05.02.1973
Neðri deild: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég er þess áskynja, að hér hafa hafizt umr. og kannske deilur utan dagskrár um landhelgismálið, og ég get að sjálfsögðu ekki blandað mér í þær umr., því að ég hef ekki heyrt þær og var að koma af fundi m.a. með hæstv. utanrrh. og þar sem einnig hv. þm. Gunnar Thoroddsen var staddur. Ég vil aðeins á þessu stigi málsins segja það, að mér finnst tilhlýðilegra að ræða um þann úrskurð, sem Haagdómstóllinn hefur nú fellt, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur fengið úrskurðinn í hendur. En hæstv. utanrrh. tjáði mér, að enn hefur hún ekki fengið þennan úrskurð, þó að menn hafi heyrt í fréttamiðlum um niðurstöður hans. Og landhelgisnefndin hefur ekki verið kvödd til viðræðna við ríkisstj. til ráðuneytis, eins og hún var þó stofnuð til að hafa, um afstöðuna til málsins núna. Ekki hefur heldur unnizt tækifæri til að ræða þetta í utanrmn.

Við höfum yfirleitt haft þann hátt á í sambandi við landhelgismálið að forðast opinberar deilur hér í sölum Alþ. um málið og oft lagt allir á okkur mikið erfiði til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu, og ég held, að við höfum hlotið yfirleitt þakklæti íslenzku þjóðarinnar fyrir að hafa náð samstöðu í þessu máli og deilur hafi ekki verið hafnar um það í sölum Alþingis.

Þetta vildi ég segja á þessu stigi málsins. Mér finnst eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. fái í hendur úrskurð Haagdómstólsins um lögsögu hans og niðurstöður hans verði ræddar, bæði í landhelgisnefndinni og í utanrmn., og við höldum þeim hætti, svo lengi sem við getum, að reyna að forðast deilur hér í sölum Alþingis, opinberar deilur um málið, þar sem hvert orð er flutt í fjölmiðlum hér á landi og erlendis. Þetta skulu vera mín orð nú. Eins og ég sagði, tek ég ekki þátt í þeim deilum, sem ég hef ekki heyrt hér, en mér finnst tilhlýðilegt og reyndar bezt viðeigandi, að hæstv. forseti léti nú lokið þessum umræðum og við fengjum tækifæri til þess í tómi að ræða málið innan vébanda þessara tveggja nefnda við hæstv. ríkisstj.