21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

1. mál, fjárlög 1973

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa að hafa ýkjamörg orð um fjárlagafrv. í heild eða þá stefnu, sem í því birtist. Aðrir hafa gert því þau skil á undan mér, að ég tel þess ekki brýna þörf, og ég mun því um það efni segja aðeins örfá orð.

Ég gat þess við 2. umr. frv., að það væru svo margar stærðir óþekktar í dæminu, að mjög erfitt væri og raunar ógerlegt að gera sér ákveðna hugmynd um, hver niðurstaðan yrði úr fjárlagadæminu. Maður gat vissulega vænzt þess, að við 3. umr. horfði þetta allt öðruvísi við. En ég verð að segja, að því miður hefur ekki heppnazt að ráða bót á því. Það er að vísu búið að gefa þingheimi upp, hversu tekjur eru áætlaðar miklar og útgjöld líka, en það er jafnframt tekið fram, að það muni vanta tæpan hálfan milljarð til þess að standast þær niðurgreiðslur, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Jafnframt þessu vil ég benda á það, að eftir þeim till., sem sérfræðingan. gaf ríkisstj., var það álit sérfræðinganna varðandi hverja einstaka tillögu, að það þyrfti frekari aðgerða við til þess að ná því takmarki við efnahagsaðgerðirnar, sem stefnt væri að, það þurfti að gera frekari ráðstafanir en enn hafa séð dagsins ljós í þeim ákvörðunum, sem teknar hafa verið núna síðustu daga. Ég vil því til stuðnings aðeins minna á það, að nú er gert ráð fyrir, að vísitala verði að meðaltali á árinu 1973 1221/2 stig í stað 117, sem annars átti að halda henni í. Í sambandi við það vil ég minna á, að geymt var að greiða 21/2 vísitölustig eftir kjarasamningum, sem síðan átti að taka upp núna um áramót. Á sama hátt var farið fram á það við bændasamtökin, að þau frestuðu að ganga til endurskoðunar á verðlagsgrundvelli bænda, sem þeir áttu þó rétt á að gera fyrir 1. sept. Fundur Stéttarsambandsins varð við þeim tilmælum, en orðaði það þannig í sinni ályktun, að hann láti það óátalið, þótt gerð verðlagsgrundvallar sé frestað fram til næstu áramóta, enda verði bændum tryggt það verðlag, sem felst í framreiknuðum verðlagsgrundvelli samkv. gildandi reglum miðað við 1. sept. n.k. Þarna má einnig búast við nokkurri hækkun, sennilega gæti það valdið 1-21/2 vísitölustigum eftir þeim áætlunum, sem um þetta hafa verið gerðar. Þá sýnist mér, að strax 1. marz muni vísitalan verða komin upp yfir það mark, sem henni er ætlað í fjárlagafrv, að vera yfir árið allt. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi. En ég vil benda á það um leið, að það er engin furða, þó að margir séu vantrúaðir á það, að þessar ráðstafanir komi að tilætluðum notum, eins og ég hef lýst hér, þegar það cr gefið út af einum stjórnarflokkinum, að hann sé vantrúnaður á, að þessar ráðstafanir komi að nokkru gagni. Í Þjóðviljanum segir 19. des. 1972:

„Eftir rétt ár eða fyrr verður enn að gera ráðstafanir. Enn verður að leita lausnar á vanda. Þá dugar ekkert hálfkák. Þá duga engar frestunaraðgerðir. Þá dugar ekkert minna en breyting, róttæk breyting, sem rýfur vítahringinn.“

Maður gæti kannske spurt: Hvaða vítahring? Það er ekki skýrt nánar. Er það kerfið, sem á að rjúfa, eða er það sá vitahringur, sem ráðherrastólarnir mynda, sem á að rjúfa? Þetta mun ugglaust koma í ljós, en ég á von á því, að þessar aðgerðir verði ekki til mikils, eins og þær eru framkvæmdar.

Ég læt svo útrætt um þessa hlið málsins, en ég vil aðeins í örstuttu máli gera grein fyrir till., sem við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. höfum leyft okkur að flytja við brtt., sem meiri hl. n. flytur, þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að lækka fjárveitingar til greiðslu rekstrarkostnaðar ráðuneyta, ríkisstofnana, styrkja og verklegra framkvæmda á árinu 1973, sem ekki er bundið í lögum, um allt að 15% að jafnaði. Við teljum, eins og ég rakti rækilega í ræðu minni við 2. umr. þessa máls, að þarna sé ekki farið hyggilega að. Ég rakti það þá, að sá niðurskurður, sem gerður var s.l. sumar og var tiltölulega lítill miðað við þann, sem nú á að gera, hefði komið niður mjög óeðlilega og algerlega af handahófi. Þess vegna teljum við höfuðnauðsyn, eins og ég gat um líka í ræðu minni við 2. umr., að fjvn. fjalli um þann niðurskurð, sem ríkisstj. telur, að þurfi að gera á hverjum tíma.

Hæstv. fjmrh. gat þess hér áðan í ræðu sinni varðandi þann niðurskurð, sem gerður var á fjárl. sumarið 1972, að þá hafi undirnefnd fjvn. verið með í ráðum um niðurskurðinn. Ég er nú ekki alveg sannfærður um, að þetta sé fyllilega rétt. Ég hygg, að undirnefnd fjvn., sem starfar allt sumarið, hafi ekki leyst þetta mál. Hins vegar ber þess að geta, að undirnefndir í vissum málaflokkum munu hafa fengið að fylgjast með því í nóv., hvaða hugmyndir voru uppi um þennan niðurskurð, sem þó var ekki nema aðeins 174 millj, kr. Ég tel því, að það sé nauðsyn og krafa, sem Alþ. getur sízt af öllu sleppt fram hjá sér, að sá niðurskurður, sem beitt er á fjárl., verði gerður í samræmi við og samkv. till. fjvn.

Ég get svo látið máli mínu lokið hvað þetta varðar, því að raunverulega hef ég skýrt efni till. fyrr í þessum umr., eða við 2. umr., og tel ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því.