05.02.1973
Neðri deild: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mun ekki gera út af fyrir sig að umræðuefni þann fréttaflutning, sem hér var drepið á, vegna þess að útvarp og sjónvarp heyrir ekki undir mig, og það er eðlilegra, að sá ráðh., sem fer með þau málefni, svari til saka þar, ef til saka er að svara. En ég stend aðeins upp út af því, að hv. þm. lét í ljós þá ósk, að ríkisstj. léti frá sér heyra varðandi þá hugleiðingu, skilst mér, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., Gunnari Thoroddsen, á þá lund, að það ætti að taka til málflutnings fyrir Alþjóðadómstólnum við efnismeðferð hans. Ég skildi það svo, að það væri um þetta atriði, sem hv. þm. óskaði eftir, að af stjórnarinnar hálfu kæmu fram vissar yfirlýsingar.

Þessu er því til að svara, að stjórnin mun að sjáifsögðu fara eftir fyrirmælum Alþ., og Alþ. hefur einróma lýst því yfir með ályktun sinni frá 15. febr. s.l., að þessir samningar frá 1961 hefðu þjónað tilgangi sínum og Íslendingar væru ekki bundnir lengur við þá. Á þessum grundvelli hefur verið unnið að málinu, og á þessum grundvelli verður áfram unnið. Mér skilst, að ef yrði farið að mæta af Íslands hálfu við efnismeðferð málsins, þá lægi í því eða gæti a.m.k. legið í því viðurkenning á, að samningarnir væru í gildi, og Íslendingar yrðu þá bundnir af þeim efnisdómi, sem upp yrði að lokum kveðinn. Ég held þess vegna, að stefna ríkisstj. í þessu hljóti að verða ákaflega skýr og auðsætt, hver hún verður, meðan Alþ. breytir ekki fyrri ákvörðun sinni um þetta efni.

Ég sé ekki ástæðu til að fara á þessu stigi út í neinar bugleiðingar eða útskýringar á því, hvernig þessi lögsögudómur kemur mér fyrir sjónir. Þó get ég sagt það hér, að hann kom mér ekki á óvart. Ég hef alltaf haldið því fram og mun halda því fram, þrátt fyrir það að e.t.v. verði fáir á því máli og fleiri fræðimenn á öðru, að Alþjóðadómstólnum hefði borið skylda til þess að kveða upp úrskurð um lögsögu sína, áður en hann gaf út það, sem menn ýmist kalla bráðabirgðaúrskurð eða tilvísun. Ég held, að honum beri skylda til þess jafnan að gera slíkt, þegar annar aðili mætir ekki. Ég held, að það ákvæði í reglum dómsins, sem segir um það atriði, sé glöggt og hljóti samkv. eðli málsins einnig að eiga við um bráðabirgðaúrskurði eða bráðabirgðatilvísanir. Auðvitað gat ekki nokkur heilvita maður látið sér detta í hug, eftir að þessi bráðabirgðaúrskurður lá fyrir, annað en þeir dómarar, sem að honum stóðu, hefðu tekið tillit til og ath., hvort þeir ættu lögsögu í málinu. Ég lít svo á, að í raun og veru hafi þeir með sínum bráðabirgðaúrskurði, hvað sem þeir vilja segja um það eftir á, kveðið upp úrskurð sinn um lögsögu. Það var bókstaflega ómögulegt fyrir þá að éta það ofan í sig aftur, sem þeir voru búnir að segja. Ég held því, að þessi dómur þeirra um lögsögu þurfi út af fyrir sig ekki að koma neinum á óvart.

Fyrir dómnum hafa legið öll sjónarmið Íslendinga og mótmæli við því, að dómurinn ætti lögsögu í þessu máli, yfirlýsing og rök fyrir því, að við teldum þennan samning ekki bindandi lengur fyrir okkur og hefðum sagt honum upp með hæfilegum fyrirvara.

Auðvitað er eitt höfuðatriði í þessu máli það, að út frá mati á aðstæðum, eins og þær voru 1961, og því ástandi, sem þá ríkti, hefur það auðvitað verið sjónarmið þeirra, sem stóðu að samningnum, að það þyrfti að gera þennan samning þá, til þess að fallið væri frá mótmælum gegn 12 mílum. Mergurinn málsins er sá, að ég held, að ef menn hefði 1961 getað séð þróunina fyrir og hversu ör hún hefur orðið í þessum efnum, þá hefði enginn gert þennan samning. Og mergurinn málsins er sá, að árið 1972 eða 1973 dytti engum í hug að kaupa það nokkru verði, dytti engum í hug, að það þyrfti að gefa nokkuð fyrir það að fá viðurkenndar 12 sjómílur sem fiskveiðilandhelgi, vegna þess að nú dytti engu ríki í hug að mótmæla 12 sjómílna landhelgi. En það eru slík sjónarmið, sem Alþjóðadómstóllinn hefur ekki viljað fallast á m.a., en hafa legið fyrir honum greinilega. Það eru þessar brostnu forsendur, sem fyrst og fremst gera það að verkum, að það er engin sanngirni í því að telja Íslendinga nú bundna af samningunum frá 1961.