29.01.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

141. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda í Vestmannaeyjum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ógnaratburði þá, sem gerðust aðfaranótt 23. jan. s.l., þarf ekki að rifja upp hér, né heldur þau ósköp, sem síðan hafa gengið yfir Vestmannaeyjar og Vestmanneyinga. Hugur manna, ekki aðeins Vestmanneyinga, heldur landsmanna allra, hefur snúizt um þau ótíðindi og snýst um þau ótíðindi.

Ekki þarf heldur að fjölyrða um það, að náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum hafa valdið gífurlegri röskun á högum og kjörum Vestmanneyinga. Það er tvímælalaust skylda samfélagsins að standa straum af kostnaði af þeim skyndiráðstöfunum, sem nauðsynlegar reyndust og reynast til þess að flytja íbúa Vestmannaeyja til lands, sem og þeim ráðstöfunum, sem nauðsynlegar kunna að reynast til þess að tryggja þeim húsnæði, örugga lífsafkomu og alla félagslega aðstöðu þann tíma, sem þeir dveljast fjarrí heimabyggð sinni. Þess er auðvitað enginn kostur að meta það af neinni nákvæmni nú, hve mikla fjármuni þurfi til þessa. En jafnvel þótt gosið réni fljótt, er fyrirsjáanlegt, að samfélagið gæti þurft að leggja fram í þessu skyni fjárhæðir, sem taldar verða í hundruðum millj. kr.

Náttúruhamfarirnar í Vestmannaeyjum eru einn þeirra atburða, sem gera öll orð og tölur vanmegna. Þó geta menn gert tilraun til að meta stærð þess vanda, sem jarðeldurinn í Heimaey leggur okkur á herðar, og jafnframt, til hvers konar fjárhagsráðstafana sé nauðsynlegt að grípa til að tryggja, að þjóðin í heild leggi á sig það, sem þarf til þess að bæta íbúum Vestmannaeyja það tekju- og eignatjón, sem þeir hafa orðið fyrir eða gætu orðið fyrir.

Vestmannaeyjar eru, svo sem kunnugt er, ein mikilvægasta verstöð landsins. Á undanförnum árum hefur hlutdeild þeirra í íslenzkum sjávarútvegi verið a.m.k. um 12–13% að meðaltali. Á árinu 1973 eða á þessu ári hefði mátt búast við því, að útflutningsframleiðsla Vestmannaeyja hefði orðið um 200 millj. kr. Jafnvel þótt gosið gengi niður, er við því að búast, að ekki verði um rekstur fiskvinnslufyrirtækja að ræða í Vestmannaeyjum á vetrarvertíðinni og því miður varla á þessu ári. Þannig hlýtur að verða verulegt útflutningstap á árinu 1973, þótt fiskifloti Vestmannaeyja sæki frá öðrum verstöðvum. Á þessu ári gæti þetta útflutningstekjutap lauslega áætlað orðið a.m.k. um 1000 millj. kr.

Sjávarútvegurinn er að sjálfsögðu undirstaða tekjumyndunar í Vestmannaeyjum. Ætla má, að heildartekjur Vestmanneyinga hefðu orðið um 1700 millj. kr. á árinu 1973 eða tæplega 3% af þjóðartekjunum. Ósköpin, sem yfir Vestmannaeyjar dundu, hljóta að valda verulegri skerðingu þessara tekna, jafnvel þótt flestu því fólki, sem giftusamlega tókst að bjarga í land, megi fljótlega finna atvinnu við hæfi. Á því leikur enginn vafi, að þjóðfélaginu ber að leitast við að bæta Vestmanneyingum tekjumissi þeirra, sem á þessu ári gæti numið a.m.k. helmingi eðlilegrar tekjumyndunar í Vestmannaeyjum.

