25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns lýsa eindregnum stuðningi við það frv., sem hér er til umr., og ég get í flestum tilfellum tekið undir orð hæstv. heilbrh., sem hann hafði hér í framsögu fyrir þessu máli. Ég vildi þó aðeins vekja athygli á því, að það er mín skoðun, að dvalarheimili fyrir aldraða ættu að rísa sem viðast og þá smærri, því að það er stórt átak fyrir gamalt fólk að rífa sig upp frá sínum heimahögum og fara á aðra staði. Það er ekki síður stórt átak heldur en hitt að verða að hverfa af vinnumarkaðinum. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri.

Í sambandi við það, sem hér hefur verið rætt um, að það væri misbrestur á því, að embættismenn kæmu á framfæri þeim upplýsingum, sem þeir ættu að gera varðandi þessa bótaþega og rétt þeirra, þá held ég persónulega, að það sé æðimikill misbrestur á, að þetta sé gert. Ég veit dæmi þess, þó að ég nefni það ekki hér, en ég er hræddur um, að það sé æðimikill misbrestur á því, að bótaþegar almennt, ekki bara gamalt fólk, heldur almennt, viti raunverulega, hver réttur þeirra er í þjóðfélaginu til tryggingabóta. Með lögum, sem afgreidd voru hér frá Alþ. á síðasta þingi um breytingu á tryggingalöggjöfinni, almannatryggingal., þá var sett skýrt ákvæði í lök um, að það væri skýlaust, að embættismenn ættu að upplýsa viðkomandi aðila um rétt hans til bóta. Ég veit ekki, hvort eða á hvern hátt hægt er að fylgjast með framkvæmdum á þessu. En ég vildi gjarnan beina því til hæstv. ráðh., hvort hann gæti upplýst eitthvað um það, hvort eftirlit sé haft með slíku og hvort þetta hafi þá batnað með tilkomu þeirrar breytingar, sem þarna var gerð, ef hann gæti eitthvað um það sagt.