í minni fyrri ræðu.

Ég get ekki að því gert, að ræða hæstv. fjmrh. hafði þau áhrif á mig, að ég gat ómögulega dregið aðra ályktun af ræðunni en mér fyndist eins og hann skammaðist sín fyrir skattal. frá s.l. vetri. Hitt vil ég ekki meina og hef aldrei sagt, að hann væri sekur um illvirki eða illvilja. Þar snýr hæstv. fjmrh. algerlega málflutningnum við. Hann sakaði borgarstjórn Reykjavíkur og meirihluta borgarstjórnar um athæfi, sem ekki var hægt að segja annað um en væri illvilji og þá er nú skörin farin að færast upp í bekkinn, ef ég á að taka við skömmum fyrir það, sem hæstv. fjmrh. lét sér sjálfur um munn fara. Ég hef að vísu ekki setið lengi hér á hv. Alþ., en ég verð að segja það, að það eru þá meiri postulínsbrúðurnar, sem hér hafa setið í þau 16 ár, sem hæstv. fjmrh. hefur setið, ef þetta er það alvarlegasta, sem hann hefur heyrt á þingmennskuferli sínum.

Hæstv. fjmrh. sagði eitthvað á þá leið, og endurtók það í sinni síðustu ræðu, að það hefði verið óhjákvæmilegt að taka þessa kollsteypu í skattal. og gera þær skyssur, sem gerðar voru með setningu síðustu skattal., vegna breytinga á almannatryggingunum og afnám persónuskatta. Ég vil algerlega mótmæla þessu. Það hefur verið þróun í málum almannatrygginga, að ríkissjóður hefur tekið að sér sívaxandi hluta af útgjöldum almannatrygginga. Og síðasta skrefið, afnám persónuskatta, var hægt að taka án þess að taka þá kollsteypu í skattamálum, sem raun ber vitni um, að gert hefur verið. Þótt sýna megi fram á hagsbætur ungra námsmanna í nokkrum tilvikum,kemur þar aftur á móti, að unga fólkið lendir fyrr í brúttóútsvari og fyrr í tekjuskattsgreiðslu. Þá eru þessar hagsbætur lítils virði á móti óhagræði, sem elli- og lífeyrisþegar og öryrkjar hafa haft af hinum nýju skattal., að ég tali ekki um þyngingu skattbyrða almennra skattgreiðenda, þar sem þeir m.a. borga sína persónuskatta nú í tekjuskatti til ríkissjóðs. Og gagnstætt því, sem var um persónuskattana, að hækkun þeirra fékkst bætt af hækkuðum launum vegna vísitölunnar, þá fást hækkaðir tekjuskattar hinna almennu skattgreiðenda ekki bættir með hækkuðu kaupi, vegna þess að hæstv. ríkisstj. reyndi að fela eða falsa eða fresta, — eins og hv. 1. þm. Reykv. komst hér að orði fyrr í kvöld, — vísitöluuppbótum til handa launþegum, þegar henni bauð svo við að horfa.

Það eru líka haldlaus rök, að nauðsyn nýrra skattalaga hafi verið fólgin í því, að nauðsyn hefði verið að bjarga mönnum frá ákveðnum ákvæðum skattalaga viðreisnarstjórnar. Ég skal ekki fjölyrða um skattfrelsi hlutafjár. En að því er tekur til tilvitnunar til Ólafs Björnssonar prófessors, þá leyfði ég mér nú úr sæti mínu að draga þá ályktun, að þar sem þessi hv. þm. átti sæti í Ed. — og ekki var unnt að koma fram breytingum á skattalögum á þingi, ef skortir eitt atkv. í Ed., í stjórnarliðinu þáverandi sem og nú, — þá hefði Ólafur Björnsson prófessor greitt atkv. með þessu skattalagaákvæði. Og það finnst mér heldur kaldar kveðjur til svo ágæts heimildarmanns hæstv. ráðh., að hann hefði ekki greitt atkv. samkv. sannfæringu sinni. Nei, flokksböndin áttu að hafa haldið honum. En slíkan mann, sem ekki heldur þeim þingmannsheiðri að greiða atkv. samkv. sannfæringu sinni, telur hæstv. fjmrh. þó ágætt að vitna til, þegar honum býður svo við að horfa. Annars er um það að segja, að sá annmarki, — hafi hann einhvern tíman verið á þessu ákvæði, — var afnuminn, að hægt væri að stofna lítil fjölskylduhlutafélög til að fá arð af hlutafé frádráttarbæran, af þeirri ástæðu, að þetta skattfrelsi var bundið opnum hlutafélögum, sem m.a. var gert að skyldu að vera skrásett á opnum markaði.

