08.02.1973
Sameinað þing: 41. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur um þetta mál, en ég fór tvisvar, þrisvar suður í Keflavík, áður en vegurinn var steyptur, og satt að segja hef ég sjaldan farið lakari veg eða veg, sem ég álít, að hafi farið verr með bílinn. Við skulum því ekkert vera að blekkja okkur. Það er þjóðarhagur með fjölfarna vegi, að þeir séu gerðir þannig, að þeir séu vel ökuhæfir, og það er mikill gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðina, að vegirnir batni. Vitanlega er ekki hægt að leggja alls staðar varanlega vegi í einu, og þetta er þannig í öllum löndum. Ég var t.d. einu sinni suður á Nýja-Sjálandi og ferðaðist töluvert um. Auðvitað voru þar steyptir vegir út frá borgunum, en svo þegar við þurftum að fara heim á sveitabæina, þá voru bara troðningar. Og þetta er svona alls staðar. Þróunin verður þannig. Það er ekki af því, að það sé neinn vilji fyrir hendi hjá okkur að hafa neitt horn í síðu þeirra, sem búa þar sem byggðin er dreifðari, en þetta er bara eðlileg afleiðing af afstöðunni.

Ég var aldrei sérstaklega áhugasamur um þennan skatt, vegaskatt þarna suður eftir, hafði aldrei mikinn áhuga á honum, því að mér var það ljóst, að Suðurnesjamenn voru búnir að borga ærna peninga beint og óbeint í þjóðarbúið og áttu fullkomlega skilið, að það væri almennilega ökufær vegur, sem þeir færu eftir. Og við skulum ekkert vera að vanþakka það, sem í dreifhýfinu búum. Það er dýrt að leggja veg heim á hvert einasta sveitabýli, og okkur hefur líka verið hjálpað mikið, þó að vegirnir séu ekki eins góðir hjá okkur og þessir steyptu vegir.

Um þetta er verulega mikill ágreiningur. Hér hafa verið færð skynsamleg rök á báðar hliðar og haldnar góðar ræður. Það er náttúrulega tvær hliðar á hverju máli, og báðar hafa ýmislegt til síns máls. En það er svo mikill ágreiningur um þennan skatt, eins og hann var greiddur, að ég hef ekki trú á, að hann verði tekinn upp aftur. Það var ekki af því, að Suðurnesjabúar sæju svo eftir þessum 50 kr., sem þeir þurftu að borga. Og það er alveg rétt hjá hv. 7. landsk, þm., Karvel Pálmasyni, sem hann var að tala um, að skatturinn lækkaði í raun og veru um helming við gengisbreytingar, þessar 50 kr., þetta var orðið helmingi minna verðmæti en upphaflega, svo að ef skatturinn hefði átt að vera hliðstæður, þá átti hann að vera a.m.k. 100 kr., og tók því varla að vera að rukka hann inn, ef hann var minna. En þá verðum við bara að gera okkur ljóst, að þegar vegir koma í allar áttir út frá Reykjavík, þá verður líka að fara að innheimta þar skatt. Og hvar á að stinga við fótum? Þegar brú kemur yfir Borgarfjörð, væri ekki ósanngjarnt, að Mýramenn og Snæfellingar borguðu einhverja þóknun fyrir vegarstyttingu. Svo koma göng undir Oddsskarð og komin göng hjá Siglufirði. Það má endalaust deila um þetta. Og þá eiga mörkin sennilega að vera þannig, að menn eigi að sleppa við skatta af þessum umbótum, ef umferðin er svo lítil, að það borgi sig ekki að innheimta þá.

Ég held, að ef við viljum eitthvað gera til að skapa jöfnuð í þessu, ef menu eru á annað borð að fjasa yfir ójöfnuði um þessa hluti, þá verði miklu frekar að leggja fast gjald á þær bifreiðar, sem skrásettar eru á þeim svæðum, þar sem þessir varanlegu vegir eru, eða þá láta hina búa við betri kjör eða minni skatta, sem hafa lakari vegi. Það var fyrst og fremst þetta, held ég, með Suðurnesjamenn, að það fór í taugarnar á þeim að þurfa að stanza á leiðinni til að borga þessar krónur. Ég held það a.m.k.

Við skulum gera okkur það líka ljóst, að það var þannig, að bændur þurftu ekki að borga þungaskatt af bílunum sínum. Nú kemur það meira niður á bændum en nokkrum öðrum mönnum, að vegir eru slæmir í dreifbýlinu. Þeir fara miklu oftar en þeir, sem búa í kauptúnunum, eftir vegunum. Kauptúnabúarnir fara út á vegina, en þeir fara um þá fyrst og fremst, þegar vegirnir eru í þolanlegu lagi, en ekki þegar þeir eru ófærir eða illfærir, eins og þeir eru oft á vorin. Þá eru þeir yfirleitt rólegir heima hjá sér. Svo er þegar farið er að verja miklu fé til að bæta göturnar í minni bæjunum og kauptúnunum og gera þær úr varanlegra efni, þannig að þetta kemur fyrst og fremst niður á bændunum. Nú er það svo með bændurna, að þeir sluppu við þungaskattinn. Við höfum gert það þangað til núna. Þessu var breytt um áramótin. M.ö.o.: sama árið, sem felldur er niður vegaskattur á Reykjanesbrautinni, eiga bændur að fara að borga þungaskatt. Ég hef heyrt mjög mikla óánægju hjá þeim með þetta. Nú er það svo, að það er meira en að bændur aki á sínum bílum, þegar þeir þurfa í kaupstaðinn til að sækja nauðsynjar sínar og reka sín erindi, það eru líka mjólkurbílarnir og það eru allar þær vörur, sem þeir flytja til og frá verzlunarstöðunum. Þetta verða þeir beint eða óbeint að borga. Ég dreg það ekki í efa, sem hér hefur verið bent á, að viðhald er helmingi dýrara á bílum, sem er ekið eftir malarvegum, heldur en eftir þeim vegum, sem eru sléttir, hvort sem þeir eru steyptir eða malbikaðir, og sennilega er munurinn miklu meiri hjá okkur. T.d. í Englandi eru malarvegirnir miklu betri en hér á Íslandi.

Þetta var gert hvort tveggja í einu, lagður þungaskattur á jeppana hjá bændunum, sem þeir höfðu sloppið við áður, — þeir voru taldir atvinnutæki og eru það, því að þeir eru notaðir mjög mikið við bústörf, aka inn heyi og annað slíkt, — en sama árið er afnuminn þessi vegaskattur suður á Reykjanes. Ég held, að við getum farið einhvern miðlunarveg, annaðhvort látið þá borga lægri þungaskatt, sem við vondu vegina búa, og jafnvel hvað bændajeppana snertir sleppt þeim, eða þá í öðru lagi, að þeir borgi sinn þungaskatt og væri þá tekið upp eitthvað hærra fast gjald af bílum þeirra, sem eru búsettir við betri vegi. En ég held, að það sé mikill ágreiningur um þetta gjald, það fari í taugarnar á fólkinu, og ég hef ekki trú á, að það verði tekið upp aftur. Þó að hægt sé að merja slíkt fram með eins eða tveggja atkv. mun, og það getur kannske verið sitt á hvað á þinginu, þá verður það ekki varanleg lausn á málinu. En hinu skulum við ekki blekkja okkur á, að við erum ein þjóð og þær umbætur, sem við gerum í okkar landi, verða fyrr eða síðar til hagsbóta fyrir heildina. En vitanlega er ekki hægt að gera allt í einu.