Jarðeldurinn í Heimaey stofnar í stórhættu öllum mannvirkjum í Vestmannaeyjum. Þess er enginn kostur að meta nú af nákvæmni, hvert sé heildarverðmæti þeirra eigna, sem í Eyjum eru bundnar, né heldur, hvernig meta eigi líkurnar á því, hvort eða að hve miklu leyti þær fari forgörðum vegna eldgossins. Hér eru óvissuatriðin afar mörg. Lauslegar áætlanir benda til þess, að endurnýjunarverð þeirra eigna, sem óflytjanlegar mega teljast, séu í námunda við 10 milljarða kr. Við þær aðstæður, sem nú blasa við, sýnist óvarlegt að ætla lægri fjárhæð en 1000 millj. kr. þegar á þessu ári til þess að mæta kostnaði við vernd og endurreisn byggðar Vestmanneyinga og til þess að bæta eignatjón. Síðar gæti þurft hærri fjárhæðir í þessu skyni, auk þess sem óefað þarf að létta skuldabyrði af Vestmanneyingum vegna eigna, sem nú hafa orðið þeim óarðgæfar í einu vetfangi af völdum blindra náttúruafla.

Niðurstaða skyndiathugunar á umfangi þess tjóns, sem af eldgosinu á Heimaey hlýzt, hefur orðið sú, að þegar á þessu ári gæti þurft að afla a.m.k. 2000 millj. kr., til þess að tryggt sé, að þjóðfélagið geti örugglega rækt skyldur sínar við Vestmanneyinga. Jafnframt er ljóst, að það áfall. sem þjóðarbúið í heild hefur orðið fyrir, gerir það brýnt, að nokkuð verði dregið úr heildarútgjöldum og innflutningi. Það má öllum vera ljóst, að þegar sá landstólpi, sem Vestmannaeyjar eru, verður fyrir slíku áfalli, þá verður þjóðin í heild að draga nokkuð úr útgjöldum sínum, auk þess sem tryggja þarf tilfærslu fjármuna til þess að sinna þjóðfélagslegum skyldum við Vestmanneyinga. Til þess að sú aðstoð sé örugglega tryggð, ríður á, að traust jafnvægi sé í þjóðarbúskapnum öllum.

Það er auðvitað ekki kostur að gera sér tæmandi grein fyrir, hvaða verkefnum þarf að sinna vegna vandans. En nefna má þó nokkur augljós atriði. Í fyrsta lagi er það t.d. ljóst, að greiða þarf margvíslegan kostnað vegna björgunarstarfs, flutninga og röskunar á högum manna vegna náttúruhamfaranna. Verður væntanlega þörf mikilla útgjalda í þessu skyni, á meðan neyðarástandið í Vestmannaeyjum helzt. Það er enn fremur ljóst, að veita verður Vestmanneyingum bætur vegna tekjumissis, sem fjölmargir þeirra hafa orðið fyrir og verða fyrir, vegna þess að þeir hafa ekki lengur og geta ekki lengur stundað störf sín, svo og vegna sérstakra útgjalda, sem á þá hafa hlaðizt vegna afleiðinga eldgossins. Þá er bersýnilega nauðsynlegt að veita verulega fjárhagsaðstoð til að leysa félagsleg vandamál þeirra Vestmanneyinga, sem hafa orðið að flytjast brott vegna eldgossins. Hér ber auðvitað húsnæðisvandamálin hæst, en skólamálin og umönnun sjúkra og vanmegnugra eru einnig ærin verkefni. Ætla má, að nauðsynlegt verði að veita styrki til þess, að útgerðarfyrirtæki og aðrir, sem verða um sinn að stunda atvinnu sína og rekstur utan Vestmannaeyja, fái til þess sem bezta aðstöðu. Einnig getur orðið þörf fjárhagsaðstoðar til flutnings á fiski, svo að fiskveiðifloti Vestmannaeyja geti nýtzt sem bezt á vertiðinni. Í fimmta lagi má nefna það, að á Vestmanneyingum hvíla að sjálfsögðu miklar skuldbindingar um greiðslur afborgana og vaxta af lánum til fjárfestingarlánasjóða og annarra stofnana, og er mikilvægt, að hlaupið sé undir bagga í því efni, á meðan neyðarástandið helzt, svo að ráðstöfunarfé lánastofnana dragist ekki saman af þessum sökum. Auðvitað verður að veita Vestmannaeyjakaupstað allan nauðsynlegan fjárhagsstuðning á meðan á neyðarástandi stendur, en tekjustofnar hans munu flestir að engu verða. Hins vegar þarf hann og aðrir opinberir aðilar að taka á sig margvíslegan kostnað til þess að vernda mannvirki og eignir í Vestmannaeyjum og halda þar uppi nauðsynlegri þjónustu. Sama máli gegnir um aðra opinhera aðila, ríkissjóð, Tryggingastofnun ríkisins, Almannavarnir o.s.frv. Allir munu þessir aðilar þurfa að taka á sig mikil útgjöld vegna neyðarástandsins í Vestmannaeyjum og aðgerða í þágu Vestmannaeyinga.

