29.01.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

141. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda í Vestmannaeyjum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrstu orð mín skulu vera þau að láta í ljós djúpa samúð í garð Vestmanneyinga, sem orðið hafa fyrir hörmulegustu áföllum, sem yfir íslenzka þjóð hafa dunið öldum saman. Jafnframt læt ég í ljós aðdáun á því æðruleysi, þeim kjarki, sem Vestmanneyingar hafa sýnt í ótrúlegum erfiðleikum. Íslendingar mega vera stoltir af því, að meðal þeirra skuli vera svo staðfast og sterkt fólk sem Vestmanneyingar hafa reynzt í þessari raun. Það vekur ekki aðeins von um, það veldur vissu um, að það böl, sem nú verður að bera, verður bætt og að aftur verður blómleg byggð í hinum fögru eyjum, sem verið hafa prýði Íslands.

Það er skoðun Alþfl., að sá vandi, sem að hefur borið, sé vandi Íslendinga allra. Einhuga þjóð á að takast á við hann. Með því móti einu mun verða sigrazt á honum. Ég vona af alhug, að gæfa Íslendinga verði slík, að það megi takast.

Þingflokkur Alþfl. hefur rætt þá till. til þál., sem hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir. Þingflokkurinn samþykkti einróma að greiða till. atkv.