21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

1. mál, fjárlög 1973

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála mikilvægi ríkisfjármála, þegar rætt er um verðbólguvandann. Þegar við stöndum andspænis þeim aðgerðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert í sambandi við nýja gengisskráningu, sem hefur í för með sér gengislækkun, þá er algerlega vonlaust, að slík aðgerð nái tilgangi sínum, tryggi rekstrarafkomu atvinnuveganna eða eigi þátt í því, að verðbólgan vaði ekki hömlulaust áfram, nema aðgæzla sé viðhöfð í sambandi við meðferð ríkisfjármálanna. Það þurfa samfara nýrri gengisskráningu að fara fram aðgerðir í fjármálum ríkisins, í peningamálum og í efnahagsmálum þjóðarinnar almennt, enda er það svo, að í áliti valkostanefndarinnar svokallaðrar eða efnahagsmálanefndarinnar er lögð á það mikil áherzla, að hvort sem farin er svo kölluð millifærsluleið, niðurfærsluleið eða uppfærsluleið, öðru nafni gengislækkun, sé það skilyrði, eins og þar er komizt að orði, með leyfi forseta: „Þannig væri raunverulega um að ræða þrenns konar aðgerðir, sem í einhverjum mæli fylgdu hverri sem væri af hinum þremur meginleiðum.“

Valkosfanefndin, efnahagsmálanefndin, gerði það að skilyrði, að þessar þrjár aðgerðir yrðu allar framkvæmdar að einhverju leyti. Hin fyrsta þeirra var takmörkun launabreytinga með því að breyta kaupgreiðsluvísitölunni, eins og hæstv. forsrh. lagði mjög mikla áherzlu á, að væri persónuleg skoðun sín, ef millifærsluleiðin væri farin og söluskattur hækkaður. Ég skal ekki fjalla sérstaklega um þá aðgerð hér. Hér hafa formælendur ríkisstj. hrósað sér af því, að ekki væri ætlunin að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi, en hingað til skorazt þó undan því að svara fsp. um, hver þróun kaupgreiðsluvísitölunnar væri, ef engar aðgerðir væru frammi hafðar, sem breyttu gildandi lögum um útreikning framfærslu- og kaupgreiðsluvísitölu. Önnur sú aðgerð, sem framkvæma skyldi samhliða gengisbreytingu, var að lækka útgjöld frá því, sem ráð er fyrir gert í frv, til fjárl., eins og það var, þegar það var lagt fyrir Alþ. nú í haust. Og það tók til lækkunar útgjalda bæði við rekstur og að því er til framkvæmda tekur. Og þriðja aðgerðin, sem nauðsynlegt var að framkvæma, var lækkun útlánaáforma fjárfestingarlánasjóða með því að takmarka fjáröflun til þeirra og útlán frá þeim.

Þannig er það svo, að í álitsgerð valkostanefndarinnar er gert ráð fyrir því, að ef millifærsluleið eða niðurfærsluleið er farin, þá sé lækkun opinherra útgjalda og útlána af stærðargráðunni 1600–1700 millj. kr., og ef uppfærsluleiðin er farin, þá er talið nauðsynlegt, að niðurskurður á rekstrargjöldum ríkisins, opinberum framkvæmdum og útlánum fjárfestingarlánasjóða nemi 1300–1400 millj. kr.

Það var að vísu svo, að engin þessara leiða, sem valkostanefndin beinlínis benti á, var valin. En ríkisstjórnarflokkarnir, eins og kunnugt er, komu hver um sig með sínar till: Einn, að því er ég hygg Framsfl. lagði megináherzlu á hækkun söluskatts. Annar, að því er ég tel Alþb., lagði megináherzluna á hækkun innflutningsgjalds, söluskatts og fjáraukagjalds. Og sá þriðji, að því er ég hygg SF, lagði áherzlu á uppfærsluleiðina eða gengislækkun, er næmi 16% Þegar ríkisstj. bað hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar að gera samanburð á þessum leiðum, var gert ráð fyrir því í öllum tilvikum, að dregið yrði úr gjöldum við rekstur ríkisins og framkvæmdir ríkisins, að því er næmi samtals 800 millj, kr., frá minnst 400 og upp í 800 millj. kr. Og útlánaáform átti að skera niður um nær 400 millj. kr.

