31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

130. mál, skólakostnaður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Hann sagði, að hann hefði ekki orðið var við, að niðurskurður sá, sem hefði verið ákveðinn á s.l. ári til skólabygginga, hefði orðið til verulegs trafala. Ég vil segja honum það, að ég held, að við fjvn.-menn höfum orðið fullkomlega varir við það við skiptingu á fjárframlögum til skólabygginga, að það munaði allmikið um það, þegar var verið að skipta, að það var verið að bæta upp 53 millj., sem skornar voru niður á síðasta ári. Og þessar 53 millj., sem var verið að endurveita til þeirra sömu skóla, gengu auðvitað út yfir framlög til annarra skóla, sem ella hefðu fengið meira, svo að að því leyti til verður auðvitað niðurskurður alltaf til trafala. Og ég hygg, að samstarfsmenn mínir í n. hafi alveg örugglega orðið fyrir þessum áhrifum og fundið fyrir þeim.

Hæstv. ráðh. taldi, að ég gæti varla búizt við því að fá svör við, hvernig eigi að standa að fjárlagagerð fyrir árið 1914, eftir þá atburði, sem gerzt hafa nú síðustu daga. Ég átti engan veginn við það, að hvorki hann eða ríkisstj. í heild né nokkur maður færi að gefa Alþ. í dag skýrslu um það, á hvern hátt og hve mikið þeir atburðir hafi í för með sér. En við skulum sleppa alveg þessum atburðum og líta á málið eins og það var áður ákveðið, fyrir þessa atburði. Þá var ákveðið að skera niður um 70 millj. kr., eins og hæstv. ráðh. staðfesti, að jafnaði um 15%, og það þýðir, að velt er á undan sér yfir á næsta ár framlögum til þessa málaflokks og mundi mjög íþyngja í fjárl., þó að þessir síðustu atburðir hefði aldrei komið fyrir. Það var það, sem ég var að tala um og spyrja um: Telur ekki hæstv. ráðh., að þetta frv., sem hann var að mæla hér fyrir, gangi of skammt í þessum efnum, þó að þessir atburðir hefðu aldrei komið til, að það verði of þungt fyrir ríkið að standa við þessi lög? Eins og hann gat réttilega um, hafa skólakostnaðarlögunum, sem eru í gildi, ekki verið fylgt sem skyldi. Að undanskildu einu ári, sem Alþ. gaf heimild fyrir með ákvæði til bráðabirgða, hefur þeim ekki verið fylgt. En eigum við að hafa þann hátt á, þegar verið er að leiðrétta þetta, að leiðrétta það þá ekki að öllu leyti, þannig að það verði staðið við lögin?

Ég hygg, að það eigi að vera ákaflega ofarlega í huga ríkisstj. og Alþ. að setja lög, sem ætlazt er til, að almenningur standi við, og setja einnig lög, sem Alþ. á að fjalla um framkvæmd á, sem einnig er staðið við. Það er það, sem ég átti við með þessu. Hitt er svo önnur saga, og það er fjölskyldumál hæstv. ríkisstj. einnar, en ekki stjórnarandstöðu, að í þingræðislandi hefur verið sá háttur hafður á, að Alþ. sjálft eða menn, sem Alþ. kýs til þess, hefur gert till. um skiptin;u á fjármagni, sem fer í hina einstöku liði. Hins vegar er það auðvitað eðlilegt, að ríkisstj. marki heildarstefnuna og ákveði heildarupphæðina í þetta eða hitt og ráði þar mestu um, eins og alltaf hefur verið. En það hefur verið sú regla gildandi í fjvn. hjá öllum nm. að taka því sem staðreynd, hvaða upphæðir eru til skipta hverju sinni, og reyna að skipta því fjármagni án tillits til þess, hvort þm. eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þetta hefur verið ríkjandi og þetta hefur verið regla, sem bæði núv. og fyrrv. stjórnarandstaða hefur skilið og staðið við, og þess vegna höfum við unnið saman í sátt og samlyndi að skiptingu á því fé. En þegar ríkisstj. læðir inn niðurskurðartill. sinni eða heimild til niðurskurðar við 3. umr. fjárl., að lækka fjárveitingar til greiðslu rekstrarkostnaðar rn., ríkisstofnana, styrkja og verklegra framkvæmda á árinu 1973, sem ekki er bundið af lögum, um allt að 15% að jafnaði, þá skeður það, þegar fjárlög koma hér til 3. og síðustu umr., að eina till., sem við í minni hl. fjvn. flytjum, er ekki tölulegs eðlis, heldur sú, að þessi skipting komi endanlega til ákvörðunar fjvn. Alveg eins og hennar hlutverk hefur verið að skipta þessu fjármagni, þá töldum við eðlilegt í þessu þingræðislandi, að sama n. á Alþ. fjallaði um þennan niðurskurð. En hvað gerist hér við lokaafgreiðslu fjárl.?

Ríkisstjórnarliðið allt var með hendur á lofti til að fella þessa till. Það vildi endilega klípa af þessum framkvæmdum eitt og vera eitt um það mál, en stjórnarandstöðunni kæmi það ekkert við. Þetta var hugur ríkisstj. í þessu máli, og þetta var sú samvinna, sem ríkisstj. vildi viðhafa við Alþ. í sambandi við þessi mál. Hún handjárnaði stjórnarliðið á þennan hátt. Og nú verður fylgzt vel með því, hæstv. menntmrh. og aðrir hæstv. ráðh., hvernig niðurskurðurinn kemur niður. Verður þessi niðurskurður framkvæmdur með svipuðum hætti og var á s.l. ári, að ganga fyrst og fremst á rétt strjálbýlisins, eins og gert var þá? Og nú verður fylgzt með þm. strjálbýlisins, sem tóku sér þetta vald eða létu ríkisstj. segja sér að gefa sér þetta vald, hvernig þeir ætla að framkvæma þennan niðurskurð.

Það er ábyggilegt, að þm., sem hafa mest talað um lágar fjárveitingar úti um hinar dreifðu byggðir landsins á undanförnum árum, hafa nú tekið á sig allmikla ábyrgð með þessari handauppréttingu sinni. Og þeir verða vafalaust að svara fyrir sig, þegar þar að kemur. Og því skal ég heita hæstv. ríkisstj., að ég skal gera allt, sem ég get, til þess að fylgjast með og hafa augun opin fyrir því, á hvern hátt eigi að skera niður framkvæmdirnar, því að það var ekki gert af neinu réttlæti á s.l. ári. Ef það sama á að gilda í sambandi við þennan niðurskurð, verður einhvern tíma talað við þessa hv. herra.