21.12.1972
Neðri deild: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

137. mál, kaupgreiðsluvísitala

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Samkv. því, hæstv. ráðh. sagði, er hér fyrst og fremst um að ræða frv. til l. um það að taka af tvímæli um, hvort kauplagsnefnd sé rétt eða skylt að taka ákvarðanir um kaupgreiðsluvísitöluna 1. jan. Út af fyrir sig sé ég ekki neitt nema eðlilegt við það, að kauplagsnefnd reikni út vísitöluna 1. jan. varðandi það, sem hæstv. ráðh. vitnaði til. Um ágæti hinna og þessara hundakúnsta fyrir launþega í sambandi við vísitöluna skal ég ekki innleiða umr. nú, en við sjálfstæðismenn munum ekki taka afstöðu til málsins og ekki bregða neinum fæti fyrir, að málið geti fengið framgang.