29.01.1973
Neðri deild: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

Eldgosið í Vestmannaeyjum

Forseti (GilsG):

Þegar almenn þingstörf hefjast nú að nýju, er hugur okkar allra bundinn við þá ógnþrungnu atburði, sem gerzt hafa og eru að gerast úti í Vestmannaeyjum. Undir slíkum kringumstæðum finnur maður vissulega, hversu vandfundin eru hin réttu orð til að túlka það, sem inni fyrir býr, og hversu orðin ein eru máttvana. Þó finnst mér vart mögulegt að hefja hér hversdagsstörf á þann veg að láta sem ekkert sé. En fjölyrt skal ekki að sinni. Á þessum stað og þessari stundu vil ég einungis láta í ljós þá ósk mína og von, að Alþ. megi bera gæfu til að eiga sem fyllstan og beztan hlut að lausn þeirra margvíslegu vandamála, sem upp eru komin vegna náttúruhamfaranna, þeirra sem í mannlegu valdi stendur að leysa. Af viðræðum við fólk úr öllum flokkum og af ýmsum stéttum er ég þess fullviss, að landsmenn vilja, að nú um sinn þoki um set dægurþras og rígur og allir innan hinnar íslenzku þjóðarfjölskyldu leggist á eitt. Í góðu trausti þess, að með þeim hætti verði að málum staðið og í slíkum anda unnið hér í þingsölunum, býð ég hv, þdm. velkomna til starfa.