31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1782 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

97. mál, Húsafriðunarsjóður

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Efni þessa frv. er í stuttu máli það, að stofna skuli sjóð, sem nefnist Húsafriðunarsjóður, í þeim tilgangi að styrkja friðun, viðhald og endurbætur húsa og annarra mannvirkja, sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Frv. gerir ráð fyrir því, að sjóðnum sé aflað tekna með sérstöku framlagi ríkissjóðs, sem miðist við að vera sem svarar 20 kr. á hvert mannsbarn í landinu eða um það bil 4 millj. kr. á ári, eins og íbúatölu landsins er nú háttað. Þá er gert ráð fyrir því, að sveitarfélögin í landinu leggi sjóðnum jafnháa upphæð eða 20 kr. á íbúa, þannig að tekjur sjóðsins ættu að geta orðið um 8 millj. kr. á ári. Lagt er til, að sjóðsstjórnina skipi þrír menn og sé þjóðminjavörður formaður, en með í stjórn séu fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga og fulltrúi, sem ráðh. skipar án tilnefningar.

Ef frv. þetta næði fram að ganga, væri stigið stórt spor fram á við í afar mikilvægu menningarmáli. Það mundi gerbreyta allri aðstöðu að því er varðar raunhæfar aðgerðir í húsafriðunarmálum, og slíkra aðgerða er mikil þörf. Við getum ekki lokað augunum fyrir þessari miklu þörf. Við skulum vera þess minnug, að á sviði byggingaverndar bíða mikil verkefni, og það er ekki seinna vænna að taka þessi mál til alvarlegrar umræðu.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að næstum að segja í hverri sveit og hverjum kaupstað og þorpi í landinu sé að finna byggingarsöguleg verðmæti, sem gætu orðið skjótri eyðingu að bráð, ef ekki er að gert í tæka tíð. Því er ekki að leyna, að margt hefur farið forgörðum í þessu tilliti, sem mikil eftirsjá er að og verður aldrei bætt. Hirðuleysi um verndun og viðhald byggingarverðmæta á síðustu áratugum er of algengt, til þess að hægt sé að láta það liggja í þagnargildi. Óneitanlega hefur skilningsleysi á gildi byggingaverndar verið útbreitt hér á landi og valdið bætanlegum skaða. Það er ekki einasta, að sögufræg hús og mannvirki hafa verið látin drabbast niður og eyðileggjast, heldur hefur viðhald og umgengni um ýmis húsahverfi verið með þeim hætti, að vansæmd er að. Ég hygg t.d., að óvíða sé að finna slíka vanhirðu á timburhúsum sem hér á landi. Það virðist næstum jaðra við hatur og fyrirlitningu, hvernig farið hefur verið með þessi hús. Sama er að segja um gömlu sveitabæina. Þeir hafa horfið svo gersamlega, að heita má, að ómögulegt sé að finna óbrenglað dæmi um híbýlakost alþýðufólks á Íslandi, eins og hann var langt fram á þessa öld. Rústir og húsleifar eru þó sem betur fer víða til og góðir möguleikar til þess í ýmsum tilfellum að byggja upp bæi og útihús, eins og dæmi raunar sanna. Og af því að ég er borinn og barnfæddur í sjóþorpi, eins og þau gerðust fyrir 40–50 árum, verður mér hugsað til þess, hvernig þjóðlífsbreytingar allra síðustu áratuga hafa gereytt handaverkum frumbyggja þessara þorpa, svo að menn á mínu reki, sem rekast af og til til bernskustöðvanna, kannast ekki við sig. Ég er ekki að segja út af fyrir sig, að það sé mikill skaði að því. En það er menningarlegur skaði og svik við söguna, að ekki skuli í hverju þorpi vera a.m.k. eitt lifandi dæmi um algengustu híbýli fólks og vinnustaði manna á fyrri hluta aldarinnar, þegar þessi þorp voru að byggjast og vaxa.

Auðvitað dettur engum manni í hug, að hægt sé að vekja fortíðina upp frá dauðum. Það kemur vitaskuld ekki til mála að endurreisa heilar sveitir og sjóþorp í sinni gömlu og horfnu mynd. En það er menningarlegur skaði að því, hversu miskunnarlaus og hatursfull umskiptin hafa orðið frá fortíð til nútíðar. En hitt er jafnvís að þrátt fyrir áberandi vanmat margra á þessum málum og ófagra sögu að mörgu leyfi, hefur jafnframt verið unnið mikilsvert starf í landinu á sviði húsafriðunar og byggingaverndar. Þess mega menn gjarnan vera minnugir. Hér er um svo merkilegt menningarstarf að ræða, að ástæða er til að geta þess og meta að verðleikum. Hér er um brautryðjendastarf að ræða og af þeim sökum ærið merkilegt.