Strax og náttúruhamförunum linnir, verður það meginverkefnið að vinna að endurreisn byggðar í Vestmannaeyjum með því að veita fé til að lagfæra svo fljótt sem unnt er mannvirki og eignir, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum gossins. Má reyndar segja, að jafnvel strax þurfi að fara að athuga um framtíðaráætlun um endurbyggingu og endurreisn byggðar í Vestmannaeyjum, og það þyrfti sem fyrst að setja til þess kunnáttumenn að fara að kynna sér það efni og vinna að því.

Ríkisstj. tók þessi mál strax fyrir að morgni dags 23. jan. og gerði þá þegar nokkrar skyndiráðstafanir í þessum efnum. Þannig setti hún á laggirnar þá strax n., sem var falið það verkefni að rannsaka, hverjar afleiðingar þetta mundi hafa á efnahagslega afkomu þjóðarbúsins, og reyna að benda á úrræði til að draga úr þeim. Enn fremur var ráðuneytisstjórum í þeim rn., sem viss málefni, sérstaklega húsnæðismálin, hlutu að vita að, og viss félagsleg efni, þ.e.a.s. ráðuneytisstjórunum í félmrn., trmrn. og fjmrn., falið að vinna að þeim málum í samráði við Rauða kross Íslands og að sjálfsögðu í samráði við bæjarstjórn Vestmannaeyja. Jafnframt var sú ákvörðun tekin, að Almannavörnum var falið að hafa á hendi áfram björgunar- og gæzlustarf varðandi Vestmannaeyjar. Og mér er óhætt að segja, að að því hafa þær unnið ósleitilega síðan, auðvitað í samráði og samvinnu við og jafnvel eftir forsögn bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Í fjórða lagi var svo ákveðið, að þau rn., sem sérstakir málaþættir, sem ég hef nú nefnt suma hér að framan, lúta undir, skyldu taka þá til sérstakrar athugunar, eins og t.d. sjútvrn. málefni varðandi fiskiflotann og útgerðina, menntmrn. málefni varðandi skólana og fræðslumálin o.s.frv.

Það var jafnframt þegar ákveðið, að leitað yrði samráðs við stjórnarandstöðuna, og hef ég haft fundi með formönnum stjórnarandstöðunnar og þeir hafa mætt á ríkisstjórnarfundi, þegar rætt hefur verið um málið, a.m.k. einu sinni.

