25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég gat ekki hlustað á allar umr. um þetta mál, en öðru hverju heyrði ég til hv. ræðumanna hér í pontunni. Mér fannst allir vera sammála og taka þessu frv., sem hér er um að ræða, alveg prýðilega. En hæstv. ráðh. virtist eigi að síður vera eitthvað óánægður með hvernig umr. höfðu farið fram. Allir ræðumenn töluðu um, að þetta mál væri gott, og sumir meira að segja hrósuðu hæstv. ráðh. fyrir góða ræðu. Það má vel vera, að þessi frumræða hæstv. ráðh. hafi verið sérstaklega góð, en látum það vera. En ég vil segja, að málið sé gott. Ég held, að það sé alveg óþarfi að vera að gera einum þm. eða öðrum upp einhvern sérstakan verri hugsunarhátt, í sambandi við málið.

En það er oft, þegar hæstv. heilbmrh. tekur til máls hér í hv. þingi, að hann er með getsakir til einstakra þm., hvernig þeir hugsi. Hann talar um sjálfstæðismenn alveg sérstaklega, að þeir séu sérhagsmunamenn og sérstaklega eigingjarnir. Þeir hugsi aðeins um það að græða og þá náttúrlega á annarra kostnað með því að kúga alþýðuna. Hér er um alveg dæmalausa hræsni og ósvífni að ræða, sem oft kemur fram hjá þessum hæstv. ráðh. óg jafnvel stundum hjá sumum flokksbræðrum hans. Það er verið að draga menn í dilka með því að tala eins og hæstv. heilbrmrh.: Þessi maður er sjálfstæðismaður, hann er sérhagsmunamaður og hugsar helzt um sjálfan sig, og að græða sjálfur. En ég eða við vinstri menn erum ekki sérhagsmunamenn. Við hugsum ekki um okkar hag. Við erum alltaf að hugsa um aðra, alltaf að hugsa um almenning. — En eru svokallaðir vinstri menn ekkert eigingjarnir. Það er mikið, að þeir skuli þiggja laun úr ríkissjóði, að þeir skuli ekki afsala sér drjúgum parti af launum sínum og gefa fátækum, vera miskunnsami Samverjinn og fórna sér fyrir aðra. En hvernig kemur þetta fram í hinu daglega lífi? Eru vinstri menn í raun og veru hjálpfúsari eða betri menn en hinir, sem hafa gengizt undir stefnu Sjálfstfl.? Ég hugsa, að það verði dálítið erfitt að meta, hvort hæstv. heilbrmrh. væri fljótari til þess að hlaupa til hjálpar, ef einhver ætti bágt, heldur en sjálfstæðismaður. Ég efast um, að hæstv. heilbrmrh. væri fúsari til þess að opna budduna og gefa af eigin fé en einhver sjálfstæðismaður. Ég segi þetta ekki vegna þess, að hæstv. heilbrmrh. sé í eðli sínu eigingjarnari eða nízkari en menn gerast. Ég segi það vegna þess, að hæstv. ráðh. og flokksbræður hans og vinstri menn eru ekkert síður eigingjarnir en þeir, sem eru í Sjálfstfl. og hafa aðhyllzt stefnu Sjálfstfl., stefnu frjáls framtaks og athafna í íslenzku þjóðfélagi. Athafnaþráin þarf ekki að byggjast á eigingirni. Athafnaþráin kemur af heilbrigðri lífsskoðun, vegna þess að það er lífið að starfa — starfa á frjálsan hátt, sem frjáls maður. Það er eðli Íslendinga og heilbrigðra manna að vera sjálfs sín ráðandi og starfandi.

