25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka öllum þeim ræðumönnum, sem hér hafa tekið til máls, fyrir mjög jákvæðar undirtektir við það frv., sem ég hef mælt hér fyrir, og raunar undirtektir við ýmsar þær meginhugmyndir, sem ég gerði grein fyrir að því er varðar stöðu aldraðs fólks í þjóðfélaginu. Samt þótti mér heldur miður, að nokkrir hv. þm. gátu ekki um þetta mál fjallað frekar en vandamál geðsjúklinga í gær án þess að blanda inn í það næsta lágkúrulegum flokkspólitískum sjónarmiðum. Ég taldi ekki rétt að víkja að þeim málum í gær, en þegar þetta gerist dag eftir dag, verður ekki hjá því komizt.

Því var haldið fram í gær, að í málefnum geðsjúklinga væri núv. ríkisstj. ekkert annað að gera en það, sem fyrrv. ríkisstj. hefði unnið að og gert samþykktir um endalaust. Vitnað var í það, hvað sagt hefði verið 1967 og ég man ekki hvenær og hvenær. En staðreyndin er sú í sambandi við málefni geðsjúklinga, að það gerðist sama og ekki neitt í þeim málum í tíð fyrrv. ríkisstj. Það er ósköp auðvelt að hafa uppi falleg orð, en það verður að dæma menn á verkum þeirra, ekki sízt menn, sem komust í þá ákjósanlegu aðstöðu að vera í valdastólum í meira en áratug og áttu því að hafa möguleika á því að framkvæma það, sem þeir töluðu um fögrum orðum. Ég minnist þess ákaflega vel, að ég flutti á tveimur þingum, áður en núv. ríkisstj. var mynduð, till. um breytingu á fjárlagafrv. þess efnis, að lagt yrði fram fé til að hefja undirbúning að byggingu geðdeildar við Landsspítalann í Reykjavík. En þessar till. voru strádrepnar af þm. Sjálfstfl. og Alþfl. Í því birtust þeirra verk. Það er ekki fyrr en núv. ríkisstj. kemur, að farið er að hreyfa við þessum málum, að farið er að framkvæma þessa hluti. Og þá kann ég dálítið illa við, að þessir menn, sem hafa í verki staðið öndverðir í meira en áratug, komi hér upp og þykist vera að reka á eftir framkvæmdum. Mér þykir líka dálítið undarlegt að heyra það, að þetta frv., sem hér liggur fyrir um dvalarheimili aldraðra, sé einhver afleiðing af því, sem fyrrv. ríkisstj. hafi gert eða einhver n., sem fyrrv. félmrh., Eggert G. Þorsteinsson, hafi skipað. Það hafa verið flutt fjölmörg frv. hér á þingi um ríkisframlög til dvalarheimíla aldraðra, en þau hafa jafnharðan verið felld af þm. Sjálfstfl. og Alþfl. Það er ekki fyrr en nú, að það liggur fyrir stjfrv. um það, að ríkið leggi fram fé til slíkra framkvæmda. Þetta er munurinn á orðum og athöfnum. Og eftir verkunum verða menn dæmdir, en ekki því, þótt þeir kunni að hafa komið saman einhverjum fallegum orðum einhvern tíma.

Það var sagt, að ég hefði farið rangt með, hvernig þetta frv. hefði orðið til. Það gerði ég ekki. (Gripið fram í: Það var ekki sagt.) Hv. þm. Lárus Jónsson sagði, að hann vildi, að hið sanna kæmi í ljós, eins og það hefði ekki verið gert í mínum orðum. Þessi n., velferðarnefnd aldraðra, var starfandi, þegar ég tók við sem ráðh., og ég sá ekki ástæðu til þess að skipa neina nýja n. til að semja þetta frv. En það var ég, sem fól n, að semja frv. um dvalarstofnanir aldraðra. Það hafði ekki verið gert áður.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði, að ræðan, sem ég flutti hér áðan, hefði verið eins og lesin upp úr kosningaræðum sjálfstæðismanna, og hv. þm. Lárus Jónsson talaði um, að hann væri ákaflega ánægður yfir því, sem ég hefði sagt hér um framtak og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins (LárJ: Athafnaþrá.) og athafnaþrá. Nú er það svo, að ég hef ákaflega mikið aðrar hugmyndir en hv. þm. Lárus Jónsson og aðrir forustumenn Sjálfstfl. um framtak og athafnaþrá og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins. Þegar ráðamenn Sjálfstfl. tala um framtak einstaklingsins, þá vita allir, hvað í því felst. Það er rétturinn til þess að græða, til þess að stofna fyrirtæki, til þess að safna arði á vinnu annarra. Það er þetta, sem alltaf felst í orðum þeirra um framtak einstaklingssins, og þegar komið er með félagsleg sjónarmið, þá er alltaf sagt: Það er verið að skerða framtak einstaklingsins. En þessi tegund af framtaki eykur ekki almennt frelsi þegnanna. Hún eykur frelsi forréttindamanna á kostnað alls almennings. Ég er á móti slíku framtaki. Ég tel, að athafnaþrá einstaklingsins eigi að vera réttur allra manna, og það er einmitt á þeim forsendum, sem ég var með bollaleggingar mínar um það, hvernig við ættum að skipa þessu þjóðfélagi þannig, að aldrað fólk nyti þar sama réttar og aðrir. Það verður ekki gert á neinum gróðaforsendum. Og ég vil minna á það, að það var einmitt fyrir tilstilli ágætra manna úr Sjálfstfl., að unnið hefur verið að því að koma hér upp á Íslandi mjög stórum heimilum fyrir aldrað fólk. Ég er ekki að segja, að það hafi verið gert af illum vilja, síður en svo. Það hefur áreiðanlega verið gert af góðum vilja. En engu að síður er ég þeirrar skoðunar, að stór heimili af þessu tagi séu alger fásinna og þau hafi svipuð áhrif og „gettó“ á stöðu aldraðs fólks í samfélaginu. Við verðum að minnast þess í allri okkar stefnu að virða rétt þessara öldruðu einstaklinga hvers um sig til þess að taka ákvarðanir um eigin hagi eins lengi og þeir geta. Þetta lit ég á sem algert grundvallaratriði.

