21.12.1972
Neðri deild: 36. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

132. mál, siglingalög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vænti þess, að hv. þdm. hafi ekkert við það að athuga, þótt ég hafi fremur skammar signingar yfir máli þessu, svo mjög sem aðalefni tillögugerðarinnar hefur verið þæft í hv. d. nú að undanförnu. Ég ætla ekki heldur að rifja upp ástæðurnar, sem liggja til þess, að talin er brýn nauðsyn á því að festa efni till. í lög, það hefur verið gert þrásinnis áður. En það er í framhaldi af þeim breytingum á siglingalögum, sem gerðar voru á síðasta þingi. Eftir að fjarað var undan öllum árum með möguleika á því, að þessar breytingar yrðu teknar inn í frv. um breyt. á l. um almannatryggingar, litu menn til þess, að e.t.v. væri jafneðlilegt og mögulegt a.m.k., að þessi ákvæði yrðu felld inn í frv. til l. um breyt. á siglingal., sem legið hefur fyrir hv. d., og varð það að ráði. Brtt. er flutt af mér ásamt hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmasyni, hv. 2. þm. Reykn., Jóni Skaftasyni, hv. 5. þm. Sunnl., Garðari Sigurðssyni, hv. 5. landsk. þm., Stefáni Gunnlaugssyni, og hv. 10. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni. Er það væntanlega punkturinn aftan við þessa Brennu-Njálssögu.

Vil ég þá víkja að brtt. Það er í fyrsta lagi við 1. gr. á þskj. 132, að síðari efnismgr. falli niður, og í beinu samhengi við það er það, sem segir við 2. lið, að aftan við frv. bætist svofellt bráðabirgðaákvæði: „Nú hefur útgerðarmaður keypt tryggingu, sem miðast við eftirfarandi bætur, og ber hann þá ekki frekar ábyrgð samkv. 1. gr. laga þessara.“ Fyrir því er lagt til, að síðari efnismgr. falli niður í frv. á þskj. 132. Síðan kemur: „Dánarbætur: a) 1 millj. kr. við dauða, er greiðist nánustu vandamönnum (erfingjum) hins látna. b) Mánaðarlegar bætur til ekkju eða ekkils í 8 ár ber að greiða á hverjum tíma samkv. a-lið 1. mgr. 35. gr. almannatryggingalaga.“ Í þessum lið og þeim næsta er breyting frá þeirri ráðagerð, sem uppi hefur verið hingað til. En hún var sú, að þetta skyldi ekki greitt að fullu, heldur aðeins að 3/4 hlutum. „c) Mánaðarlegar bætur til barna að 17 ára aldri, þó aldrei lengur en í 8 ár, ber að greiða á hverjum tíma samkvæmt c-lið 1. mgr. sömu gr. almannatryggingalaga. 2. Slysadagpeningar og örorkubætur: a) Dagpeningar, sem greiðast eftir sömu reglum og dagpeningar samkv. 33. gr. og nema 3/4 þeirrar fjárhæðar. Heildarupphæð dagpeninga skal þó aldrei nema meiru en þeim launum, er hinn slasaði hafði fyrir slysið. b) Ef slys veldur varanlegri örorku, skal greiða örorkubætur, 3 millj. kr. við algera varanl. örorku,“ — sem jafnan er orðað þannig, að talað er um 100% örorku, og við það er vitanlega átt með þessu orðalagi, — „en hlutfallslega við minni örorku. Frá örorkubótum skal draga upphæð slysadagpeninga, sem greiddir hafa verið, og frá eingreiðslu dánarbóta skal draga örorkubætur, ef greiddar hafa verið.“

Ég vil geta þess, að þetta felur í sér, að taki útgerðarmaður slysatryggingu þá, er um er rætt í l. og 2. tölul., kemur hún í stað samningsbundinnar slysatryggingar hans, nema hún sé hærri. Þess munu finnast dæmi hjá nokkrum hópi sjómanna, farmanna, að trygging við dauða nái nú hartnær 1100 þús. kr. Þetta vildi ég, að kæmi fram.

Ég vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þennan málatilbúnað. Við flm. væntum þess fastlega, að með samþykkt brtt. okkar við frv. til l. um breyt. á siglingal. á þskj. 132 verði ráðin sú bót, sem a.m.k. nægir til bráðabirgða.