30.01.1973
Efri deild: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

142. mál, dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. þarf í sjálfu sér ekki skýringa við. Vegna þess ástands, sem skapazt hefur í Vestmannaeyjum vegna náttúruhamfaranna þar, hefur orðið slík röskun á högum manna og aðstöðu, að það er óhjákvæmilegt að kveða á með lögum um bráðabirgðaskipan bæjarfógetaembættisins í Vestmannaeyjum og tilhögun dómsmálameðferðar þar. Enn fremur er af sömu ástæðum talið nauðsynlegt að fresta um sinn ýmsum réttaráhrifum, sem að óbreyttu eiga að koma til framkvæmda nú á næstu dögum, svo sem segir í grg. með þessu frv.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum hafi fyrst um sinn bráðabirgðaaðsetur hér í Reykjavík, en þar fari fram og megi fara fram þær athafnir, sem að öðrum kosti ættu að fara fram hjá bæjarfógetaembættinu í Vestmannaeyjum. Er óhjákvæmilegt að skipa þessu svo um sinn. Ég tek fram, að þrátt fyrir þessa skipan, sem á verður sett, verður að sjálfsögðu að öllu óbreyttu fulltrúi frá bæjarfógetaembættinu staðsettur í Vestmannaeyjum til lögreglustjórnar. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, en það er nauðsynlegt að koma þessari skipan í löglegt form.

Ég vil leyfa mér að mælast til þess, að frv. fái greiðan framgang, og ætlunin var að fá því komið í gegnum báðar d. nú í dag. Þó að frv. sé mjög einfalt og auðskilið, vil ég formsins vegna legg,ja til, að því sé vísað til allshn., en ég vona, að það taki ekki neinn verulegan tíma að líta á það. Ég leyfi mér svo að óska eftir því, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn. og að reynt verði að halda svo þingfundi áfram, þannig að það geti gengið til Nd.