Menn hafa orðið móðgaðir hér vegna þess, að ég sagði í ræðu minni hér áðan, að ég teldi, að embættismenn hefðu sýnt ósæmilega framkomu með því að draga mánuðum saman að koma á framfæri við aldrað fólk greiðslum, sem það ætti rétt á. Ég greindi frá reynslu minni um þessi efni, og þessar ferðir, sem ég talaði um, voru í maímánuði í vor. Þá hafði þetta fólk átt rétt á þessum greiðslum í 4 mánuði, og ég spyr enn: Mundu hv. alþm. telja það eðlilega framkomu við sig, að þannig væri dregið að greiða þeim peninga, sem þeir ættu rétt á? Það hefur ekki staðið á því, að fyrir lægju reglugerðir og reglur um þetta atriði. Ég vil minna menn á það, að ákvæðin um tekjutryggingu tóku fyrst gildi í ágúst í fyrra, og þá var sett reglugerð af heilbrn. Þá þegar kom stofn af fólki, sem átti þennan rétt, þannig að sá stofn var tiltækur þessum embættismönnum úti um allt land. Það þurfti ekki að framkvæma neina nýja rannsókn vegna þess. Það var hægt að nota þennan stofn í sambandi við vinnubrögðin á þessu sviði. Þessi reglugerð var síðan endurnýjuð, þegar lögunum var breytt um síðustu áramót, og gerðar á henni minni háttar breytingar, aðeins minni háttar breytingar. Hún var gefin út í jan., þannig að það var sannarlega nægur tími til þess að greiða öldruðu fólki þetta fé. Ég vík ekki frá því sjónarmiði mínu, að ég tel, að hér sé um vitaverða vanrækslu að ræða. En hins vegar tel ég ekki, að vanrækslan stafi af því, að þessir sýslumenn séu eitthvað lakara fólk en við hinir. Ástæðan er sannarlega ekki sú. Ástæðan er þetta almenna viðhorf, sem ég var að lýsa, að aldrað fólk ætti ekki sama rétt og aðrir í þjóðfélaginu og það þyrfti ekki að koma fram við aldrað fólk eins og aðra. Ég er sannfærður um, að engum þessum sýslumanni hefði dottið í hug að draga jafnlengi að greiða öðrum, sem rétt áttu, slíka fjármuni. Ég fagna því sannarlega, að þetta verði rætt á dómarafundi, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að. Ég hef ekkert farið dult með það við sýslumenn, sem ég hef hitt, að ég teldi þessi vinnubrögð ekki ná nokkurri átt, og margir þeirra hafa sagt mér, að þeir væru algerlega sammála mér um þetta efni.

Það hefur verið um það spurt, hvort eitthvað hafi verið gert til þess að framkvæma þau fyrirmæli laga að kynna fólki rétt sinn. Samkv. ósk minni sendi Tryggingastofnunin bréf til allra þeirra manna, sem rétt áttu á tekjutryggingu. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að ástandið á þessu sviði sé enn mjög lélegt og það vanti mjög mikið á, að haldið sé uppi þeirri kynningu, sem er sjálfsögð og nauðsynleg. Einmitt þess vegna greindi ég áðan frá því, að ég hafi í hyggju að setja upp sérstaka félagsmála- og upplýsingadeild í Tryggingastofnuninni, sem ætti að hafa þessi verkefni. Hún ætti að fjalla um málefni aldraðra og annarra bótaþega, eins og ég rakti hér áðan, en einn þátturinn í störfum hennar ætti að vera sá að annast upplýsingastarfsemi og útgáfu leiðbeiningarita fyrir bótaþega Tryggingastofnunar ríkisins og aðra um bótakerfi Tryggingastofnunarinnar og rétt einstaklinganna í kerfinu. Ég tel, að hér sé um ákaflega veigamikið atriði að ræða, og þetta verkefni er rækt mjög myndarlega t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Þar eru sendir út mjög vandaðir bæklingar um þetta efni. Ég hef meira að segja lesið auglýsingar í blöðum, þar sem slíkar stofnanir auglýsa þjónustu sína á alveg sama hátt og nútímaverzlanir gera. Auðvitað eru þetta ekki annað en þjónustustofnanir í þágu þessara hópa þegnanna. Og Tryggingastofnuninni ber að starfa á þennan hátt. Ég vona, að þegar þessi nýja deild, sem ég bind miklar vonir við, tekur til starfa, komist þessi mál í annað og betra horf.