Hér á hv. Alþ. hafa ráðh. lýst því yfir, að samhliða þeirri leið, sem valin var, gengisbreytingu og gengislækkun, mundi verða um 500 millj. kr. niðurskurður á gjöldum ríkissjóðs samkv. fjárl., bæði til rekstrar, styrkja og framkvæmda. Og þegar þeir hafa verið spurðir um, hvernig ætti að koma þessum niðurskurði fyrir, hvaða framkvæmdir skyldi skera niður eða útgjöld, þá hafa þeir sagt, að þeir bæru fram till. um 15% lækkun á ólögbundnum greiðslum samkv. fjárl., sem gætu numið þessari upphæð.

Í grgr. þeirri, er ég gat um áðan, frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar er sagt og staðfest, að 15% lækkun á ólögbundnum greiðslum muni nema þessari upphæð. En hagrannsóknadeildin gerir sér tæpast von um meiri niðurskurð en 400 millj. kr. frá upphaflegu frv. að fjárl. og bendir á, að við 2. umr, fjárl. hafði útgjöld samkv. þeim verið hækkuð um nær 300 millj. kr., þannig að vandamálið, áður en 3. umr. fjárl. hefst, er að þessu leyti heilar 700 millj, kr. a.m.k.

Nú hefur það komið fram í umr. hér í Sþ., að vanti í fjárl. 492 millj. kr. í gjaldahliðinni til þess að standa undir nauðsynlegum niðurgreiðslum. Þessari staðhæfingu hefur verið ómótmælt, og miðað við þá upphæð sem staðreynd er þessi niðurskurður algerlega útilokaður og ófær. Það er útilokað að nota sömu upphæðina, þessar 500 millj. kr., — möguleika sem felst í 15% lækkun á ólögbundnum útgjöldum samkv. fjárl., — hvort tveggja til niðurgreiðslna og um leið til þess að lækka útgjöld samkv. fjárl.

Það er líka svo, að allar líkur benda til þess, að aldrei verði úr slíkum niðurskurði af hálfu hæstv. ríkisstj., sem fælist í heimild af hálfu Alþ, um 15% lækkun á ólögbundnum greiðslum. Kemur bar margt til. Ég vil í fyrsta lagi benda á reynsluna frá því í sumar, þar sem ríkisstj. hafði stór orð um það að ætla sér að skera niður útgjöld fjári. um allt að 400 millj. kr. til þess að standa undir niðurgreiðslum og kostnaði við brbl. um tímabundna verðstöðvun. Við I. umr. fjárlagafrv. var æ ofan í æ innt eftir því, í hverju þessi niðurskurður fælist. Það komu engin svör. Loksins nú fyrir nokkrum dögum komu þau svör, að það hefði tekizt á pappírnum að koma þessum niðurskurði í 173 millj. kr., en sumar upphæðir voru þess eðlis, að þar var eingöngu um niðurskurð á pappírnum að ræða, en ekki raunverulegan niðurskurð, Og þrátt fyrir þennan niðurskurð er allt útlit fyrir það, að greiðsluhalli á ríkissjóði verði slíkur á þessu ári, að hann nemi um 300 millj. kr., þannig að við alþm. getum ekki gert okkur neinar vonir eða tekið ríkisstj. trúanlega, þegar hún heitir 15% lækkun á ólögbundnum greiðslum.

