21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

1. mál, fjárlög 1973

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh, gaf hér yfirlýsingu í sambandi við hugsanleg kaup á nýju skipi eða byggingu nýs skips til Vestmannaeyjaferða. Ég tel því miður, að yfirlýsingin hafi ekki verið nærri nógu ákveðin eða afgerandi, vil ég taka þetta fram í sambandi við yfirlýsinguna: Ef þm. Sunnl. mega skilja yfirlýsingu hæstv. fjmrh. á þann veg, að út úr viðræðum, sem hann ræddi um, við hæstv, ríkisstj. komi, að hún muni láta hanna skipið og leita tilboða í smíði þess, þannig að fyrir liggi, að stjórnvöld geti tekið ákvörðun í málinu, tel ég, að málið hafi þokazt nokkuð í rétta átt, og vil leyfa mér að líta á yfirlýsingu hæstv. ráðh. í þessu ljósi, ef aths. kemur ekki fram um annað, og mun þá eftir atvikum láta hana nægja.

Ég hefði haft löngun til þess að ræða nokkuð samgöngumál Vestmannaeyja, en ég vil verða við óskum hæstv. forseta um að tefja ekki umr. og mun því ekki gera það. En ég vil aðeins benda á, að þessi mál standa þannig nú, að sú n., sem Alþ, kaus á s.l. vori til þess að kanna úrbætur í sambandi við samgöngumál Vestmanneyinga, hefur lokið störfum og skilað viðkomandi ráðh., samgrh., áliti sínu, og er þar lagt til af 4 um. af 5, að byggt verði nýtt skip til þessara ferða. Það næsta, sem hlýtur að verða að gerast í málinu, er það, að áður en stjórnvöld taka ákvörðun um, hvort þau ráðast í smiði á skipinu, verði hið fyrirbugaða skip teiknað og hannað og leitað tilboða í byggingu þess. Þegar það liggur fyrir, er að mínum dómi næsta skrefið fyrir stjórnvöld að ákveða, hvort í byggingu skipsins skuli ráðizt eða ekki. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að hér er um allviðamikið mál að ræða fjárhagslega séð, en ef við lítum á það fjármagn, sem varið er til samgöngumála — og á ég þar við þær upphæðir, sem er að finna í vegáætluninni, — þá er þetta ekki svo há upphæð, að það ætti að vera neitt til fyrirstöðu fyrir stjórnvöld að taka ákvörðun um byggingu á nýju skipi, sérstaklega þegar við höfum bent á, að það sé eðlilegt og möguleiki fyrir því að fá byggingarkostnaðinn að láni að mestu leyti, jafnvel til 5 eða 10 ára, og þannig væri hægt að dreifa kostnaðinum á fjárlög þetta árabil.

Eins og ég sagði, skal ég ekki fara frekar út í samgöngumál Vestmannaeyja, en tel alveg nauðsynlegt, að við megum leggja þennan skilning í yfirlýsingu ráðh., því að ef hann er ekki fyrir hendi, liggur í augum uppi, að frekari viðræður við stjórnvöld eru því miður gagnminni en ég teldi æskilegt.