Hörður Ágústsson listmálari, sem gerþekkir sögu íslenzkrar byggingarlistar frá landnámstíð og er einn í hópi fremstu sérfræðinga okkar um húsafriðunarmál, hefur bent á það, að Matthías heitinn Þórðarson þjóðminjavörður, sem margir minnast, muni fyrstur Íslendinga hafa gert sér grein fyrir varðveizlugildi húsa og látið að sér kveða í þeim málum. Hann beitti sér m.a. fyrir viðgerð á Bessastaðakirkju árið 1921, á Hóladómkirkju 1924. Hann vann að því að Víðimýrarkirkja var byggð upp 1936. Hann stuðlaði að friðun Keldnabæjar á Rangárvöllum 1937, sem er alveg einstakur í sinni röð, og keypti fyrir þjóðminjasafnið bænahúsið í Gröf á Höfðaströnd, sem síðan var gert upp sem nýtt væri.

Eftirmaður hans í starfi þjóðminjavarðar, dr. Kristján Eldjárn, hélt myndarlega upp merki fyrirrennara síns í húsafriðunarmálum. Í hans tíð var unnið að friðun og endurbyggingu margra merkra húsa og mannvirkja, sem margir telja, að séu þjóðardýrgripir. Þar skal m.a. minnzt á vöruskemmuna á Hofsósi, sem ýmsir telja, að sé elzta uppistandandi hús á Íslandi, byggt 1735. Það má nefna Laufásbæ við Eyjafjörð, bænhús á Núpsstað, Saurbæjarkirkju í Eyjafirði og klukknaportið á Möðruvöllum í Eyjafirði, sem því miður hefur nú stórlaskazt í ofviðri, Viðeyjarkirkju og hús Bjarna riddara í Hafnarfirði, sem nú er unnið að að endurgera, og Kirkjuhvammskirkju, Krýsuvíkurkirkju, Gömlubúð á Eskifirði, og fleira mætti nefna.

Núverandi þjóðminjavörður, Þór Magnússon, sem gegnt hefur embætti síðustu 4 ár, er mikill áhugamaður um byggingaverndarmál, og undir hans forsjá er unnið að friðun og varðveizlu og endurbyggingu gamalla húsa víða um land.

Þess má sérstaklega geta, að ýmsir söfnuðir hafa látið gera við kirkjur sínar undir umsjá þjóðminjavarðar, og hefur Alþ. þá lagt fram fé að nokkru til þess. Má í því sambandi nefna Búrfellskirkju í Grímsnesi, Hvammskirkju í Norðurárdal, Kirkjuvogskirkju í Höfnum og Auðkúlukirkju.

Ýmsar húsaleifar hafa verið friðaðar á undanförnum árum, t.d. fjárborgir á Reykjanesskaga, verbúðir og sjóhús á Gufuskálum, Breiðuvík og Selatöngum.

Þess er líka að geta, að nokkur hús í landinu hafa verið viðgerð og endurnýjuð svo, að þau eru í fullu notagildi og auka hugblæ umhverfis síns af þeim sökum. Má þar nefna forsetasetrið á Bessastöðum, húsið Höfða hér í Reykjavík, Landshöfðingjahús við Skálholtsstíg hér í Reykjavík og „Húsið“ á Eyrarbakka. Sigurhæðir á Akureyri, hús Matthíasar Jochumssonar, varðveitir Matthíasarfélagið þar í bæ, og Zontaklúbbur Akureyrar hefur staðið fyrir endurnýjun Nonnahúss við Aðalstræti. Alþingi hefur um nokkurra ára skeið lagt fé til varðveizlu þessum sögufrægu og fallegu húsum. Þess er líka að geta, að minjasafnið á Akureyri beitti sér fyrir því, að Svalbarðskirkja var flutt til Akureyrar, og nú hefur kirkjan verið sett upp á gamla kirkjugrunninum við Aðalstræti á Akureyri og verið endurnýjuð að öllu og endurbyggð og tekin til notkunar sem ný kirkja væri. Þórður Tómasson safnvörður í Skógum undir Eyjafjöllum hefur endurbyggt skemmu og baðstofu í byggðasafninu í Skógum. Og fleiri dæmi um framtak í byggingaverndarmálum úti um byggðlandsins mætti vafalaust nefna.

