30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

128. mál, vistheimilið í Breiðuvík

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Þeim tölulegu atriðum, sem spurzt er fyrir um í fsp. hv. 1. þm. Sunnl., má svara í fáum orðum, og það mun ég gera í upphafi máls míns, en síðan mun ég fara nokkrum orðum almennt um heimilið í Breiðuvík og rekstur þess.

Fyrst er spurt, hversu margir drengir geti dvalið á vistheimilinu í Breiðuvík? Svarið er, að þar má í hæsta lagi koma fyrir 14 drengjum við þrengsli, en æskilegt er, að þeir séu að jafnaði ekki fleiri en 12.

Önnur spurningin er um það, hversu margir drengir dvelji nú á heimilinu. Svarið við þeirri spurningu er, að sem stendur dveljast þar þrír drengir.

Loks er þriðja spurningin, hve margir drengir hafi dvalið að jafnaði s.l. ár á Breiðavíkurheimilinu. Hér mun átt við síðasta ár, 1972. Þegar prófessor Símon Jóh. Ágústsson vann að árlegri, sérfræðilegri athugun á heimilinu 14.–21. ágúst s.l., dvöldust þar 6 drengir, 2 úr Reykjavík, 3 úr Hafnarfirði og einn úr Keflavík. Þeir voru á aldrinum 10–13 ára. Auk þess brautskráðust 5 drengir af vistheimilinu á tímabilinu 13. ágúst 1971 til jafnlengdar 1972. Alls hafa því 11 drengir dvalizt á vistheimilinu s.l. ár.

Í tilefni af fsp. hv. 1. þm. Sunnl. er rétt að fara nokkrum orðum um þróun vistheimilisins í Breiðuvík, fjölda vistdrengja á undanförnum árum og framtíðaráætlanir um rekstur heimilisins.

Sumarið 1952 var unnið að byggingarframkvæmdum í Breiðuvík. Val staðarins fyrir vistheimili olli þegar í upphafi nokkrum ágreiningi. Þótti ýmsum hann of afskekktur og erfitt mundi reynast að hafa þar til reiðu fullnægjandi sérfræðilega aðstoð, t.d. sérmenntaðra kennara, sálfræðinga, félagsráðgjafa, geðlækna, sem þurfa kynni, og annarra lækna, auk sérþjálfaðs starfsliðs. Enginn vafi er þó á því að fenginni reynslu, að heimilið bætti á sínum tíma úr brýnni þörf og það hefur gegnt nauðsynlegu hlutverki, sem aðrar stofnanir hafa til skamms tíma ekki verið bærar um eða reiðubúnar að sinna. Á sumrinu 1952 voru 6 drengir í Breiðuvík, allir á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Húsnæði á vistheimilinu var mjög ófullkomið fram til ársins 1963–1964, en þá var nýrri viðbyggingu lokið, herbergjum drengjanna fjölgað og þau búin nýjum húsgögnum. Miklar endurbætur á húsakynnum og húsbúnaði hafa síðan farið bar fram, einkum árin 1969 og 1970. Má húsnæðið nú teljast í góðu lagi.

Um fjölda vistdrengja á síðustu árum er þetta að segja: 1967 11 drengir, auk þess brautskráðir 10 á árinu, 1968 13, auk þess brautskráðir á árinu 6, 1969 12, auk þess brautskráðir 9, 1970 10, auk þess brautskráðir 5, 1971 8, auk þess brautskráðir 9, og á árinu 1972, eins og áður greinir, 6 drengir og auk þess 5 brautskráðir á árinu.

Þess skal getið, að dvalartími drengjanna hefur ávallt verið fyrir fram óákveðinn.

Eins og sést af þessu yfirliti, hefur vistdrengjum farið heldur fækkandi á þessu tímabili, en fækkunin náði algeru hámarki á síðasta ári. Skal nú freistað að greina orsakir þess að nokkru.

Prófessor Símon Jóh. Ágústsson hefur að tilhlutan menntmrn. jafnan heimsótt Breiðuvíkurheimilið árlega allt frá árinu 1959, athugað drengina og kynnzt þeim eftir föngum og reynt að gera sér sem fyllsta grein fyrir öllum rekstri heimilisins á hverjum tíma. Skýrslur prófessors Símonar 1959–1972 hafa verið sendar rn., barnaverndarráði Íslands, barnaverndarnefnd Reykjavíkur og þeim öðrum barnaverndarnefndum, sem sent hafa drengi á Breiðuvíkurheimilið. Skýrslurnar hafa að sjálfsögðu ávallt verið meðhöndlaðar sem trúnaðarmál.

