21.12.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

1. mál, fjárlög 1973

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það væri auðvitað fullkomin ástæða til að gera rækilega úttekt á ráðabreytni hæstv. ríkisstj. hér og nú. En það verður að bíða betri tíma. Það stendur einnig svo vel á fyrir mér, að ég á enga brtt. til að mæla fyrir nú, enda ég ákaflega daufur að flytja till., sem ég veit fyrirfram um, að verða kolfelldar fyrir mér, sér í lagi ef það er um mál. sem ég ber mjög fyrir brjósti. En af því að ég á sæti í samgn. og þar af leiðandi í samvn. samgm, og hef undirritað nál. á þskj. 201, kvaddi ég mér hljóðs til að gera ath. við aðallega tvö atriði, sem fram komu í ræðu frv. frsm. n., hv. 4, þm. Norðurl. e., vegna þess að í þeim tveimur atriðum komu fram viðhorf, sem alls ekki höfðu verið orðfærð í nefndinni.

Hann upplýsti, að það hafi ekki verið um að ræða reglulegar ferðir Djúpbátsins að Eyri við Mjóafjörð við Djúp vestur. Ég ræði þessi atriði af því, að ég er ákaflega vel kunnugur þarna um slóðir og leitaði mér upplýsinga um þetta efni hjá framkvæmdastjóra félagsins, strax eftir að framsöguræðan hafði verið haldin. Ég get upplýst, að þetta er rangt. Það eru fastar ferðir vikulega til þessara staða, 52 á ári. Ég læt þess getið í leiðinni, að þessar ferðir snerta einvörðungu 3 bæi við þennan fjörð, og það má einnig upplýsa, að það mjólkurmagn, sem skiptir aðallega máli í þessu sambandi, sem flutt var á s.l. ári, 1971, voru 29 þús. lítrar samtals, svo að menn sjá, að það er ekki erindi, heldur erfiði, sem þessi vel rekni flóabátur á til þessa staðar. Þó skal ekki dregið úr þeirri nauðsyn, að þarna sé haldið uppi reglulegum ferðum. En það var rangt, sem fram kom, að svo væri ekki, og þess getið, að nú væri það ríflega til þessa flóabáts veitt, að það mætti taka upp að halda reglulega uppi ferðum að ferjubryggju við Eyri tvisvar í viku. Nú ætla ég að taka það fram, að þótt nokkur hækkun hafi verið á fjárveitingum til þessa flóabáts, fer fjarri, að hægt sé að ætla honum sérstaklega og tilkynna það sér í lagi með þessum hætti einhverjar slíkar áætlanir. En ég vil upplýsa, að stjórn Djúpbátsins hf. hefur þegar tekið ákvörðun um að fjölga ferðum á þennan stað yfir vetrarmánuðina, frá jan.- apríl og nóv.-des., og fjölga þeim þannig, að það verði tveir föstudagar í mánuði til viðbótar. Ég vil benda á, að það er örstutt leið frá Eyri í Mjóafirði í Ögur og allavega fær þann tíma, sem ferðir yrðu einvörðungu ein í viku.

Þá var það einnig og snertir þetta mál líka, sem ég hafði ekki rekið augun í fyrr, að í nál. er þess getið, að veittar eru 100 þús. kr. vegna mjólkurflutninga úr Dýrafirði gegn því, að báturinn, þ.e. Djúpbáturinn, fari tvær ferðir í viku, þegar þess gerist þörf vegna mjólkurflutninga. Ég vil einnig upplýsa, að þessi ráðagerð var aldrei rædd í samvn. samgm., aldrei á hana minnzt, heldur einvörðungu,að þessar 100 þús. kr. væru veittar sem styrkur til þess að anna mjólkurflutningum úr Dýrafirði, hvort heldur á landi eða sjó, t.d. með þeim hætti, að mjólkin yrði flutt yfir Gemlufallsheiði, sem er sú heiði af Vestfjarðaheiðum, sem allajafna er fær.

Erindi mínu er lokið. En ég tel í hæsta máta óviðfelldið, að í framsögu fyrir nál., sem ég hef ritað undir fyrirvaralaust, komi fram slíkar aths. sem þessar, og tel þær enda að engu hafandi.