07.02.1973
Neðri deild: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1833 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

151. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst láta í ljós fögnuð minn yfir því, að svona myndarlega skyldi til takast hjá þeirri n., sem falið var að fást við þetta mikla vandamál, þetta síbreytilega vandamál, og hún hera gæfu til að komast að sameiginlegri niðurstöðu og geta lagt sameiginlegar till. fyrir hv. Alþ. Það varð í fyrsta lagi mjög snemma í nefndarstarfinu samkomulag um að staðnæmast við sjóðmyndun að upphæð um 2000–2500 millj. kr., og í annan stað þurfti — en það vafðist meira fyrir okkur um. — að komast að niðurstöðu um, hvernig þessa mikla fjár skyldi aflað. Sú varð þó niðurstaðan að dreifa þessu á skattakerfið, þannig að allir landsmenn yrðu þátttakendur í að lyfta þeirri byrði, sem hér yrði að taka á herðar. Enginn veit raunar og við nm. ekki fremur en aðrir, hvaða fjármagn þarf til að bæta úr því tjóni, sem orðið er og verða kann. En við göngum allir út frá því, að sú upphæð, sem nefnd er í till. n., sé aðeins byrjunin, sem með þurfi, og til uppbyggingarinnar sjálfrar verði að leita möguleika á lánsfé, miklu lánsfé í viðbót við það fé, sem gert er ráð fyrir í till. n., og í viðbót við það fé, sem berst frá landsmönnum víðs vegar að og frá öðrum löndum. Viðfangsefnið breytist frá degi til dags, t.d. á því dægri, sem nú er að líða, verður gerbreyting á viðhorfum, þar sem útlit er fyrir, að höfnin í Vestmannaeyjum sé að lokast, hafnamál suðurstrandarinnar á Íslandi þannig í allt öðru ljósi í dag heldur en í gær eða í fyrradag. Þar bætast ný verkefni við, sem enginn getur undan vikizt að leysa með einhverjum hætti, því að án nýtingar á Vestmannaeyjamiðum viljum við ekki vera, án þess að bæta þar úr á hvern þann hátt, sem í mannlegum mætti stendur. Verður sjálfsagt fyrsta aðgerðin sú að reyna að opna Vestmannaeyjahöfn annars staðar, og einnig má búast við, að í hafnaraðgerðir þurfi að ráðast á suðurströndinni til þess að skapa Vestmannaeyjaflotanum aðstöðu í bili.

Ég skal ekki orðlengja um málið sjálft. Ég tel þess enga þörf eftir ágæta framsögu nefndarformanns okkar. En það gefur enginn upp vonina um það, að aftur verði framtíðarbyggð í Vestmannaeyjum. Og það höfum við auðvitað öll í huga hér sem annars staðar á Íslandi, að við erum eitt í senn, Vestmanneyingar — Íslendingar, og allir Íslendingar eru Vestmanneyingar að því er þessi vandamál varðar.