08.02.1973
Sameinað þing: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hafði nú eiginlega ekki hugsað mér að blanda mér í þessar umr., því að sannast sagna eru umr. af þessu tagi, þar sem einn talar í austur og annar í vestur, býsna tilgangslausar, að manni finnst, þegar jafnvel gengur svo langt, að sömu tölurnar eru notaðar til rökstuðnings sitt á hvað. En þetta er nokkuð, sem gerist oft. Og ég játa það, að þegar svo margir af hinum ágætu samflm. mínum að þessari till. hafa komið upp og lýst áliti sínu, þá gat ég eiginlega ekki setið lengur eins og áhugalaus maður um þetta okkar hugsjónamál og vildi aðeins segja örfá orð um þetta frá sjónarmiði mínu, hvers vegna í raun og veru við erum að þessu, hvers vegna við erum að flytja þessa till., hverjar meginorsakir liggja þar til.

Að vísu er það svo, að hér fara rök manna svo mjög á mis, að þess er ekki að vænta, að þeir, sem andstæðir eru í þessum efnum, skilji frekar rök okkar en ég t.d. get skilið rök þeirra. Ég fæ t.d. ekki skilið þau rök, þegar farið er að tíunda margvíslegar tölur um bifreiðaeign landsmanna og annað því um líkt. Mér finnst þetta hreinlega út í hött, þegar þess er gætt, að skilningur minn á þessu er sá, að hér sé aðeins um ákveðna greiðslu á þjónustu að ræða og hana mjög óverulega meira að segja miðað við gildi hennar. Hér skiptir sem sé engu máli, hvaða einstaklingar það eru eða hvaðan í veröldinni þeir eru, sem greiða þetta gjald eða greiða þessa þjónustu, út af fyrir sig, heldur aðeins að þeir, sem njóta þeirrar þjónustu, sem slíkir vegir óneitanlega eru, greiði fyrir það sitt réttláta gjald. Af því leiðir auðvitað, að því fleiri ferðir sem menn fara á þessum góðu vegum, því meiri gróði verður af þjónustunni og því hærri greiðslu inna þeir vitanlega af hendi. Mér er það líka afveg óskiljanlegt, hvernig þm., sem sjálfur hefur staðið að því að koma á sérstöku veggjaldi, skuli nú telja till. um veggjald nánast setta fram í einhverju ógáti eða óráði, eins og skilja mátti af ummælum hv. 1. þm. Sunnl. Ég vona, að þetta sé ekki almennt álit hans um ýmsar aðgerðir þeirrar ríkisstj., sem hann átti sæti í, ef miðað er við þetta álit hans á þessari aðgerð, sem ég er þó algerlega ósammála, því að af tiltektum viðreisnarstjórnarinnar yfirleitt, held ég, að ég hafi einna helzt fagnað því, að þessi réttláta gjaldheimta var upp tekin. Fólk úti á landsbyggðinni furðaði sig hreinlega á því, þegar þetta veggjald var afnumið. Það var ekki fyrir neina reiði eða neitt því um líkt. Það var aðeins undrandi á því, að nokkrum skyldi þykja hér of langt gengið, og það var greinilegt, að fólki þótti það hart, ef þau forréttindi, sem þetta hraðbrautarfólk, sem ég vil svo kalla, — þau forréttindi, sem það nýtur, ættu ekki að vera það mikils metin, að þau væru metin til nokkurs gjalds.

Það er búið að ræða í umr. bæði nú og áður um þann þungbæra vegtoll, sem þeir greiða, sem við slæmu vegina búa, og fólkið úti á landsbyggðinni þekkir mætavel. Ég sá það í dagblaði stuttu fyrir jólin, að Selfyssingar voru að kvarta undan því og segja, að þeim þætti það hart aðgöngu, ef þeir ættu nú að fara að greiða veggjald af hraðbraut sinni austur, hafandi svo lengi hossazt á malarvegum og eytt í það fjármunum í ríkum mæli í benzíni, hjólbörðum og viðhaldi. Vissulega var þetta rétt, þ.e.a.s. þeir höfðu áður búið við þessa slæmu vegi og þótt það býsna þungbært. Þetta ástand búa menn við enn í dag á Norður-, Austur- og Vesturlandi og Vestfjörðum, og ég satt að segja hef aldrei getað skilið þann hugsunarhátt, sem liggur að baki þessum kveinstafakennda barlómi, sem hefur heyrzt öðru hverju frá íbúum þeirra staða, sem hafa fyrst og fremst haft not af t.d. Reykjanesbrautinni. Ég segi fyrir mig, eins og hv. 1. flm. vék hér að áðan, að ég mundi vera þakklátur fyrir hönd okkar Austfirðinga, ef við mættum fyrir sáravægt gjald aka hlemmibraut, sem gerði allt í senn að spara stórar upphæðir í rekstri bifreiðarinnar, flýta för þeirra og gera alla ferðina þægilegri og auðveldari. Það væri t.d. gaman að vita, hver vildi skipta á þeirri braut, sem Reykjanesbrautin er, og meðalvegi á Norður- og Austurlandi t.d. Ég hygg, að það sé ekki hægt að finna haldbetri rök fyrir réttmæti veggjaldsins en einmitt það, að vitanlega mundi enginn vilja skipta.

Það hefur nú komið til allmikillar umræðu meðal þeirra þm. úr Reykjaneskjördæmi um þetta mál, og mér heyrist, að velflestir séu þeir andvígir og hafi verið andvígir þessari gjaldtöku. En ekki virðast þeir hafa verið að neinu leyti í betri takt við sína kjósendur en t.d. hv. formaður fjvn., Geir Gunnarsson, sem ég veit ekki betur en hafi haft allt aðra afstöðu í þessu máli og staðið jafnréttur eftir og kannske einmitt þess vegna. Ég veit líka, að þetta hraðbrautarfólk kemur oft, oftar en einu sinni á ári, út á þessa vondu vegi, og þá finnur það áreiðanlega samanburðinn og þá finnur það líka, hve sanngjarnt það er að greiða smágjald fyrir að aka margfalt betri braut.

Ég ætla ekki að fara að orðlengja þetta frekar. Hér eru svo margir búnir að tala á undan mér sem hafa gert þessu máli góð og jafnvel fullnægjandi skil, að ég þarf þar litlu við að bæta. En hitt er annað, að forgangur þéttbýlissvæðanna hér suðvestanlands yfirleitt í öllum málum er það mikill og hefur verið það yfirþyrmandi á undanförnum árum, ekki hvað sízt einmitt í vegamálum og samgöngumálum, að mér finnst fullkomin ástæða til þess að þm. landsbyggðarinnar rísi upp í þessu efni, þegar um svo augljóst réttlætismál er að ræða eins og hér um ræðir og reyni þó a.m.k. að þoka málunum ögn í réttlætisátt. Það er grundvallarástæða þess, að ég stend að till. um þetta efni, að ég tel þetta réttlætismál. Hér er ekkert frá neinum tekið. Það er aðeins greitt fyrir þá þjónustu, sem ekki er völ á annars staðar.

Ég get svo látið máli mínu lokið, því að það er til lítils að mínu viti að fara hér út í furðulegar deilur um þessi mál, svo einföld sem mér þykja þau. Ég vildi aðeins gera stutta grein fyrir því, af hvaða ástæðum ég hef staðið að þessari till. og af hvaða ástæðum ég óska þess einlæglega, að hún stöðvist ekki í n., heldur haldi áfram og verði samþykkt hér á hinu háa Alþingi.