Að því er flýtifyrninguna snertir, þá er þess að geta, að um leið og hún var leidd í lög, þá var hin almenna fyrning lækkuð þannig, að þótt í heild væri um nokkru hagstæðari fyrningarákvæði að ræða, þá var svo um búið, að hér var aðeins um hagræði að ræða fyrir atvinnufyrirtækin að ákveða, hvenær fyrning skyldi fara fram, og það var gert með það í huga, að árferði er hér misjafnt og í góðu árferði er eðlilegt, að reynt sé að fyrna atvinnutæki, m.a. til að koma í veg fyrir þenslu í efnahagslífinu. En hitt er líka unnt, að nefna dæmi um mismunandi árferði af mannavöldum, og það e.t.v. sú hætta, sem hæstv. fjmrh. hefur átt við, að mundi hafa freistað ýmissa fyrirtækja, hafi þetta ákvæði staðið áfram í lögum í tíð núverandi stjórnar, vegna þess að atvinnufyrirtækin í landinu geta ekki undir núverandi stjórn búizt við því að hafa nokkurn afgang til þess að treysta framtíð sína og rekstur. Og það hefði jafnvel getað freistað fyrirtækja, sem stjórnarliðar hafa ítök í, eins og fyrirtækisins, sem hann nefndi, til að nota alla flýtifyrninguna á einu ári. En sé um venjulegt árferði af mannavöldum að ræða, þ.e.a.s. ekki slíkt hallærisárferði, sem núverandi hæstv. stjórn hefur komið á, þá ætti ekki að vera nein hætta á slíkri notkun flýtifyrningar.

Að því er eignarskattinn snertir, þá vildi ég segja það, að ég nefndi, að hann næmi í heild sinni við álagningu á yfirstandandi ári hér í Reykjavík 168 millj. kr., bæði eignarskattur einstaklinga og félaga. Ég dreg þess vegna í efa, að þar hefði verið um svo mikinn tekjumissi hjá ríkissjóði að ræða sem hæstv. fjmrh. tiltók eftir að hið nýja fasteignamat kom til greina.

Þá nefndi hæstv. fjmrh., að brtl., sem fluttar hafa verið hér af hálfu stjórnarandstöðunnar við skattalagafrv., hefðu verið upp á eins margar síður og skattalagafrv. sjálf. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en mínna á, að aðaltill. stjórnarandstöðunnar var um frávísun, að vísa frá skattalagafrumvarpi núv. stjórnar á þeim grundvelli, að það væri of illa undirbúið. Sú rökstudda frávísunartill. hefur í raun sýnt sig að hafa verið sönn og rétt, og ég býst við því, að það hafðu ýmsir gjarnan viljað hlíta nú þeim ráðum, sem í henni fólust. Til vara voru svo fluttar brbl., sem voru mjög viðamiklar, en þar var verið að reyna sníða verstu agnúana af skattalagafrumvarpi núverandi stjórnar.

