21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

1. mál, fjárlög 1973

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Mér skilst á ræðum hv. þm. og segja má bæði þeirra, sem eru í stjórnaraðstöðu og stjórnarandstöðu, að svo ári nú, að ekki sé tiltækt að flytja margar og háar brtt. við fjárl., sem nú eru til afgreiðslu. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé svo, að varla sé unnt fyrir okkur að flytja mikið af slíkum till., jafnvel þó að okkur langi til þess og þó að við okkur blasi víðs vegar í kjördæmum okkar þörf fyrir auknar fjárveitingar. Ég mun þess vegna við þessa fjárlagaafgreiðslu ekki flytja margar till. til hækkunar á fjárl. fyrir utan þær, sem ég flyt ásamt hv. 5. þm. Norðurl. v.

Það er á þskj. 251 ein brtt., sem ég flyt um fjárveitingu til svokallaðs Hólafélags, að upphæð 500 þús. kr. Það mun hafa verið árið 1963, að héraðsfundur Skagafjarðarprófastdæmis gerði um það ályktun, að vinna skyldi að því að koma á fót þessu félagi, og var kjörin n. á þeim fundi til að vinna að því máli. Og árið eftir, ef ég man rétt, eða árið 1964, var þetta félag stofnað. Í lögum félagsins segir svo um hlutverk þess, að það sé að beita sér fyrir samtökum meðal þjóðarinnar um eflingu Hólastaðar á sem víðtækustu sviði. Skal höfuðáherzla lögð á endurreisn biskupsstólsins á Hólum og eflingu Hóla sem skólaseturs, og vill félagið vinna að því, að við hlið bændaskólans rísi upp nýjar menntastofnanir, sem hæfi þessu forna menningarsetri. Þetta félag hefur starfað síðan árið 1964, og því miður er ekki hægt að segja, að eftir það liggi mikil störf. Áður hafði verið til svonefnd Hólanefnd, og ég tel, að hún hafi unnið mikið að því að auka veg Hólastaðar. M.a. hafði hún forgöngu um, að reistur var turninn, sem byggður var til minningar um Jón biskup Arason og allir eru sammála um, að hafi orðið til mikillar prýði á Hólastað. En Hólafélagið hefur raunar fleiri áform á prjónunum en þau, sem nefnd er í 2. gr. laga þess og ég var að vitna til. Það hefur m.a. hugsað sér að reyna að vinna að því að fegra Hólastað án þess þó að raska þar nokkru, sem minnir á forna frægð staðarins, og á síðasta aðalfundi Hólafélagsins var sú ákvörðun tekin, að félagið gengist fyrir því að fegra umhverfi Hóladómkirkju, sem er, eins og við vitum, ein elzta og fegursta kirkja þessa lands. M.a. er mikil nauðsyn á því að byggja að nýju girðingu utan um kirkjugarðinn á Hólum. Þar er nú steypt girðing, sem er að molna niður og er orðin staðnum til mikils vansa. Söfnuðinum, Hólakirkjusöfnuði, er ætlað að sjá um þetta verk, en þetta er mjög fámennur söfnuður, og hann hefur ekki tök á því að sinna þessu hlutverki, ,jafnvel þó að hann ætti kost á því að fá einhver lán úr kirkjugarðasjóði, sem enn mun vera mjög fjárvana. Það er þess vegna, sem ég hef leyft mér að flytja þessa till. Hugmyndin er að verja þessu fé fyrst og fremst til þess að gera upp girðinguna í kringum garðinn, þannig að hún hæfi kirkjunni og staðnum.

Ég held, að ég þurfi ekki að lýsa þessu nánar.

Ég býst raunar við því, að þessi till. mín fái lítinn framgang hér í þinginu, þótt lítil sé, en ég vænti þess samt, að a.m.k. þm. Norðlendinga líti á mál þetta með skilningi, og ég vil minna á það, af því að ég minntist á hlutverk Hólafélagsins hér áðan, sem var m.a. það að vinna að endurreisn biskupsstólsins á Hólum, að nú á síðasta kirkjuþingi var samþ. till. frá herra biskupinum yfir Íslandi þess efnis, að skorað er á stjórnvöld að vinna að því, að biskupsstóll verði endurreistur á Norðurlandi ekki síðar en á árinu 1974. Hæstv. forsrh., sem jafnframt er kirkjumrh., er ekki staddur hér í þinginu, sé ég er, en ég vænti þess fastlega, að hann beiti sér fyrir þessu áhugamáli okkar Norðlendinga. Ég veit, að hann ber góðan hug til þessa máls, og vissulega væri það vísasti vegurinn, að þetta mál fengi framgang, eins og kirkjuþing óskar eftir, ef sjálfur hæstv. kirkjumrh. vildi beita sér fyrir því. Ég mun ræða þessi mál við hann, þegar þing kemur saman aftur eftir jólahlé, kynna mér, hvort hann sjái sér fært að beita sér fyrir þessu máli, endurreisn biskupsstóls á Norðurlandi, og ég vil taka það fram sem mína skoðun, að biskupssetrið á að vera á Hólum. En ef hæstv, forsrh. treystir sér ekki til þess, má vel vera, að ég reyni aðrar leiðir til að koma þessu máli inn í þingið og láta þá á það reyna, hvern framgang þetta mál fær á þingi.