Reykjavíkurborg hefur staðið mjög myndarlega að byggingavernd, fyrst og fremst með stofnun Árbæjarsafnins 1957. Þá er þess að geta, að Reykjavíkurborg stóð fyrir því, að sérfræðingar framkvæmdu húsakönnun á borgarlandinu með tilliti til varðveizlugildis húsa. Sams konar könnun hefur Akureyrarbær látið gera í sambandi við gerð aðalskipulags þar.

Í þjóðminjalögum frá 1969 er ítarlegur kafli um húsafriðun. Samkv. l. starfar sérstök húsafriðunarnefnd, sem er ráðgefandi um byggingaverndarmál. Húsafriðunarnefnd hefur nú starfað um það bil 3 ár og látið frá sér fara ýmsar till. um friðun húsa. Af till. hennar hafa tvær verið teknar til greina, svo að mér sé kunnugt, að svo komnu máli, þ.e.a.s. friðun vöruskemmu í Ólafsvík og „Norska húss“ í Stykkishólmi, og er unnið að viðgerð hins síðarnefnda. Aðrar till. n., sem flm, er kunnugt um varðandi friðun húsa, eru þessar: Friðun Alþingishúss. Dómkirkjunnar í Reykjavík, Menntaskólans (með Íþöku) í Reykjavík, stjórnarráðshúss, safnahúss í Reykjavík, Bernhöftstorfunnar í Reykjavík, „Hússins“ á Eyrarbakka og Hegningarhússins við Skólavörðustíg.

Hér hafa verið nefnd allmörg dæmi um jákvætt byggingaverndarstarf. Ég vil endurtaka það, að mér finnst skylt, að við metum þetta starf að verðleikum. Þetta starf getur einnig orðið okkur leiðarljós um jákvæðar aðgerðir í byggingaverndarmálum í framtíðinni. En umfram allt minnir þetta okkur á, að við eigum fram undan mikið óunnið starf á sviði byggingaverndar. Það minnir okkur á, að verkefnin á þessu sviði eru nær óþrjótandi. Merkir einstaklingar, embættismenn og menningarfélög hafa unnið af áhuga og góðum smekk að byggingaverndarmálum í um það bil hálfa öld. Þetta sýnist okkur langur tími, og vissulega liggur merkilegt starf að baki. Samt sem áður er hér um brautryðjendastarf að ræða og ber keim að því. Brautryðjendur eru oft eins og rödd hrópandans í eyðimörkinni. Þeir eru brennandi í andanum og baráttufúsir, þeir ryðja mörgum steini úr vegi og varða leiðina, en þeir verða líka fyrir margs konar mótlæti, og þar er skilningsleysið verst.

Ég held, að það sé ekki efamál, að almennt hefur ríkt skilningsleysi og tómlæti í sambandi við húsafriðunarmál hér á landi. Þjóðin hefur ekki haft almennan skilning eða smekk fyrir varðveizlugildi gamalla húsa og annarra mannvirkja. Ég minntist áðan á umgengnina um timburhúsin. Þau hafa drabbazt niður vegna vanrækslu á viðhaldi. Hér er oft um að ræða vel viðuð og rúmgóð hús, auk þess sem þau eru hlýleg og falleg og fara vel í umhverfi sínu.

Ég minntist líka á sveitabæina. Dæmi um venjulega sveitabæi eru varla til. Að vísu hefur tekizt að varðveita nokkur stórbýli, svo sem Glaumbæ í Skagafirði, Grenjaðarstað og Burstafell, en sveitabæir, sem stór hluti núlifandi manna fæddist og ólst upp í, eru minningin ein.

Ég held, að svona snögg umskipti séu óeðlileg. Það hlýtur að vera saknaðarefni, að ekki sé sagt menningarsögulegt vandræðamál, þegar þjóð, sem vill vera og er menningarþjóð, heggur svo hlífðarlaust á tengslin við fortíðina. Íslendingar telja sig með réttu í hópi menningarþjóða og hafa jafnvel stært sig að söguást sinni og þjóðmenningaráhuga. Íslendingar telja sér áræðanlega skylt að rækja sögu sína og fara vel með menningararf sinn, enda er það talin lítilmótleg þjóð, sem vanrækir slíkt. En þá hljóta menn að spyrja: Hvað er þjóðarsaga, og hver er menningararfur þjóðar? Þeirri spurningu treysti ég mér ekki til að svara, svo að viðhlítandi sé, enda brestur mig til þess þekkingu. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að Íslendingum hafi hætt til að hafa nokkuð einhæfan skilning á þessum atriðum.