Að því er afstöðu Sambands íslenzkra sveitarfélaga snertir, þá tók ég það sérstaklega fram í minni ræðu, að fulltrúaráðsfundur sambandsins hefði fagnað kerfisbreytingunni, en tekið það fram, sem hæstv. fjmrh. vildi ekki lesa upp hér úr ræðustóli, með leyfi forseta: „Hins vegar er ljóst, að mörg þéttbýl sveitarfélög verða að nýta alla tekjuöflunarmöguleika með öllum álagsheimildum, sem frv. felur í sér, eigi þau að ná sömu eða svipuðum tekjum og þau hefðu náð samkvæmt gildandi lögum. Nokkur sveitarfélög virðast ekki ná saman endum.“

Þetta var byggt á því, að frá Efnahagsstofnuninni lágu fyrir upplýsingar, þegar þessi fundur var haldinn, að fyrirhuguð skattalög og tekjustofnalög mundu, að teknu tilliti til lækkunar útgjalda sveitarfélaga, gefa þeim mínni tekjur heldur en þær álagningarreglur, sem sveitarfélögin beittu árið 1971, og nam sá mismunur u.þ.b. sömu upphæð og 50% álag á fasteignaskatt á öllu landinu. Það var þess vegna ljóst mál, að það lá fyrir þessum fundi, að sveitarfélögin í heild sinni þurftu að beita 50% álagningu á fasteignaskatta, en auðvitað kæmi þetta mismunandi niður á hin einstöku sveitarfélög. Og ef það var tekið með í reikninginn, hverjar álagningarheimildir sveitarfélaga voru samkvæmt fyrri lögum, þá hefði álagið á fasteignaskattana þurft að vera 140%, til þess að sveitarfélögin í landinu hefðu sömu skattlagningarheimildir og samkvæmt fyrri lögum. Það var þessi takmörkun á tekjustofnum sveitarfélaga, sem fulltrúaráðsfundurinn mótmælti og taldi skerðingu á sjálfstæði sveitarfélaganna og vinna á móti dreifingu valdsins í landinu. Og raunin varð sú, að af 14 kaupstöðum hafa 11 kaupstaðir notað einhverja af þessum heimildum, 50% álag á fasteignaskatt og 10% álag á útsvar, og þó flestir hvort tveggja. Þarna eru allir flokkar, sem bera ábyrgð á stjórn í sveitarfélaga.

Hæstv. ráðh. fór nokkuð út í fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar og breytingu á þeim. Ég vil taka það fram, að aðalhækkunin á eignabreytingareikningi hjá Reykjavíkurborg átti sér stað, þegar lagt var fram frv. að fjárhagsáætlun í byrjun desembermánaðar, áður en skatta- og tekjustofnalög ríkisstj. sáu dagsins ljós og áður en Reykjavíkurborg vissi um, hvað þau hefðu inni að halda, því að ekki fengu fulltrúar sveitarfélaganna að fylgjast með þessum frumvörpum eða undirbúningi þeirra. Þau áttu ekki fulltrúa í þeim undirbúningi. Og þegar um það var að ræða, að við höfðum ákveðið 503 millj. kr. á eignabreytingum okkar, var gert ráð fyrir tekjum, sem við mundum fá samkvæmt fyrir tekjustofnalögum. Og þá hefðum við getað notað sömu álagningarreglur og árið 1971, 6% afslátt á útsvari, 2/3 hluta aðstöðugjalda, svo að ég nefni dæmi. Þegar svo nýju lögin komu til. þá urðum við að hækka þennan eignabreytingareikning um 85 millj. kr., sem er hluti af þeim 200 millj., sem ég gat um í minni fyrri ræðu og taldi þá upp, að hver einasti einn liður í þeirri hækkun var af völdum aðgerða núv. hæstv. ríkisstj., að undanteknum einum, það eru skuldbindingar vegna togarakaupa. Og mikill hluti af þessum útgjöldum á eignahlutabreytingareikningi var bundinn því að minnka spennuna, þ.e.a.s. auka afborganirnar til að greiða rekstrarhalla fyrirtækja og fjármagna atvinnutækjakaup eins og togara.

