30.01.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

128. mál, vistheimilið í Breiðuvík

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir það, sem hann hefur hér sagt, enda þótt það hafi verið raunasaga, sem hann hér rakti. Það er raunalegt, að hæstv. stjórnvöld skuli ekki byggja á fenginni reynslu, þegar hún er góð, eins og var með Breiðuvíkurheimilið. Það vill til, að ég þekki mann, sem veitti Breiðuvíkurheimilinu forstöðu um 7 ára skeið. Ég held, að það hafi verið á árunum 1956–1963. Ég talaði við þennan mann um daginn um árangurinn af dvöl drengjanna á Breiðuvíkurheimilinu. Þá var aldur drengjanna venjulega 12–16 ár. Hann sagðist hafa haft ánægju af því að vera með þessum drengjum. Þeir höfðu verið baldnir og þeir höfðu verið óþægir, þegar þeir komu, en þeir hefðu eftir stuttan tíma látið að stjórn. Þeir höfðu verið eins og baldnir folar, þegar þeir komu fyrst, en allir voru þeir góðir í sér og létu að stjórn, þegar við þá var talað eins og menn og ætlazt til, að þeir hegðuðu sér vel. Þetta er reynslan. Síðan segist þessi maður hafa fylgzt með sumum þessum mönnum, eftir að þeir voru orðnir fullorðnir menn og komnir út í lífið, og hann segir frá þeirri ánægjulegu staðreynd, að þetta séu yfirleitt ágætir menn, sem séu langt frá því að lenda í kasti við lögin.

Mér þykir vænt um, að hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að hann hefði ekki enn tekið afstöðu til þess að leggja þetta heimili niður. Ég ráðlegg hæstv. ráðh. að kynna sér þá reynslu, sem hefur fengizt af þessu heimili fyrstu árin og allt til ársins 1963. Og það fer illa saman nú, þegar meira er um afbrot drengja á Reykjavíkursvæðinu og kannske víðar um land heldur en áður, að þá sé hætt að nota þessa stofnun, sem ríkið hefur byggt upp og kostað miklu til og náð hefur góðum árangri. Hvað veldur? Hæstv. dómsmrh. sagði hér í ræðu í vetur, að það hefðu verið vandræði með einn afbrotadreng, sem alltaf var að brjótast inn. Það varð alltaf að sleppa honum út aftur, vegna þess að það var hvergi staður fyrir hann, og lögreglan var að sjálfsögðu leið á þessu. En að lokum var það ráð fundið að loka hann inni í kvennafangelsi í Síðumúla. Það ætla ég, að hafi ekki haft góð áhrif á drenginn.

Það má alveg merkilegt heita, ef þeir, sem með þessi mál eiga að fara, loka alveg augunum fyrir staðreyndum. Ég skal gefa hæstv. menntmrh. upp nafnið á þessum forstöðumanni, sem var í Breiðuvík, og ég er alveg viss um, að hann hefur gott af að ræða við hann um þessi mál. Hann var ekki sálfræðingur að menntun, en hann hafði heilbrigða skynsemi og lífsreynslu, og hann hafði lag á því að umgangast unglinga og hafa góð áhrif á þá. Ég er alveg sannfærður um, að það er mikið af svona mönnum til í landinu, sem væru færir um að taka þetta að sér. Það er talað um, að það sé erfitt að fá starfsfólk þarna að Breiðuvík, það sé erfitt að ná til lækna til þess að fylgjast með drengjunum. Það er ekki langt til Patreksfjarðar, og læknirinn þar mun vera fús til að fylgjast með þeim, það er ég sannfærður um.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þessum fsp: tíma, enda tími minn búinn. En ég vænti þess, að þetta mál verði rækilega athugað og það verði aftur horfið að því að senda drengi þarna vestur, ekki á aldrinum 7–9 ára, þá eru þeir ekki farnir að brjóta af sér, heldur á aldrinum 12–16 ára, og ná á ný sams konar árangri og náðist á árunum, sem ég áðan nefndi, og ég ætla fleiri ár en þessi maður var þar, sem ég sérstaklega vitnaði til.