Á fyrstu starfsárum Breiðuvíkurheimilisins voru bæði eldri og yngri drengir teknir þar til dvalar. Komu snemma í ljós ýmsir örðugleikar á því að hafa saman drengi frá 7–9 ára að aldri og drengi, sem voru 15–16 ára, orðnir kynþroska og oftlega miklir fyrir sér. Prófessor Símon Jóh. Ágústsson gerði að till. sinni í skýrslu um Breiðuvíkurheimilið 1967 í samráði við forstöðumann heimilisins og stjórnarnefnd, að þeirri reglu yrði fylgt, að ekki skyldu teknir á heimilið yngri drengir en 10 ára og ekki eldri en 12 ára. Gætu vistdrengir þá verið á aldrinum 10–14 ára, allsamstæður aldurshópur, ef reiknað væri með lengstu vist á heimilinu, tveim árum. Síðan hefur stjórn heimilisins fylgt þessari reglu í meginatriðum. Þetta fyrirkomulag telur prófessor Símon Jóh. Ágústsson, að hafi gefizt vel, og var með því ekki síður spornað við því, að mjög ungir drengir væru teknir á heimilið eða harðnaðir eldri drengir, sem hafa að ýmsu leyti óheppileg áhrif á hina yngri Ekki er hægt að búast við, að eitt lítið heimili geti tekið við öllum tegundum drengja, einkum þeim, sem eru mjög andlega og/eða líkamlega vanhellir, á hvaða aldri sem er, sem barnaverndarnefndir eru í vandræðum með. Telja má, að síðustu árin hafi Breiðuvikurheimilið verið rekið sem fjölskylduheimili, og er talið af þeim, sem gerst mega til þekkja, að flestir vistdrengjanna hafi lagazt mikið við dvöl sína þar. Prófessor Símon Jóh. Ágústsson segir svo í síðustu skýrslu sinni um Breiðuvík 1972: „Ekki finnst mér koma til mála að leggja niður starfrækslu heimilisins í Breiðuvík, meðan ekki er völ betri og nægjanlegra úrræða til bjargar og viðreisnar vanræktum drengjum með hegðunarvandkvæði.“ Prófessor Símon hefur bent á í skýrslum sínum, að mikill vandi sé að velja handa slíkum drengjum góð einkaheimili og eftirlit með þeim verði að vera vel rækt, en alvarleg mistök í vali einkaheimila geta orðið vistbarni mjög afdrifarík. Í skýrslunni bendir prófessor Símon enn fremur á, að ráðstafanir til viðreisnar börnum í yngri aldursflokkum hafi verið auknar í Reykjavík, en þaðan var oftast mestur hluti vistdrengja í Breiðuvík. Er nú svo komið, að mjög fáir drengir úr Reykjavík eru sendir til Breiðuvíkur, en barnaverndaryfirvöld hér í Reykjavik kjósa ýmist að koma drengjum með hegðunarvandkvæði á þessu aldursskeiði fyrir á einkaheimilum í borg eða byggð, en sé um alvarleg geðræn vandkvæði að ræða, eru drengir þessir vistaðir á Geðdeild Barnaspítall Hringsins við Dalbraut hér í borg.

Um það, hvort vistun á einkaheimilum sé í öllum tilvikum heppilegri en vistun á fjölskylduheimili eins og í Breiðuvík, má að sjálfsögðu deila, en væntanlega er æskilegast að meta hvert einstaklingsbundið tilvik á sjálfstæðan hátt.

Í tilefni af hinni miklu fækkun dvalardrengja í Breiðuvík fól menntmrh. með bréfi 26. júli s.l. stjórnarnefnd upptökuheimilisins í Kópavogi að kynna sér rekstur Breiðuvikurheimilisins og gera till. til ráðuneytisins nm framtíðarskipan mála þar. Í stjórnarnefndinni eiga sæti þeir prófessor Sigurjón Björnsson sálfræðingur, Ólafur Jónsson formaður barnaverndarráðs Íslands og prófessor Björn Björnsson formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur. N. skoðaði skömmu síðar Breiðuvíkurheimilið ásamt ýmsum fleiri sérfræðingum. Till. n. er, að heimilið verði lagt niður í sinni núverandi mynd, en í stað þess verði starfræktur í Breiðuvík heimavistarskóli fyrir erfiða unglinga á aldrinum 13–16 ára. Skólinn verði undir stjórn upptökuheimilisins í Kópavogi. Öll börn, sem til Breiðuvikur fara, verði valin af sérfræðingum upptökuheimilisins. Starfsfólk skólans sé enn fremur valið af upptökuheimilinu og æskilegt, að það fái nokkra starfsþjálfun á þeirri stofnun, áður en það tekur til starfa vestra. Reglubundin sérfræðileg aðstoð við skólann sé veitt frá upptökuheimilinu. Gert er ráð fyrir, að skólinn geti rúmað 12–15 nemendur. Prófessor Símon Jóh. Ágústsson styður þá skoðun n., að gerð verði tilraun til að reka lítinn heimavistarskóla í Breiðuvík fyrir eldri drengi. Sé sá kostur, að því er virðist, í samræmi við þróun barnaverndarmála á Reykjavíkursvæðinu, en meiri hluti drengja í Breiðuvík koma jafnan frá Reykjavík og fækkunin á heimilinu stafaði af því, að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hætti að senda þangað drengi.

Ég hef ekki tekið afstöðu til þessarar till., en reynslan hefur sýnt, að ekki verður hjá því kynnizt að taka til endurskoðunar notkun Breiðuvíkurheimilisins. Reyndar er þegar ljóst, að það verður alls ekki rekið með óbreyttum hætti, eftir að sú stefna var tekin upp í barnaverndarmálum í Reykjavík að senda ekki til Breiðuvíkur börn á þeim aldri, sem heimilið er ætlað samkv. ákvörðun heimilisstjórnarinnar. Miklum fjárhæðum hefur verið kostað til byggingarframkvæmda á Breiðuvík á umliðnum árum, og er ekki stætt á öðru en freista til hins ítrasta að nýta þær byggingar til þess að reyna að leysa vanda barna og unglinga, sem við hegðunarvandkvæði eiga að stríða, en til þess var heimilið upphaflega stofnað.