Ríkisstj. gerði þegar ráðstafanir til þess að semja frumdrög að frv. til l. um neyðarráðstafanir í Vestmannaeyjum. Þau frumdrög voru lögð fyrir stjórnarandstöðuflokkana. Kom fram við athugun á þeim, að þar var, eins og ekki mátti óeðlilegt teljast, ágreiningur um viss atriði, en hins vegar virtist — og mér er óhætt að kveða fastar að orði og segja: það kom fram hjá þeim, að þeir teldu sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa samstöðu um þetta mál og allt væri gert, sem unnt væri, til þess að skapa fullan einhug um málið, og komu fram í því sambandi víssar ábendingar. Eftir að hafa athugað þær og þetta mál allt í heild að nýju, hefur það orðið niðurstaðan að flytja þá þáltill., sem hér liggur fyrir. En hún er um það, að Alþ. kjósi n. 7 alþm, til þess að gera till. um neyðarráðstafanir vegna eldgossins á Heimaey og um fjáröflun þeirra vegna. Þessi n. á þegar að hefja starf og skila till. sínum í frv.-formi svo fljótt sem nokkur kostur er. Till. n. skulu við það miðaðar, að búsifjar af völdum náttúruhamfaranna séu bornar af þjóðinni allri sameiginlega. Í þessu felst viljayfirlýsing, sem ég efast ekki um, að öllum hv. alþm. er ljúft að taka undir. En vegna þess að í þessu efni hefur verið vikið nokkuð frá þeirri leið, sem af ríkisstj. hálfu var upphaflega hugsuð í þessu efni, er óhjákvæmilegt, þó að þessi n. eigi að vinna hratt, — og ég vænti þess, að hún skili verkefni sínu skjótt, — að einhver dráttur verði á því, og því óhjákvæmilegt að gera nú vissar ráðstafanir til þess að afla reiðufjár, sem geti verið til ráðstöfunar til að gera þær ráðstafanir, sem nú þegar eru óhjákvæmilegar á ýmsum sviðum. Þess vegna er farin sú leið að fara fram á það, að Alþ. heimili ríkisstj. bráðabirgðalántöku að upphæð allt að 500 millj. kr., og er farin sú leið til þess að reyna að koma í veg fyrir alla tortryggni í þessu sambandi að fela þeirri n., sem ríkisstj. skipaði 23. jan., að hafa á hendi úthlutun þessa fjár. Í þessari n. eru menn frá öllum flokkum, þó að ríkisstj. hafi skipað hana að formi til. þannig að allir flokkar eiga að geta borið traust til þeirrar n., og í skipunarbréfi hennar var beinlínis tekið fram, að hún skyldi hafa samráð við bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Það er, eins og segir í þeirri stuttu grg., sem fylgir þessari þáltill., auðvitað alveg óhjákvæmilegt að gera neyðarráðstafanir vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum. Um það getur alls enginn ágreiningur verið, og ég held, að það geti heldur enginn ágreiningur verið um það, að þær eigi að byggja á sameiginlegu átaki þjóðarinnar allrar. Til þess að slíkt megi verða, er nauðsynlegt að skapa sem mestan einhug þings og þjóðar um málið. Ég sagði: skapa, en það ætti í raun og veru ekki að þurfa að hafa það orð, af því að ég veit, að fyrir hendi er þegar einhugur manna um það og þjóðin vill, að þannig sé að þessu máli staðið.

Ég fæ ekki séð, að önnur starfsaðferð geti betur tryggt samstöðu allra þm. um þetta mál heldur en sú, sem hér er stungið upp á, að þm. allra flokka eigi þess kost að vinna að undirbúningi þeirra till., sem á að byggja neyðarráðstafanirnar á, jafnt stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar. Ástæðan fyrir því, að ég ber þessa till. fram, er einmitt þessi, að ég vil og ríkisstj. vill fyrir sitt leyti vinna að því af heilum hug, að alger samstaða geti orðið á Alþingi um þær ráðstafanir, sem endanlega verða gerðar. Hitt er annað mál. að stjórnin, eins og ég sagði áðan, hefur látið vinna að þessu máli og stjórnin hefur algerlega tilbúið frv. um þetta efni, um neyðarráðstafanir í Vestmannaeyjum. Ég tel ekki viðeigandi, þegar sá háttur er hafður á sem hér er gert, að ætla þingmannanefnd að semja frv. um þetta efni, að fara hér að rekja efni þess frv., sem ríkisstj. hefur látið semja. En sú þingmannanefnd, sem hér verður kjörin, fær að sjálfsögðu í hendur þetta frv., og það verður svo hennar að meta það, að hve miklu leyti hún getur stuðzt við þær hugmyndir, sem þar eru settar fram, eða að hve miklu leyti hún vill á því byggja. En hvað sem um það er, þá er ég ekki í nokkrum vafa um, að það getur orðið henni til mikils léttis við starf hennar að hafa þannig frv. fyrir hendi, jafnvel þó að hún vildi fara inn á annan grundvöll en það frv. er á byggt. Jafnframt því sem þetta frv. hefur verið samið af sérfræðingum, hefur verið safnað margvíslegum upplýsingum. Þær upplýsingar verða að sjálfsögðu lagðar fyrir þingmannanefndina, sem fær málið til meðferðar, verði þessi þáltill. samþykkt, sem ég vil ekki draga í efa. Sömuleiðis verða auðvitað þeir sérfræðingar, sem hafa unnið að þessu máli fyrir ríkisstj., til reiðu fyrir nefndina.