Nú reyndust tekjustofnalögin nýju þannig, að við þurftum að leita eftir heimild til 10% hækkunar á útsvörum. Hæstv. ríkisstj. hafði það í höndum sér að neita okkur um þá hækkun, en hún treysti sér auðvitað ekki til þess. Ég virði það, að hún sýndi sanngirni í því og réttsýni. En hefði fjármálastjórn Reykjavíkurborgar verið svo óábyrg sem hæstv. fjmrh. vildi láta í skína hér áðan úr ræðustóli, þá var það auðvitað skylda hennar að gera það. En hvernig var svo útkoman í raun fyrir Reykjavíkurborg samkvæmt hinum nýju tekjustofnalögum. Við náðum ekki áætlunarupphæð útsvara, 144 millj. kr. vantaði upp á það. 10% nema 123 millj. kr. og 50% álag á fasteignaskatta nemur 130 millj. kr. Ef við hefðum átt að sleppa bæði 10% álagi á útsvar og 50% álagi á fasteignaskatta, þá hefðum við þurft að lækka eignabreytingar okkar um 397 millj. kr. Heildarupphæðin á þessum lið var 587 millj. kr.

Við hefðum þá haft á eignabreytingareikningi 190 millj. kr., eða lítið meira en fyrir afborgunum og framlagi til Strætisvagna Reykjavíkur. Það hefði þá ekkert verið til skólabygginga, spítalabygginga, íbúðabygginga, að ég tali ekki um til togarakaupa og atvinnumála. Það er ef til vill þessi staða, sem hæstv. fjmrh, vildi að kæmi upp í fjármálum Reykjavíkurborgar. Ég vil ekki trúa því. En þetta er ályktunin, sem verður dregin af hans eigin orðum. Þess vegna stendur það skýrt og óhaggað, að það er ríkisstj., sem hefur knúið sveitarfélögin í landinu til þess að nýta alla tekjustofna núverandi tekjustofnalaga sveitarfélaga til fullnustu, gagnstætt því er var áður. Samkvæmt fyrri lögum höfðu sveitarfélögin sjálf valfrelsi milli margra tekjustofna eftir aðstæðum á hverjum stað. Og þau voru ábyrg gagnvart umbjóðendum sínum, skattborgurunum sjálfum, hvað álagningin var há. Nú eru sveitarfélögin gerð meira og minna að peði í miðstjórnarvaldskerfi núv. hæstv. ríkisstj. Þetta kalla ég aðför ríkisstj. að Reykjavík og raunar aðför ríkisstj. að sjálfstæði sveitarfélaga.

Ég skal svo ekki elta ólar við ýmislegt annað í ræðu hæstv. fjmrh. Ég vil þó ítreka það, að ég vil styðja og efla hag strjálbýlu sveitarfélaganna, og hafi það orðið reyndin, sem ég dreg mjög í efa, að hagur þeirra hafi batnað við núverandi tekjustofnalög, þá er skýringin eingöngu sú, að skattbyrðin leggst á tekjulægra fólk, m.a. á tekjur útivinnandi húsmæðra, sem algengara er að vinni úti í dreifbýlinu en hér í Reykjavík.

Það var ekki getið um það einu orði hjá hæstv. fjmrh. hvernig á því stæði, — sem ég hygg vera óhrekjandi staðreynd, — að þegar gerður er samanburður á heildarskattheimtu á einstakling í Reykjavík 1971 og 1972, eins og hún kom fram í álagningu, þá hefur nettótekjuaukning einstaklinga í Reykjavík milli þessara ára numið 26.5%. Heildarskattbyrðin hefur aukizt um 49.24%, og meðan Reykjavíkurborg hefur aukið skattbyrði þegna sinna um 31%, þá hefur ríkið aukið skattbyrði einstaklinga í Reykjavík um 70%. Ég held, að það fari ekki á milli mála, þegar á þessar tölur er litið, hvert stefna ríkisstj. í skattamálum hefur leitt, og það er leitt til þess að vita, að þessi mikla aukning skattbyrðarinnar hefur engan veginn verið nægileg til þess að standa undir eyðslustefnu ríkisstjórnarinnar, eins og hér hefur komið fram í umræðum um fjárlagafrumvarpið. Þar vantar mörg þús. millj. kr., til þess að endar nái saman. Halli í ríkisbúskap, halli í þjóðarbúskap er yfirskrift yfir valdaferil núv. hæstv. ríkisstjórnar.