25.10.1972
Neðri deild: 6. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

25. mál, dvalarheimili aldraðra

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég hef sjaldan orðið eins undrandi á þeim stutta ferli, sem ég á hér á Alþingi, og yfir þeirri ræðu, sem hæstv. ráðh. flutti, eftir að hann hafði flutt sína framsögu og við nokkrir hv. þdm. höfðum talað. Ég skildi hæstv. ráðh. þannig, þegar fram í ræðuna kom, að hann hefði reiðzt því, að ég rifjaði upp, að n. hefði unnið í þessu máli og eitthvað hefði verið í því gert, áður en hann kom í ráðherrastól. Ég gat engan veginn komið því heim og saman, að hann reiddist svo af öðru, sem ég sagði, en þessu. Samt sem áður staðfesti ráðh. það í ræðu sinni, að þetta væri rétt, satt og rétt, þessi n. hefði undirbúið málið. Hann taldi, að ég hefði látið að því liggja, að hann hefði farið með ósannindi. Ég sagði það ekki, en ég komst þannig að orði, — það mátti skilja það þannig, — að hann hefði látið satt kyrrt liggja, og það er dálítið annað mál. Hann lét satt kyrrt liggja og viðurkenndi það sjálfur. Ég skil varla, hvaða hvatir liggja til þess að reiðast því. Það hefur verið bent á, að menn láti stundum satt kyrrt liggja. Kannske er það af því, að menn vilja einir mikla sig af því, sem aðrir hafa lagt hönd á plóginn með.

Ég vil minna á mál, sem er keimlíkt þessu. Hæstv, ráðh. kom fram í sjónvarpi fyrir nokkru og skýrði frá því, að nú stæði fyrir dyrum iðnbylting á Íslandi, ekkert minna iðnbylting á Íslandi, og hann hefði komið því til leiðar. Ekki sá hæstv, ráðh. ástæðu til að geta þess, að þetta mál hefði verið í undirbúningi í mörg ár og þáv. hæstv. iðnrh, sagt Iðnþróunarstofnuninni að gera þessa áætlun. Samt lét hæstv, ráðh. þetta kyrrt liggja.

Hæstv. ráðherra tók það hér að sér að skilgreina fyrir okkur frjálsræðis- og framtakshugtak sjálfstæðismanna. Nú gæti ég tekið mér það fyrir hendur að skilgreina meginstefnu Alþb. og staðhæft, að Alþb. vildi berja niður alla frjálsa hugsun, eins og vinir þeirra í austri, fangelsa menn og senda þá á geðveikrahæli, sem vildu segja eitthvað, og banna alla aðra stjórnmálaflokka á Íslandi. Þetta gæti ég sagt. En ég er ekki nærri nógu ósvífinn til þess, og þarna skilur á milli mín og hæstv. ráðh. Ég ætla ekki að segja honum, hver er stefna Alþb., og hann á að láta það ógert að vera að segja okkur, hver sé stefna Sjálfstfl. Hann befur öðrum hnöppum að hneppa.

Ég taldi mig sneiða hjá þeim efnum í ræðu minni, sem gætu orðið til einhvers pólitísks karps við umr., m.a. með því að minnast ekki á þátt núv. hæstv. ríkisstj. í málefnum aldraðra, sem frægur er að endemum. Ráðh. sagði hér: Menn verða metnir af verkum sínum. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur sent öldruðum í landinu ákveðnar kveðjur. Hún sýndi hug sinn til þeirra í verki, þrátt fyrir það að á Alþingi og annars staðar var búið að vara við þessu, búið að vara við skattaráni ríkisstj. í garð gamla fólksins hvað eftir annað. Hæstv. sjútvrh. kom í þennan ræðustól og hæddist sérstaklega að mér persónulega fyrir að gera þetta. Ég skora á hann að gera það aftur. Ég ætla svo að lokum aðeins að segja það, að ég vænti þess, að framvegis hagi hæstv. trmrh. máli sínu á annan veg, þannig að umr. hér á Alþingi geti orðið málefnalegri en þessar.