Við stöndum því frammi fyrir þeirri staðreynd, að ríkisstj. getur hvorki staðið við það, sem hún sjálf telur nauðsynlegt að skera niður útgjöld ríkisins um, og því siður getur hún staðið við það, sem efnahagsmálanefndin, sérfræðingar hennar sjálfrar telja nauðsynlegt að skera niður útgjöld ríkisins um, til þess að þau séu ekki svo mikil. að þau verði til þess að auka á verðbólguna í landinu, þau verði til þess að auka á halla á ríkissjóði, að þau verði til þess að auka á viðskiptahalla þjóðarinnar við útlönd.

Það hefur ekki sízt orðið til þess að magna verðbólguna í landinu í valdatíð núv. hæstv. ríkisstj., að hún á fyrsta hálfa valdaári sínu gerði þær ráðstafanir að veifa um það bil 1000 millj. kr. út í efnahagslífið, þar af um 600 millj. kr. umfram það, sem fjárlagaheimildir sögðu til á því ári, með þeim árangri, að 400 millj. kr. greiðsluhalli var á ríkissjóði það ár og 4000 millj. kr. viðskiptahalli á þjóðarbúskapnum. Útlitið fyrir þetta ár er, eins og ég gat um hér áðan, á mjög sama veg, en hvort tveggja gerir það að verkum, að hér eru í umferð sífellt verðminni peningar, sem ríkisstj. lætur prenta á grundvelli þess að taka erlend lán og reynir að fresta því með þeim hætti, að menn horfist í augu við þær staðreyndir, að menn geta ekki lifað um efni fram.

Ég afhenti hæstv. fjmrh. í gærkvöld tvær fsp., sem ég tel mjög mikilvægt, að sé svarað mjög skýrt.

Önnur fsp. er á þessa leið: Samkv. yfirlýsingum ráðh. er gert ráð fyrir, að dregið verði úr útlánaáformum opinberra lánastofnana og fjárfestingarlánasjóða í tengslum við ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar. Því er spurt: Hve háum upphæðum nemur sá niðurskurður, og í hverju felst hann?

Eins og ég gat um, var það áform allra stjórnarflokanna samkv. úrræðum þeirra sjálfra til lausnar efnahagsvandanum að skera þessi útlánaáform niður um nær 400 millj, kr. Það kemur enn fremur fram, að þetta niðurskurðaráform er til staðar, eftir að Framkvæmdastofnunin hefur samkv, frásögn valkostanefndar skorið niður útlánaáformin um 300 millj. kr., eins og stendur á bls. 68 í Nýja testamenti þeirrar ágætu nefndar. Það hefur líka komið hér fram, að fjárskortur fjárfestingarlánasjóðanna er um 3000 millj. kr., og ríkisstj. hefur ekki borið hér fram nein frv. eða greint frá því, hvernig úr þeim fjárskorti skuli ráða. Það hefur að vísu verið borið hér fram frv. til I. um heimild til lántöku í sambandi við framkvæmdaáætlun opinberra framkvæmda, sem felur í sér heimild til 1000 millj. kr. lántöku, sem er utan þessarar 3000 millj. kr. fjárvöntunar, að því er ég hygg. Og það er ætlunin að fjármagna þessar 1000 millj. kr. framkvæmdir að öllu leyti með lánum og óvíst með öllu, að slík lán fáist, eins og reynslan hefur Lent til á þessu ári, þegar útgáfa spariskírteina hefur verið árangurslaus eða réttara sagt þan ekki selzt eins og ráð var fyrir gert. Þegar á allt þetta er litið, er fullkomin ástæða til þess, að hæstv. fjmrh, svari þessari fsp., sem ég hér ber fram, og ég geri mér fastlega vonir um, að hann skýri frá áformum ríkisstj. að því er snertir niðurskurðinn, og ég bæti því við, að fróðlegt væri að vita um ráðagerðir hæstv. ríkisstj. um það, hvernig skuli brúa það bil, sem felst í 3000 millj. kr. fjárvöntun til fjárfestingarlánasjóðanna.

