25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv., sem hér er til umr. og tel það vel farið, ef það næði fram að ganga. Í öðru lagi langar mig að taka undir orð hæstv. ráðh. varðandi það að koma betra horfi á vinnuskilyrði eða vinnumöguleika aldraðs fólks. Þetta hygg ég, að sé, eins og hann réttilega tók fram, eitt af þeim málum, sem mestu skiptir aldrað fólk nú til dags.

Annars langaði mig að gera þessi mál ofurlítið almennt að umræðuefni, þó að ég skuli reyna að vera eins stuttorður og ég framast get.

Það hefur komið í minn hlut að skipta mér nokkuð af málefnum aldraðra, sérstaklega í sambandi við elliheimili norður á Akureyri, og mér hefur orðið æ ljósara, að það þarf að vinna að þessum málum á margan hátt: Í fyrsta lagi það, sem ráðh. nefndi hér áðan, aðstoð á heimilunum og óviða er gert að nokkru ráði nema helzt hér á höfuðborgarsvæðinu, eftir því sem ég veit bezt. Í öðru lagi væri mikil nauðsyn á, að það væru til svokölluð dagvistarheimili fyrir aldrað fólk, því að í æ ríkara mæli háttar nú þannig til, að þó að hægt sé að búa öldruðu fólki góða vist á heimilum, þá dvelur það aleitt yfir daginn, vegna þess að allir, sem annars eru heimilismenn, eru úti í starfi. Þetta hefur orðið í æ ríkara mæli, eftir því sem húsmóðirin á hverju heimili vinnur meira og meira úti.

Í þriðja lagi þarf svo að bæta skilyrði þeirra elliheimila eða dvalarheimila, sem fólkið býr á allan sólarhringinn, og skilyrðin þar þarf að bæta frá því, sem nú er, og auðvelda sveitarfélögum að koma þeim upp, og einmitt í þá áttina gengur þetta frv.

En í fjórða lagi kemur svo alltaf að því, þegar fólk hefur komið inn á slík dvalarheimili, að rekur að því innan tíðar, að gamla fólkið þarf þaðan og á sjúkraheimili, sem er þó allt of dýrt, ef um er að ræða beinlínis sjúkrahús, eins og algengast er í dag. Það vantar sem sagt mjög tilfinnanlega heimili fyrir gamalt fólk, sem ekki þjáist af neinu sérstöku, en þarf hjúkrunar- og læknisumönnunar við daglega. Á Akureyri eru mikil þrengsli við sjúkrahúsið, svokallað Fjórðungssjúkrahús, og hefur orðið að taka þar, má ég segja, svo til alveg eina hæðina undir gamalt fólk, sem þar dvelur og ekki þarf sérstakra lækninga við, en þarf alltaf að vera undir hjúkrun og læknishendi. Ríkið og sjúkrasamlög verða þarna að greiða há daggjöld, af því að þetta er viðurkennt sjúkrahús, en vafalaust gæti þjóðfélagið komizt af með ódýrara vistrúm fyrir þetta fólk og jafngott, ef allar aðstæður væru athugaðar út frá þessu sjónarmiði. Sama gildir um Kristnesbælið. Þar er að verða mjög áskipað af öldruðum hjúkrunarsjúklingum, sem þurfa hjúkrunar og umönnunar við, og má segja, að þeir taki upp vistrúm, dýrt vistrúm, fyrir fólki, sem annars gæti notið þess og þyrfti frekar á því að halda vegna tímabundinnar læknisumsjár.

En ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var ekki sízt þetta, sem ráðh. var að benda á. Það er þetta, að þjóðfélag eins og okkar, þar sem brýn þörf er á svo til hverri vinnandi hönd, má alls ekki við því að dæma svo stóran hóp þjóðfélagsþegnanna úr leik eins og við í raun og veru erum að gera með því fyrirkomulagi, sem er í dag, þegar við segjum: Gerðu svo vel, þú ert orðinn 67 ára eða kannske sjötugur. Við höfum ekki verkefni fyrir þig. — Margt af þessu fólki er í fullu fjöri og þjáist svo árum skiptir af því að fá ekki að vinna. Þetta er atriði, sem þjóðfélagið þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar.