31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

130. mál, skólakostnaður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það væri vissulega freistandi við þessa umr. um frv. til l. um breyt. á l. um skólakostnað að fara út í stefnu ríkisstj. almennt í fjárveitingum til verklegra framkvæmda og í því sambandi að benda á, hvað stefna ríkisstj. í þessum efnum kemur sér illa fyrir landsbyggðina og hvað það er í raun og veru rangt að stefna þannig að stórfelldum niðurskurði á verklegum framkvæmdum úti um land, þegar við er að glíma verðbólguvanda, sem þaðan er alls ekki runninn, heldur auðvitað miklu fremur úr þéttbýlinu, þar sem þrýstingur á öllum sviðum er langtum meiri en úti á landsbyggðinni. Það væri freistandi að ræða um þetta og benda á í þessu sambandi, að það er ekki bara niðurskurðurinn, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt í þessum efnum, heldur hefur hún líka látið undir höfuð leggjast að koma fram með og afgreiða hér á hv. Alþ. frv. um ýmsa þætti verklegra framkvæmda, sem eru mjög mikilvægir, eins og t.d. hafnarframkvæmdir og framkvæmdir í heilbrigðismálum. Allir hv. þm. vita, að hæstv. ríkisstj. hefur sýnt frv. um þessi efni hvað eftir annað á hv. Alþ., en síðan hafa þau dagað uppi eða ekki verið afgreidd, og víða um land er beðið með framkvæmdir eftir þessum lögum.

Eitt mál vildi ég aðeins minna á hér t.d., sem hreinlega strandar vegna þessa vinnulags hjá hæstv. ríkisstj., og það er svo mikilvæg framkvæmd sem sjúkrahúsbygging á Akureyri. Ég hefði gjarnan viljað, ef hæstv. heilbrmrh, gæti svarað því hér núna, — ég geri ekki kröfu til þess, að hann geri það, ef það er á einhvern hátt óþægilegt fyrir hann, — en ég hefði gjarnan viljað, að hann hefði getað upplýst okkur í þessari hv. d. um það, hvort meiningin sé að afgreiða frv. um heilbrigðismál, sem felur í sér verulega breytingu á hluttöku ríkissjóðs í kostnaði við sjúkrahúsbyggingar og þá auðvitað úti um land. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann að því, hvort hann gæti upplýst okkur um þetta.