Hér á Íslandi eru margs konar form í atvinnurekstri. Við sjálfstæðismenn teljum það heilbrigt, að það sé til einkarekstur og einkaframtak sem fái að njóta sfn. Við teljum það einnig heilbrigt, að það sé til félagsrekstur, samvinnufélög og hlutafélög. Og við teljum, að það geti einnig verið heilbrigt, að það sé til bæjarrekstur, að sveitarfélögin reki fyrirtæki. Undir mörgum kringumstæðum teljum við það eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið hafi með höndum margs konar atvinnurekstur, eftir því sem við á. En það væri mikil afturför í þjóðfélaginu, ef allur einkarekstur væri strikaður út og athafnaþrá einstaklingsins hyrfi með öllu. Skyldi það ekki oft vera tvöfaldur vinnudagur, sem þeir leggja fram, sem eru með einkarekstur? Hve miklu lengri vinnudag leggja þeir fram fyrir það, að þeir eru í einkarekstri, heldur en ef þeir eru á launum hjá ríki eða bæ? Hver nýtur þess, þegar einstaklingurinn leggur þannig mikið á sig? Nýtur hann þess alltaf eingöngu sjálfur? Við skulum trúa því, að einstaklingurinn njóti þess að einhverju leyti sjálfur, að hann fái eitthvað meira fyrir það að vinna fleiri stundir á dag en annar, sem er við hliðina á honum. En ef þessi einstaklingur, sem rekur einkafyrirtæki, gerir það vel og af dugnaði, þá nýtur starfsfólkið, sem vinnur hjá honum, þess einnig, og ríkissjóður hefur haft lag á því að fá tekjur sérstaklega af slíkum rekstri.

Í öllum þjóðfélögum vestan járntjalds þykir það sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa heilbrigðan einkarekstur í hávegum, vegna þess að ríkið fær mestar tekjur af slíkum rekstri. Þegar sósíaldemókratar komust til valda á Norðurlöndum, var reiknað með því, að þeir mundu breyta þjóðskipulaginu að því leyti, að einkarekstur myndi eiga erfitt uppdráttar þar. En valdhafar voru svo skynsamir, að þeir vildu ekki leggja einkareksturinn í rúst, heldur miklu frekar stuðla að því, að hann hefði starfsgrundvöll til þess að geta áfram fengið tekjur í ríkissjóð af þessum rekstri. Fyrir dugnað margra manna, sem stjórnuðu þessum atvinnurekstri, var mikil og vel borguð atvinna veitt alþýðu manna í þessum löndum.

Nú er það svo, að þrátt fyrir tal eins og hæstv. heilbrmrh. var með hér áðan að fordæma hlutafélög og einstaklingsrekstur, þá er það nú svo, að margir flokksbræður hans eru gjarnan í hlutafélögum og hafa á þann hátt þessa eiginhagsmuni í sigti. Það væri hægt að nefna mörg slík dæmi. Hæstv. ráðh. ætti þess vegna að hætta því að vera með getsakir eins og þessar, sem hann var með hér áðan. Ég tel það hreinan ábyrgðarhluta, ef einn ráðh. hefur það hugarfar að vilja í raun og veru fordæma allan einstaklingsrekstur, einstaklingsframtak, hvort sem það er einkarekstur eða í hlutafélagsformi, þar sem hann telur í rauninni, að enginn stofni til slíks atvinnurekstrar nema hafa óheilbrigt sjónarmið.

Ég vildi aðeins vegna þess, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, minna á það, að þegar bæði hann, hæstv. ráðh., og ýmsir vinstri menn eru að tala annars vegar um eiginhagsmunamenn, gróðahyggjumenn og sérhagsmunamenn og hins vegar félagshyggjumenn og menn, sem eingöngu vilja vinna fyrir aðra, en hugsa ekkert um sjálfa sig. Hér er um hreina hræsni að ræða, vegna þess að þessir menn, þó að þeir þykist sigla undir vinstra merki og vera hinn miskunnsami Samverji, eru ekki á neinn hátt betri, eða hjálpfúsari en hinir, þegar til lengdar lætur.

Um þetta frv., sem hér liggur frammi, er ekkert nema gott að segja. Það er 7. gr., sem breytir mestu í frv. frá gildandi lögum, þar sem lagt er til, að ríkissjóður leggi fram 1/3 af kostnaði af byggingu og búnaði. Þetta er náttúrlega nokkurs virði, og enginn vafi er á því, að ef þetta verður lögfest og ríkissjóður hefur fjármagn til þess að setja á fjárlög nægilega upphæð til þess að standa straum af þessari löggjöf, er hægara að koma upp dvalarheimilum fyrir aldraða en verið hefur.

