31.01.1973
Neðri deild: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

97. mál, Húsafriðunarsjóður

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með vel samda og í sjálfu sér merkilega ræðu, sem hv. flm. flutti. Það er því miður allt of sjaldgæft, að heyrist hér í þingsölum, að lögð hafi verið mikil vinna í ræður og þær séu jafnvandaðar og þessi ræða var. Ég tek vissulega undir flest það, sem hann sagði, og sérstaklega er ég sammála honum um, að fátt getur stuðlað betur að varðveizlu sögu og minja en vernd byggða og einstakra bygginga. Það er svo, að fæst er skemmtilegra og áþreifanlegra, þegar ferðazt er, hvort sem er innanlands eða erlendis, en að komast í snertingu og tengsl við gamlar byggingar og gömul byggingarsvæði, sem eru lifandi leifar fyrri tíma.

Enda þótt við Íslendingar höfum ætið borið virðingu fyrir sögu okkar og fortíð, hefur því miður verið svo hér á landi, að lítill skilningur hefur ríkt um vernd bygginga. Eins og fram kom í síðustu ræðu, hefur verið unnið hér gott starf, brautryðjendastarf, eins og það er nefnt, af vissum aðilum hér á landi til þess að vernda byggð og byggingar. En þetta starf hefur því miður mætt meira og minna skilningsleysi og tómlæti, eins og hv. flm. orðaði það, og ekki sízt hefur það skilningsleysi og tómlæti verið ríkjandi hjá stjórnvöldum í þessu landi. Því miður er of mikið um þau viðbrögð, sem fram komu hér fyrr í þinginu, þegar þessi mál bar á góma, sams konar viðbrögð og komu fram hér í þinginu, þegar sagt var, að það skyldi rifa hús, gömul og merkileg, og þau væru jafnvel til vansa og óprýði fyrir okkur.

Það hefur verið viss vakning hér á landi, vakning, sem hefur notið áhrifa erlendis frá, um varðveizlu gamalla bygginga hér á landi, og þessi vakning hefur einkum átt sér stað meðal ungs fólks, og er það góðs viti. Ungt fólk hefur í vaxandi mæli sýnt áhuga á því að varðveita slíkar gamlar og merkilegar byggingar, og við eigum ekki að kæfa niður þessa vakningu, við eigum ekki að stöðva þessi viðleitni, heldur einmitt að örva hana og taka undir hana. Að þessu leyti er þetta frv., sem hér er borið fram, jákvætt og þess virði, að það sé samþ., a.m.k. efnislega.

Ég hef hins vegar haldið, að það hefði verið eðlilegra, þegar stofnaður er húsfriðunarsjóður, að sá sjóður yrði tengdur þeim lögum, sem fyrir eru, þ.e.a.s. þjóðminjalögum, en þar er einn kafli, sem fjallar sérstaklega um friðun húsa og annarra mannvirkja. Í þeim kafla eru nokkur ákvæði, sem lúta að því, hvernig með skuli fara friðuð hús og hvernig kostnaður skuli greiddur af viðgerð, endurbótum eða viðhaldi slíkra húsa. Því finnst mér koma vel til greina, þegar frv. er tekið til athugunar í n., að þá sé athugað, hvort ekki sé hægt að tengja það beint inn í þau lög, sem fyrir eru, án þess að það breyti nokkuð þeim tilgangi, sem í þessu frv. felst.

Í öðru lagi, og það snertir þessa aths. mína líka, er eðlilegt að tengja þetta frv. inn í núgildandi lög, þegar haft er í huga, að mjög getur komið upp ágreiningur um túlkun á menningarsögulegu og listrænu gildi. Þetta byggist á mismunandi mati, eru afstæð hugtök. En búið er að semja lög, sem gilda um friðun húsa. Þar eru gefnar skýringar á því, hvað felst í þessum orðum, menningarsögulegur og listrænn, og gengið út frá vissum forsendum, og því finnst mér eðlilegt, þegar þetta frv. er tekið til athugunar að það verði tengt beint inn í núgildandi lög. Í því sambandi mætti og athuga um skipan þeirrar stjórnar, sem á að fara með húsafriðunarsjóðinn, hvort slíkt ætti að fella undir verksvið húsafriðunarnefndar, sem nú er til, og fjölga eða fækka í n. Það er ekki neitt aðalatriði, en er til athugunar líka.

