07.02.1973
Neðri deild: 47. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

143. mál, sala Miklaholtshellis í Hraungerðishreppi

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál vil ég aðeins við 1. umr. minna á það, að í landi þessarar jarðar eru einu malarnámurnar til vegagerðar allt frá Ingólfsfjalli og langt austur fyrir Þjórsá. Hér skiptir því miklu máli fyrir ríkið og hagsmuni þess, að jörðin verði ekki seld einstaklingum, a.m.k. ekki án fyrirvara um rétt Vegagerðar ríkisins til áframhaldandi efnistöku í landareign hennar. Það mun vera fyrir því fordæmi í svipuðum tilfellum, að efnistaka til vegagerðar sé a.m.k. undanskilin, þegar ríkisjörð er seld í einkaeign, enda mundi það kosta ríkið mikla fjármuni, ef jörðin yrði seld með þessum nytjum, sem ríkið á og þarf að nytja framvegis. Ég vil því mælast til þess, að sú hv. þn., sem fær málið til meðferðar, vísi því til umsagnar vegamálastjóra, svo að hann geti nánar sagt um, hvaða hagsmuna ríkið hefur að gæta í sambandi við sölu jarðar þessarar.