Hv. þm. Vilhjálmur Hjálmarsson beindi til mín þeirri fsp., hvernig ætti að framkvæma þetta frv. í sambandi við dvalarheimili aldraðra, sem nú væru í byggingu. hað er alveg rétt hjá hv. þm., þetta er atriði, sem þarf að skera úr um. En persónulega er ég þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé að miða við það að meta, á hvaða stigi þessar byggingar eru, þegar lögin taka gildi, og síðan komi til framkvæmda þetta greiðsluhlutfall, sem rætt er um í lögunum, gagnvart þeim hluta, sem eftir er. Ég tel, að lög sem þessi geti ekki náð aftur fyrir sig. Ég held, að við mundum lenda í hreinni ófæru, ef við stæðum þannig að verki. En hitt fyndist mér sjálfsagt um húsnæði stofnunar af þessu tagi, sem er í byggingu, að hlutur ríkissjóðs komi til framkvæmda gagnvart þeim hluta verksins, sem óunninn er, frá þeim tíma, sem lögin taka gildi.

Hv. þm. Lárus Jónsson virtist eitthvað hafa misskilið ummæli, sem ég var með í ræðu minni áðan um, að einhver flokkur teldi, að greiðslur til aldraðs fólks og öryrkja séu ölmusa. Ég skal lesa fyrir hv. þm. það, sem ég sagði. Ég var að tala um almennt viðhorf í þjóðfélaginu, um það skilningsleysi, sem væri ríkjandi í þjóðfélaginu yfirleitt, og rétt þessa fólks, og í sambandi við það sagði ég:

„Enn er það sjónarmið ríkjandi hér á landi, að lífeyrisgreiðslur af þessu tagi séu ekki réttur, heldur náð og miskunn og jafnvel góðgerðastarfsemi einstakra stjórnmálamanna. Er raunar ekki laust við það, að a.m.k. einn stjórnmálaflokkur hér á landi hafi mjög reynt að halda þeim sjónarmiðum að fólki.“

Ég hygg, að allir þm. skilji, hvað ég á við. Hv. þm. Lárus Jónsson vék einnig að því, að í sambandi við tekjutryggingarákvæðið, kæmu upp viss jaðarvandamál, eins og ég hef viðurkennt hér á þingi. Það koma upp jaðarvandamál, þegar maður fer að aðstoða hóp fólks, sem ekki hefur haft neinar aðrar tekjur um greiðslur almannatrygginga. En hitt tel ég ákaflega fráleitt sjónarmið, sem fram hefur komið hjá ýmsum, að með því að aðstoða þetta fólk, sem var verst sett af öllum, þá sé verið að ganga á rétt annarra, sem voru betur settir. Hugarfar af þessu tagi á engan rétt á sér. Það er ekki gengið á rétt nokkurs manns, sem hefur haft einhverjar tekjur, þó að það fólk, sem ekki hafði neinar tekjur aðrar en bætur almannatrygginga, fái lágmarksupphæð. Á hitt get ég fallizt, að það er sjálfsagt að kanna þetta jaðarvandamál eins og önnur. Það koma ævinlega upp slík jaðarvandamál. þegar verið er að framkvæma einhverjar félagslegar umbætur, og um þetta verður fjallað af þeirri n., sem heldur áfram að endurskoða tryggingakerfið í heild. Fljótlega mun koma fram frv. frá þessari n. um enn frekari breytingu á lögum um almannatryggingar, ekki sízt þær breytingar, sem stafa af þeim breytingum, sem orðið hafa á sjúkratryggingunum. En þessi n. mun síðan halda áfram að starfa, vegna þess að þessi þáttur í ríkiskerfinu er orðinn svo óhemjulega veigamikill og er mikið hagsmunamál fyrir ákaflega stóran hóp þegnanna og er þar að auki viðkvæmur þáttur, vegna þess að þetta kostar ákaflega mikið fé. Því tel ég alveg nauðsynlegt, að þetta verði kannað áfram til þess að tryggja það, að þeir fjármunir, sem þarna eru lagðir fram, komi að sem allra beztum notum því fólki, sem þarf á þessum bótum að halda.

Ég vil svo endurtaka þakkir mínar til hv. þm. fyrir góðar undirtektir við frv. sjálft.