Ég hef flutt á þskj. 250 brtt. við fjárlög, þar sem er lagt til, að við 4. gr. 102 komi nýr liður, 519 Fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum 300 þús. kr. Ég hef áður bent á, að samkv. lögum er ákveðið, að fiskvinnsluskóli skuli stofnaður í Vestmannaeyjum. Lög um fiskvinnsluskóla eru að þessu leyti alveg skýr. Þar er sagt, að stofnaður skuli fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, og þess vegna er þetta tilraun til þess að koma því máli á hreyfingu. Nú er mér það ljóst, ég hef um það vitneskju frá fjvn.-mönnum, að sú skýrsla, sem þeim hefur borizt um fiskvinnsluskóla hér í Reykjavík, er mjög neikvæð. Nemendum þar hefur fækkað, ef ég man töluna rétt, úr 25 frá því í fyrra niður í 11 nú. Ég tel, að þetta sýni, að sú afstaða, sem ég og fleiri höfðum, þegar verið var að samþykkja lög um fiskvinnsluskóla, var rétt. Skólinn á að vera staðsettur utan höfuðborgarsvæðisins. Hann á að vera þar staðsettur, sem maður getur ætlað, að fólk hafi meiri áhuga á að fara í slíkan skóla heldur en hér á þéttbýlissvæðinu, þar sem fólk á þess kost að velja á milli námsbrauta og skóla - ég hygg næstum í tugatali. Þess vegna er að mínum dómi rétt að gera tilraun með að stofnsetja skóla úti á landsbyggðinni, og þá liggur það næst fyrir samkv. gildandi lögum, að það verði í Vestmannaeyjum. Ég skal geta þess, að hugmynd mín í sambandi við þetta er, að skólinn starfi til að byrja með, meðan hann getur talizt undirbúningsdeild, sem deild við stýrimannaskólann í Eyjum, hið bóklega nám. Með því móti má vissulega spara verulegt fé við rekstur skólans. Þar er húsnæði fyrir hendi, og ég hygg, að kennslukraftar séu þar að nokkru leyti fyrir hendi. Að öðru leyti eru sem betur fer til kennslukraftar aðrir, og þar á ég við þá starfsmenn, sem vinna við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum, sem tók til starfa á s.l. hausti, eins og kunnugt er. Ég kemst ekki hjá því að tefja aðeins örlitla stund við lögin um fiskvinnsluskólann. Ég hygg, að Alþ. hafi orðið nokkuð á, þegar lögin voru samþ. og vaknaði þessi spurning hjá mér, þegar ég frétti um, hvernig rekstur skólans hér í Reykjavík hefði gengið. Ég held, að í 13. gr. l., sem að efni til eru um þær námsgreinar, sem í skólanum skulu kenndar, sé allt of víðtæk, a.m.k. að því er varðar 1. stigið, sem heitir fiskiðnaðarmenn. Þar er verið með ýmiss konar námsgreinar, sem ég hygg, að fólk, sem hefur nokkurn tíma lent út úr skólakerfinu, tekið þátt í framleiðslustörfunum og vildi nú skapa sér betri aðsíöðu og aukna menntun í því sambandi, þá hygg ég, að það standi í vegi fyrir því hjá þessu fólki að fara að setjast á skólabekk með jafnvíðtækri námsskrá og þarna er gert ráð fyrir. Nú skal ég taka fram, að mér er ekki kunnugt um það, hvort sú deild, sem hér var sett á stofn í fyrrahaust, hefur tekið allar þessar námsgreinar upp hjá sér, en það eru þarna margar námsgreinar, sem mætti hverfa út úr kennslu við 1. stig og leggja því meiri þunga á hina verklegu kennslu. Ég mun skoða þetta mál betur og þá, ef mér sýnist svo, flytja síðar í vetur brtt, við lögin, því að ef við stöndum frammi fyrir því, að þetta atriði standi í vegi fyrir aðsókn að skólanum, er að sjálfsögðu ekkert annað að gera en breyta lögunum og gera þau aðgengileg fyrir það fólk, sem annars vildi sækja skólann.

Ég undirstrika það mjög ákveðið, að ég tel, að Alþ. megi ekki láta þá reynslu, sem því miður hefur komið í ljós við stofnun skólans hér í Reykjavík, verða til þess að hætta við hugmyndina um fiskvinnsluskóla. Ég tel, að þetta mál sé svo mikilvægt, að við verðum að gera aðra tilraun, hvort ekki er hægt að fá aðsókn í slíkan skóla, og ég er sannfærður um það, að ef þeirri stofnun, sem ég hef hér bent á, Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum, væri falið það að gera slíka tilraun á þeim stað, mundi það nokkuð koma í ljós, hvort hugmyndin um fiskvinnsluskóla hér á landi er raunhæf eða ekki. Því vænti ég þess, að hv. Alþ. verði við till. minni um, að þessi tilraun verði gerð og til hennar verði veitt þetta litla fjármagn, sem ég fer fram á. Ég hef upphæðina ekki hærri, vegna þess að heima í Eyjum er geymt fé, sem hefur verið gefið til stofnunar fyrirhugaðs skóla, þannig að ég tel, að þó að þarna sé ekki nema um 300 þús. kr. að ræða, þá sé vel hægt að taka upp kennslu í haust og halda henni áfram til áramóta án frekari framlags úr ríkissjóði en þarna er gert ráð fyrir.