Eins og ég sagði áðan, tel ég ekki ástæðu til og ekki viðeigandi að fara að rekja efni þess frv. í einstökum atriðum, sem ríkisstj. hefur látið semja og er, eins og ég sagði, alveg fullsamið. En hitt vil ég segja, og það er ekkert launungarmál, að höfuðhugsunin í því hefur verið sú að mynda sérstakan sjóð, mjög myndarlegan sjóð, sem gæti haft yfir að ráða a.m.k. 2–3 þús. millj. kr., og í frv. er gert ráð fyrir fjáröflun í hann, sem byggð er á þeirri hugsun, að hver og einn leggi fram sinn skerf til þessa sjóðs. En það mun nefndin að sjálfsögðu sjá og kanna betur, þegar hún fær þau gögn í hendur, sem safnað hefur verið og geta orðið, eins og ég sagði áðan, að mínu viti til þess að létta henni þau störf, sem henni verða falin.

Ég vil vegna þess, að það hafa verið í gangi bæði leynt og ljóst nokkrar sögusagnir varðandi þetta mál, víkja aðeins að þeim.

Það hefur verið sagt, — a.m.k. hefur það verið sagt á götunni og manna á milli og reyndar kannske hvarflað að því í fjölmiðlum, — að ríkisstj. hafi hafnað einhverri aðstoð, sem boðin hefur verið fram af hendi erlendra ríkja. Þetta er alger misskilningur. Þeim ríkjum öllum, sem boðið hafa fram aðstoð í þessum efnum, hefur verið þakkað með þeim orðum, sem maður hefur bezt getað ráðið yfir, og tekið fram, að aðstoð yrði að sjálfsögðu þegin með þökkum. Það er auðvitað engri þjóð vansæmd að því að þiggja aðstoð við þessar kringumstæður, þó að vitaskuld sé það frumskylda okkar að hjálpa okkur sjálfir. En það hefur jafnframt verið tekið fram, hvort heldur þessu hefur verið svarað með skeytum, þegar þannig hefur staðið á, eða í munnlegu viðtali við þá fulltrúa, sem hafa borið skilaboð um þetta, að það yrði að athuga nánar, um hvers konar aðstoð gæti verið að ræða, í hvaða formi hún gæti verið og hvernig hún gæti komið að mestu gagni. Og nú þegar er utanrrh. og utanrrn. farin að hefja viðræður við sendiherra þessara ríkja um þessi efni. Þarna kemur margt til greina. Ég skal bara nefna sem dæmi, að það er vitað, að í sumum þeim löndum, sem boðið hafa fram aðstoð, eru aðstæður þær, að þar eru framleidd hús, tilbúin, sem fljótlegt er að setja upp. Það yrði m.a. verkefni að athuga, hvort aðstoð eða fyrirgreiðsla gæti komið fram í þeirri mynd í vissum löndum, sem boðið hafa fram aðstoð, að þau gætu lagt fram hús til þess að bæta úr þeim mikla húsnæðisskorti, sem vitaskuld verður um að ræða. Þó að úr þessu hafi verið bætt í bili með mikilli fórnfýsi, getur slíkt ekki staðið til langframa. En þetta er aðeins dæmi um þá aðstoð, sem hér gæti komið til greina. Enn fremur veit ég ekki betur en að á embættismannafundi Norðurlanda, sem ég hygg, að standi einmitt yfir nú í dag, muni verða rætt um það sameiginlega af hálfu Norðurlandanna, hvernig þau geti veitt þá aðstoð, sem þau vilja leggja fram. Það er þess vegna binn hrapallegasti misskilningur, að það hafi verið slegið hendinni á móti nokkurri aðstoð, sem boðin hefur verið fram, hvaðan sem hún hefur verið boðin fram. Er ástæða til að leiðrétta þetta vegna þess, hversu þessi orðrómur hefur verið útbreiddur. En sjálfur má ég gerzst um þetta vita, vegna þess að svo hefur einmitt staðið á, að á þessum stutta tíma sem liðinn er, hef ég lengst af í fjarveru utanrrh. gegnt starfi hans, og það hefur því komið í minn hlut að afgreiða þessi mál.

