30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

284. mál, lækkun á kostnaði ríkis og ríkisstofnana vegna utanferða

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Það vantar að mínu mati ærið mikið inn í þá mynd, sem ég teldi að þyrfti að draga upp, þegar rætt er um kostnað vegna utanferða ríkis og ríkisstofnana. Mér virðist t.d. vanta algjörlega inn í kostnað vegna utanferða á vegum Alþingis, það mun að minni hyggju vera nokkuð stór liður, og sjálfsagt er um fleiri aðila að ræða, sem ekki eru inni í þessari mynd. Hún gefur eigi að síður, eins og hún liggur fyrir eftir þessar upplýsingar, nokkuð ljósa hugmynd um það, að þarna eru ærið miklir fjármunir, sem um er að ræða og deilt er í kostnað vegna utanferða á vegum hins opinbera.

Ég fagna því, sem hæstv. ráðh. sagði hér að síðustu áðan og er raunverulega svar við fsp., sem hér hafði komið á eftir, hvort unnt væri að draga úr kostnaði ríkis og ríkisstofnana vegna utanferða. Ég tók það svo, að ríkisstj. og fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefðu í hyggju að reyna að draga úr þessum kostnaði. Mér er ljóst, að það verður að eyða einhverju og kannske talsverðum fjármunum vegna utanferða á vegum ríkisins, hjá því verður ekki komizt, en ég held, að það beri jafnframt nauðsyn til, að reyna að sjá svo um, að þar séu einhverjar reglur gildandi, þannig að einstaklingar eða stofnanir notfæri sér ekki frjálsar reglur þessu aðlútandi.

Það er ljóst, eftir því sem hæstv. ráðh. sagði, að það mun verða skorið niður um 15% á þessu ári í þessu tilfelli, og ég fagna því. En mér finnst, eins og ég sagði áðan, vanta inn í þetta dæmi stóra liði, eins og t.d. kostnað vegna utanferða á vegum Alþingis, og ég sakna þess, að sá liður skyldi a.m.k. ekki vera með í þessari upptalningu. Og eins hygg ég, að það vanti nokkru fleiri liði í þetta, sem geta breytt þeirri mynd, sem við höfum fengið dregna hér upp, ærið mikið frá því, sem hún var.

Ég veit, að a.m.k. ég og margir aðrir alþm. gera sér ekki ljóst við svona upptalningu, hversu stór hluti þetta er, þannig að það er kannske ekki heildarmynd, sem við höfum fengið út úr þessu, en málinu hefur þó verið hreyft, og ýmsar upplýsingar liggja fyrir. En ég sakna þess sem sagt, að það skyldi ekki a.m.k. vera með í þessari upptalningu jafnstór liður og ég hygg að utanferðir á vegum Alþingis séu.