Ef raunverulegur áhugi er fyrir því hjá hv. þm., flm, og öðrum, að stuðla að húsafriðun og vernd gamalla sögulegra bygginga, og ég efast reyndar ekki um, að þessi áhugi er fyrir hendi, þá beini ég athygli hv. þm. að því máli, sem efst hefur verið á baugi hér að undanförnu, þegar slík varðveizlumál ber á góma. Þar á ég við Bernhöftstorfumálið. Hv. 3. þm. Norðurl. e., síðasti ræðumaður, játaði, að hann hefði sérstakar tilfinningar gagnvart vissum, gömlum byggingum í sinni heimabyggð, af því að hann væri þar borinn og barnfæddur. Og nú skal ég gera þá játningu líka sem borinn og barnfæddur Reykvíkingur, að ég hef vissar tilfinningar til ákveðinna hverfa hér í bænum og ákveðinna gamalla bygginga, og ég held, að það sé svo um fleiri Reykvíkinga, hvort sem þeir eru bornir og barnfæddir, og reyndar um alla Íslendinga, að þeir bera vissar tilfinningar til gömlu byggðarinnar hér í Reykjavík og ekki sízt einmitt til byggðarinnar í miðbæjarkvosinni. Hefur svokölluð Bernhöftstorfa sett mjög sterkan svip á þetta hverfi núna um áratugaskeið og reyndar um lengri tíma. Þessum byggingum eru tengdar ákveðnar minningar. Um þær ríkir ákveðið andrúmsloft og þetta er að vissu leyti helgur staður hér í höfuðborginni. Það er mat manna, mjög margra, að þessar byggingar skuli varðveita, og stafar það ekki eingöngu af þessum tilfinningasjónarmiðum, sem ég er að ræða, heldur líka af þeirri bláköldu staðreynd, að þarna eru á ferðinni byggingar, sem bera í sér mjög merkilegt sögulegt gildi, eru nánast einustu leifarnar af ákveðnu byggingarstigi hér á landi. Þessar byggingar eru í eigu ríkissjóðs og undir stjórn núv. ríkisstj. Því miður hefur það verið svo, að þó að húsafriðunarn. hér í borg hafi lagt fram mjög ákveðnar till. um, að friða skyldi þessa byggð, Bernhöftstorfuna, þá hefur hæstv. ríkisstj. heykzt á því að staðfesta þessa friðun, og enn þá liggur það mál óafgreitt hjá hæstv. ríkisstj. Úf frá þeim orðum, sem féllu áðan í ræðu hv. þm., er náttúrlega ekki hægt að segja annað en að það sé einbert hneyksli, að þetta mál skuli ekki hafa fengið afgreiðslu, og þá vitna ég til þeirra raka, sem hér hafa komið fram í ágætri síðustu ræðu. Á meðan staðfesting á þessari sjálfögðu friðun hefur ekki fengið afgreiðslu hafa þessi hús því miður drabbazt niður, og þau eru, eins og þau líta út í dag, til nokkurrar óprýði. En það er hægur vandinn að bæta þarna úr. Ríkisstj. gæti að sjálfsögðu, úr því að hún tekur ekki þá sjálfsögðu ákvörðun, sem ég var að vitna til áðan, sýnt þau eðlilegu viðbrögð að halda þó við þessum húsum í hjarta borgarinnar, því að ekki er hægt að kenna um, að þar sé um dýrt viðhald að ræða. En jafnvel þó að hæstv. ríkisstj. horfi í þá peninga og telji sig ekki vilja eða geta lagfært þessi hús, þá vek ég athygli á því, að áhugasamtök hér í borg hafa skrifað hæstv. ríkisstj. og beinlínis boðist til að lagfæra þessi hús og setja þau í sómasamlegt ástand. Ég er þá að vitna til bréfs frá stjórn Arkitektafélaes, Íslands, sem dags. er 9. ágúst 1972 og ég vil leyfa mér — og með leyfi hæstv. forseta — að lesa. Það er stutt bréf og hljóðar á þessa leið:

„Stjórn Arkitektafélags Íslands vill hér með fara þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún veiti henni og þeim aðilum öðrum, sem áhuga hafa á varðveizlu Bernhöftstorfu, leyfi til þess að hreinsa til umhverfis húsin, lagfæra þau og mála að utan ríkissjóði að kostnaðarlausu. Leyfið mundi fela í sér frestun á aðgerðum öðrum, svo sem flutningi húsanna eða niðurrifi, en fæli ekki að öðru leyti í sér neina skuldbindingu fyrir ríkisstj. Arkitektafélag Íslands hefur haft verndun torfunnar á stefnuskrá sinni undanfarin 21/2 ár, m.a. efnt til almennrar samkeppni um, á hvern hátt torfan gæti haft almennu hlutverki að gegna í miðbænum um ókomin ár. Rökstuðning fyrir afstöðu félagsins má sjá í bréfi til borgarráðs, dags. 7. ágúst 1972, en afrit af því bréfi fylgir hér með.

Með ósk um vinsamlega afgreiðslu. Stjórn Arkitektafélags Íslands.“

Þá er líka frá því að segja, sem flestum er kunnugt, að hér hafa verið stofnuð samtök áhugamanna um verndun þessara bygginga, og ég geri ráð fyrir því, að það sé efst á baugi hjá þessum samtökum einmitt að fá að ráðast strax í lagfæringu á húsunum ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Með hliðsjón af þessu og þeim áhuga, sem fram kemur í flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, heiti ég á hv. þm. að stuðla nú að því með öllum ráðum, að úr verði bætt hvað snertir þessi hús, sem ég hef gert að umtalsefni. Þetta er ekki einkamál neinna áhugasamtaka, þetta er ekki einkamál okkar Reykvíkinga, þetta hlýtur að vera áhugamál allra Íslendinga, og þetta er stórkostlega þýðingarmikið í þeirri viðleitni að efla vernd bygginga og byggða hér á landi. Það er rétt, sem síðasti ræðumaður sagði, að skilningsleysi og tómlæti hefur verið ríkjandi í þessu máli, og það er þörf á mikilli vakningu. Og ég er sannfærður um, að í undirtektum við háværustu kröfum um verndun á gömlum byggingum sé ekki betur gert heldur en einmitt að taka nú til hendinni gagnvart Bernhöftstorfunni og byggðinni þar í kring.

Ég vil svo ljúka þessum orðum mínum með því að minna á, að ég ásamt þrem öðrum hv. þm. hef leyft mér að bera hér fram í þinginu þáltill., sem stuðlar að því að varðveita Bernhöftstorfuna, og um leið og ég lýsi yfir fullum stuðningi við efni þessa frv., heiti ég á hv. flm. frv. að beita nú áhrifum sínum til þess, að sú till. fái afgreiðslu og nái fram að ganga hér í þinginu.