Í öðru lagi hafa verið Gróusögur um það í gangi, að hafnað hafi verið einhverri aðstoð af hálfu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Þetta er einnig alger misskilningur. Það hefur þvert á móti að frumkvæði almannavarnaráðs samkv. beinum fyrirmælum mínum verið haft fullt samráð við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um það, á hvern hátt það gæti tekið þátt í björgunarstarfseminni, og það hefur hvað eftir annað lagt fram sinn skerf í þessu sambandi, og hann hefur verið þeginn með þökkum og þeim þakkað fyrir það. Það hefur hvorki staðið á neinni fyrirgreiðslu af hálfu þeirra í þessu sambandi né heldur hefur verið hafnað nokkurri fyrirgreiðslu, sem þar hefur getað komið til greina. Um þetta geta borið vitni margir menn, sem sitja í almannavarnaráði og hafa haft með þessi mál að gera. Ég vil segja einnig um þetta, að það er illa gert að breiða út sögur eins og þessar, þegar hugarástand er ríkjandi eins og eðlilegt er vegna áfalls sem þessa.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt mjög úr þessu. Ég vil aðeins leyfa mér að lokum að minna hv. alþm. á það, sem forseti Íslands mælti strax um morguninn eftir ógnarnóttina miklu, aðfaranótt 23. janúar. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta er vissulega mál þjóðarinnar allrar, það mun Vestmanneyingum vera óhætt að treysta á. Það þarf minna en þessi ósköp til, að Íslendingar finni, að þessi fámenna þjóð er líkust stórri fjölskyldu, sem veit, að það, sem á einn er lagt, það er lagt á alla. ... Og þangað til sárin eru gróin, hver sem verða kunna, er það landsmanna allra að leggja fram liðsinni sitt, í hvaða mynd sem að gagni má koma, hvers eftir sinni getu.“

Ég efast ekki um, að hv. alþm. allir taka undir þessi orð. Ég leyfi mér enn fremur að minna á þau orð, sem hæstv. forseti Sþ. lét falla hér á fyrsta degi eftir þingfrestun, þar sem hann sagði: „Það fer ekki á milli mála, að hér á Alþingi munu menn snúa bökum saman við lausn þessara miklu vandamála, sem fjölmargir einstaklingar og þjóðin í heild standa nú frammi fyrir.“ Og ég má e.t.v. til viðbótar minna á það, sem ég sagði að kvöldi hins 23. jan., en ég sagði þá, að það væri skylda samfélagsins að gera allt, sem unnt væri, til að tryggja stöðu Vestmanneyinga og bæta þeim tjón þeirra. Þjóðin öll yrði að jafna þessu tjóni á sig, hér væri um sameiginlegan vanda þjóðarinnar að ræða og til yrði að koma alger samábyrgð þjóðfélagsins. Og ég lét í ljós það álit mitt, að allir íslendingar yrðu fúsir til þess að leggja fram sinn skerf, og sagði, að það væri stefna ríkisstj., að þannig yrði staðið að þessu máli. Og ég bætti því við, að ég væri sannfærður um, að um það viðhorf yrði ekki ágreiningur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég vil vissulega vona, að ég reynist ekki falsspámaður í þessu efni.

Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er mjög skýr og um afmörkuð atriði. Afgreiðslu hennar þarf að hraða. Ég tel, að stjórnin hafi haldið þannig á málinu, að hún verði ekki sökuð um aðgerðaleysi í því. Þetta er annar starfsdagur Alþingis eftir þingfrestun, og þá leggur ríkisstj. málið í hendur Alþingis með þeim hætti, sem hér er gert. Það er knýjandi nauðsyn að koma þeirri þingkjörnu n., sem á að fá það verkefni, sem í till. segir, sem fyrst á laggirnar. Það er enn fremur knýandi nauðsyn, að ríkisstj. fái heimild til þeirrar bráðabirgðafjáröflunar, sem felst í þessari þáltill., til þess að hægt sé að fara að ráðast af myndarskap í það að glíma við þau margvíslegu verkefni, sem kalla að í þessum efnum og þola ekki bið. Ég tel þess vegna ekki ástæðu til að vísa þessari þáltill. til n., og ég mun fyrir mitt leyti ekki gera till. um það, en óska eftir því, að máli þessu verði hraðað sem mest. Ég tel nauðsynlegt, að þetta mál verði afgreitt, áður en við förum úr þinghúsinu í dag eða í kvöld, eða þótt það yrði komin nótt. Það hafa margir lagt á sig svo margar vökunætur, að við ættum ekki að telja slíkt eftir. En mér dettur ekki í hug, að til slíks komi. Mér væri algjörlega óskiljanlegt, ef það væri ekki algjör einhugur um afgreiðslu þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, en ég leyfi mér að óska eftir því, að till. verði vísað til síðari umr.