05.02.1973
Neðri deild: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða. Þegar um alvörumál er að ræða eins og þetta, á það að vera undir því komið, hvort tiltekinn þm. situr í sínum stól eða ekki, hvort það er tekið til umr. Varðandi ásakanir um það, að ég hafi ekki reynt að gera honum viðvart, þá vil ég spyrja hv. þm., hvort hann hafi hugmynd um, hvort ég hafi gert það eða ekki. Síðasta tilraun mín var sú að hitta hann hér tímanlega fyrir fund, ég kom hingað kortér fyrir 2 til þess að gera honum viðvart, og hann kom ekki. Fundur hófst, og hann var ekki kominn. Mér er sama, hvað hv. þm. Sjálfstfl. kunna að segja, ég lít ekki svo stórt á hv. þm. Gunnar Thoroddsen, að ég telji, að stórmál eins og þetta þurfi að bíða þess, að honum þóknist að ganga í salinn.

Hv. þm. hafði uppi ásakanir í minn garð fyrir ósmekkleg vinnubrögð, að ræða um þetta, þegar viðkomandi þm. er ekki viðstaddur, standa hér upp utan dagskrár, þegar maðurinn getur ekki svarað fyrir sig. Það var einu sinni í fyrra, — ég held, að það sé um það bil ár síðan, að einn þm. fór til Bretlands, og þegar hann var á leiðinni til Bretlands langt á sjó úti, þá stóðu upp forustumenn beggja stjórnarandstöðuflokkanna, stigu upp í þennan stól til þess að ráðast á þennan þm. Ég spyr: Áttu þeir ekki að bíða með þetta, þangað til þessi þm. kæmi heim? Ég sé ekki betur en hér sé um að ræða fordæmi ekki ómerkari manna en Gylfa Þ. Gíslasonar og Jóhanns Hafsteins. (Gripið fram í: Hann sást svo lítið þennan vetur, þm. Hann var alltaf í hafi.) Það er svo annað mál, hvað menn hafa verið lengi í burtu. En þetta er staðreynd. Á þennan þm. var ráðizt, þegar hann var hvergi nærstaddur og hafði enga möguleika á að svara fyrir sig. Og ég endurtek, að hér er um að ræða fordæmi, og hafi ég gerzt sekur um óviðurkvæmilega framkomu í þessu sambandi, hafa þessir forustumenn tveggja stjórnarandstöðuflokkanna svo sannarlega gert það líka.