Hæstv. ráðh. fann að því, að einhverjir ræðumenn höfðu verið að tala um, að þetta væri framhald af því, sem áður hefði verið gert. Mér finnst það í sjálfu sér hreint aukaatriði, og mér finnst hæstv. ráðh. mega eiga það, ef hann telur það vera eitthvert blóm í hnappagatið, að hafa átt hugmyndina að því að skipa velferðarnefndinni að semja þetta frv. Ekki skal ég reyna að taka það af honum. En hitt er alveg víst, að í hvert sinn sem við erum að samþykkja lög hér í hv. Alþ. og samþykkja aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, þá erum við í rauninni að skrifa tölur á töfluna, sem við vitum ekki, hvað kunna að gilda. Ég vil taka undir það, að þetta að koma upp dvalarheimilum fyrir aldraða er eitt af því nauðsynlegasta. En hér í gær var verið að tala um fjárl. fyrir næsta ár. Þetta dæmalausa frv., sem lagt hefur verið fram til fjárl. fyrir næsta ár, er algerlega botnlaust. Ég veit, að hæstv. trmrh. er alveg sammála mér um það, að þetta fjárlagafrv. er alveg dæmalaust. Ég veit, að hæstv. trmrh. er mér sammála um það, að í þetta frv. vantar milljarða, til þess að endarnir nái saman. Ég bendi aðeins á það, ekki vegna þess að ég sé að draga úr, að þetta frv. verði samþ., heldur það, að á öllum tímum, bæði hjá fyrrv. ríkisstj. og öllum ríkisstj., hefur alltaf staðið á því að láta tekjur mæta gjöldunum. Verkefnin eru alls staðar fyrir hendi. Það er svo margt, sem við sjáum, að er ógert, en nauðsynlegt er að gera, og það hefur núv. hæstv. ríkisstj. átakanlega komizt að raun um, að fjármagn vantar.

Ég vænti þess, að eftir þær umr., sem fóru fram bæði í gær og í fyrradag, hafi hv. stjórnarstuðningsmenn gert sér grein fyrir því, hvernig fjármála- og efnahagsástandið er í þjóðfélaginu, að það skuli vera lagt fram fjárlagafrv., sem vantar milljarða á í tekjur, til þess að nokkurt vit sé í því. Ég er alveg sannfærður um, að hæstv. trmrh. er það töluglöggur, að hann hefur gert sér grein fyrir þessu. Hins vegar er ég dálítið undrandi á því, hvað hæstv. ráðh. virðast vera rólegir yfir því ástandi, sem skapazt hefur, því að það er eins og þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því enn þá, að botninn er suður í Borgarfirði, eins og sagt var, og að fjárhagsástandið í íslenzku þjóðfélagi í dag er í algeru öngþveiti.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri. Ég kvaddi mér aðeins hljóðs vegna óeðlilegra ummæla hæstv. trmrh., sem ég vænti, að hann reyni að venja sig af að viðhafa, eftir að hann er kominn í ráðherrastól. Það er algerlega ósæmandi að tala í þeim tón, sem hann gerði, með aðdróttunum og dylgjum til annarra manna, ætla sér að reyna að stimpla sjálfstæðismenn sem eitthvað verri menn en aðra Íslendinga og þykjast sjálfur og þeir, sem eru í hans flokki, undir hans merki, vera hinn miskunnsami Samverji, sem sé fús til þess að dreifa út eignum sínum á meðal fátækra, á meðan hinir vilji helzt ekkert gera og enga samúð hafa með meðbræðrunum. Það er þetta, sem hæstv. ráðh. ætti að venja sig alveg af. En vaninn er nokkuð ríkur. Enn er hæstv. ráðh. ekki orðinn það gamall. að hann ætti að geta lært eitthvað í þessu efni.

Ég get svo endurtekið það, að ég er fylgjandi þessu frv., enda þótt það geti bakað ríkissjóði stórútgjöld, vegna þess að þetta er eitt að því þarfasta, sem þarf að vinna að, það er að hugsa um gamla fólkið.