Þá er að hinu leytinu fsp., sem ég hef á sama veg afhent hæstv. fjmrh. í gærkvöld og vil bera fram á þessa leið: Samkv, yfirlýsingum ráðh. er gert ráð fyrir sem þætti í efnahagsaðgerðum í tengslum við gengislækkunina, að lækkuð verði útgjöld til rekstrar, styrkja og verklegra framkvæmda frá því, sem ráð er fyrir gert í frv, til fjárl. fyrir árið 1973, ef frá eru tekin áhrif gengisbreytingar á tekjur og gjöld frv. Því er spurt: 1) hvaða breytingar hafa orðið á tekju- og gjaldahlið frv. til fjárl. fyrir árið 1973, frá því að það var lagt fram, bæði er tekur til rekstrar og framkvæmda, vegna gengisbreytingarinnar? 2) Hvaða breytingar hafa orðið á tekju- og gjaldahlið frv. til fjárl. fyrir árið 1973, frá því að það var lagt fram, bæði að því er tekur til rekstrar og framkvæmda, af öðrum ástæðum en gengisbreytingunni, er miðað er við till. meiri hl. fjvn., áður en 3. umr. fjárlagafrv. hefst?

Ég vil taka það fram, að ég hef spurt hæstv. fjmrh. um, hvort hann hefði svar við þessu skriflega, og hann hefur boðið mér slíkt svar, sem frsm. minni hl. fjvn, hefur einnig látið mér í té. En það svar tel ég að vísu of ógreinilegt, til þess að fullgilt sé, en samkv. því get ég ekki betur séð en hæstv. ríkisstj. sé um það bil 1000–1500 millj. kr. frá því marki, sem hún sjálf setur sér um það, hvaða upphæð fjárl. megi nema hæst nú fyrir næsta ár, ef ekki á að stefna enn meir í ógæfuátt en nú horfir. Og ég get ekki heldur séð betur en núv. fjárlagafrv. sé um það bil 2000–2500 millj. kr. hærra en sérfræðingar ríkisstj. í efnahagsmálanefndinni telja óhætt, þótt miðað sé við um það bil 3000 millj. kr. viðskiptahalla við útlönd. Það er sem sagt allt á eina bókina lært hjá ríkisstj. frá upphafi valdaferils hennar, að hún ætlar sér að stefna í halla í ríkisbúskap og í þjóðarbúskap. Hún horfist ekki í augu við þá staðreynd, að samneyzlan og einkaneyzlan er hærri en þjóðartekjur og þjóðarframleiðsla, og af því getur ekki leitt annað en halla í ríkisbúskap og þ,jóðarbúskap. Slíkt getur gengið, meðan við njótum þess lánstrausts út á við, sem viðreisnarstjórnin á sínum tíma skapaði Íslendingum, en var glatað eftir valdaferil fyrri vinstri stjórnar. Slíkt getur gengið í stuttan tíma, en ekki til lengdar. Við erum nú þegar komnir að þeim mörkum, að byrði afborgana og vaxta er orðin svo há, að hún takmarkar getu okkar í framtíðinni til átaka við nauðsynleg verkefni þjóðinni til heilla. Þess vegna er það svo, að það fjárlagafrv., sem við nú afgreiðum í dag væntanlega, beri vitni áframhaldandi ábyrgðarleysi og úrræðaleysi hæstv. ríkisstj. þrátt fyrir gengisbreytinguna. Þrátt fyrir þær efnahagsaðgerðir, sem gerðar hafa verið, er stefnt á framhaldandi viðskiptahalla, áframhaldandi halla í ríkisbúskap. Með þeim hætti heldur verðbólgan áfram að vaxa, vaxa ríkisstj. yfir höfuð. En við skulum vonast til þess, að þjóðin beri gæfu til þess að skipta um stjórn, áður en verðbólgan vex þjóðinni allrí yfir höfuð.