Íslenzk bókmenning og önnur orðlist á sér langan aldur og hefur löngum verið talinn blómi íslenzkrar menningar og aðalframlag Íslendinga til heimsmenningarinnar, eins og menn segja svo spaklega. Sjálfsagt er mikið til í þessu. Hitt er annað mál, að þessi skoðun er nokkuð yfirborðskennd. Hún hefur m.a. viðhaldið allt of einhæfum skilningi Íslendinga á menningarsögu og í hverju menningararfur þjóðar sé fólginn. Sá misskilningur er ærið útbreiddur, að menningararfur íslenzku þjóðarinnar sé allur á bókum og í orðsins list, þ. á m. í hvers kyns þjóðsögum og alþýðukveðskap. Aðrir þættir þjóðmenningarinnar hafa verið vanmetnir. Orðlist hefur verið hafin til skýjanna, og gáfur og hæfileikar manna hafa mjög verið vegnir og metnir á vog mennta og skáldskapar. Haft er eftir merkum Íslendingi, að tungan ein tengi þjóðina við fortíðina. Þessi orð endurspegla betur en flest annað viðhorf Íslendinga til þjóðmenningararfs síns.

Það er auðvitað rétt, að tungan tengir okkur fortíðinni. En það er ekki rétt, að tungan ein tengi okkur við fortíðina. Tungan og bókmenntirnar eru ekki okkar eini menningararfur. Að þessu leyti gildir hið sama um okkur sem aðrar þjóðir. Menningararfur Íslendinga er fjölhreytt safn hvers kyns andlegrar iðju og verkmenntar í 1100 ár. Við erum ekki í neinum vafa um það, að íslenzk bókmenntasaga sé órjúfandi heild, að í íslenzkum bókmenntum sé samhengi, sem spannar fortíð og nútíð. En þannig mun það einnig vera um aðra þætti íslenzks menningararfs. Í sögu íslenzkrar byggingarlistar t.d. er án efa svipað samhengi og í bókmenntasögunni. Hins vegar hafa færri fjallað um sögu byggingarlistarinnar en bókmenntanna, og víst er, að almenn þekking og áhugi á sögu byggingarlistar er minni yfirleitt en á bókmenntunum.

Ekki vil ég ráða til þess, að dregið verði úr áhuga almennings og fræðimanna á bókmenntum og bókmenntasögu. En að skaðlausu mætti auka áhuga landsmanna á sögu innlendrar byggingarlistar og efla skilning fólks á menningargildi hennar. Ég held a.m.k., að það ætti að vera tiltölulega auðvelt verk að fá alla hugsandi menn til að viðurkenna, að hús og híbýli og hvers kyns mannvirki eru snar þáttur í mannlegu samfélagi. Engum getur dulizt, að hús og önnur mannvirki eru óhjákvæmilegur hluti mannlegs umhverfis. Eins og ljóð og sögur eru hugsmíðar, eru húsin ávöxtur mannlegrar hugsunar og handverka. Einhver komst svo að orði nýlega, að eins mætti lesa hús og lesa ljóð. Auðvitað er þetta hverju orði sannara. Hús geta vissulega vakið stemmingu eða sagt sögur. Og víst er, að við Íslendingar eigum mörg hús, sem vekja hughrif og segja mikla sögu. Slík hús eru hluti af menningararfi þjóðarinnar, og við hljótum að fara vel með allan okkar menningararf, hvort heldur hann er fólginn í skáldskap eða húsagerð.

Ég vil að lokum, herra forseti, geta þess, að nú þegar hefur verið mynduð alþjóðleg byggingaverndarhreyfing á vegum Evrópuráðsins. Þessi hreyfing hefur raunar verið í undirbúningi nokkuð lengi og er nú tekin til starfa og hefur í undirbúningi mjög víðtækar aðgerðir í sambandi við kynningu og upplýsingamiðlun um viðhald og verndun fornra og sögufrægra mannvirkja. Það er fyrirhugað, að sérstök byggingaverndarherferð verði skipulögð í öllum aðildarlöndum Evrópuráðsins næstu 3 ár, þ.e.a.s. árin 1973, 1974 og 1975. Ætlunin er, að aðalstarfsemi þessarar hreyfingar verði á árinu 1975, enda mun það verða nefnt byggingaverndarárið 1975, sbr. náttúruverndarárið 1970. Ég tel ekki áhorfsmál, að þessi hreyfing nái til Íslands. Við erum aðilar að Evrópuráðinu, og ég tel það skyldu okkar að taka þátt í þeirri víðtæku menningarsamvinnu, sem Evrópuráðið stendur fyrir á ýmsum sviðum.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.