29.01.1973
Neðri deild: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

Eldgosið í Vestmannaeyjum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil við þetta fyrsta tækifæri, sem mér gefst, flytja hér þakkir fyrir auðsýnda samúð og vináttuhug, sem Vestmanneyingum hefur verið sýndur í sambandi við þær náttúruhamfarir, sem yfir standa. Ég leyfi mér að flytja forseta Sþ., forseta þessarar hv. d. og alþm. öllum þennan þakklætisvott okkar Vestmanneyinga, einnig forseta Íslands, biskupinum yfir Íslandi, hæstv. forsrh. og ríkisstj. allri. Einnig og ekki síður vil ég flytja hinum fjölmörgu einstaklingum, samtökum, félagasamtökum, samtökum sveitarfélaga þakkir okkar fyrir auðsýnda samúð og vináttu og alla þá margvíslegu fyrirgreiðslu, sem allir þessir aðilar hafa látið í té. Ég get sagt þetta í einu orði: Ég vil flytja þessar þakkir til þjóðarinnar allrar. Hvar sem á hefur þurft að halda, höfum við fengið hin sömu einlægu svör, að allt væri til reiðu til þess að greiða úr hínum margvíslegu vandamálum, sem að hafa steðjað.

Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að ræða afleiðingar hamfaranna. Slíkt er útilokað. Þetta stendur yfir, og því miður lítum við ekki og sjáum ekki fyrir endann á hinum margvíslegu vandamálum, sem upp koma í þessu sambandi.

Þá vil ég ekki síður og ekki sízt þakka það fyrirheit, sem ríkisstj. Íslands hefur gefið um efnahagslega fyrirgreiðslu, þegar vandamálið hefur verið skoðað og við kunnum að sjá að einhverju leyti fyrir endann á því.

Eins og ég sagði í upphafi, vildi ég nota þetta fyrsta tækifæri til að koma hér á framfæri þakklæti — okkar Vestmannaeyinga allra fyrir hina margvíslegu og margþættu samúð, vináttu og fyrirgreiðslu, sem við höfum orðið aðnjótandi í sambandi við þá atburði, sem nú eru að gerast í okkar heimabyggð. Takk.