12.02.1973
Neðri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

150. mál, ítala

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég flyt hér mál, frv. til l. um ítölu. Ég flutti þetta frv. í fyrra, og þá var það sent til umsagnar til Búnaðarfélagsins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og landgræðslustjóra. Það dróst nokkuð, að umsagnir kæmu, og málið var ekki afgreitt frá landbn. Nd. Umsagnirnar voru þannig, að Búnaðarfélag Íslands mælti með frv. Það gerði smáaths. við tvo liði í 6. gr., sem ég álít, að skipti ekki neinu máli, en mælti að öðru leyti með frv. Rannsóknastofnun landbúnaðarins tók ekki afstöðu til frv., og landgræðslustjóri hafði ekkert við frv. að athuga, en furðaði sig á því, að hann ætti ekki að vera aðalmúr við leiðbeiningarstarfsemi um beitarþol afrétta. Þegar ég samdi frv., vakti fyrir mér, að það yrði sérstakur maður, annar en landgræðslustjóri. Ég áleit, að hann hefði svo mikið að gera, að hann gæti tæpast annazt það starf.

Þetta frv. er ofurlítið breytt frá fyrra frv. að því leyti, að ég legg til, að landbrh. skipi til þriggja ára í senn eftir till. Búnaðarfélags Íslands gróðurverndarfulltrúa, sem hafi sérþekkingu á gróðurfari og beitarþoli afrétta og heimalanda. Það má deila um, hvaða nafn á að gefa þessum fulltrúa, hvort á að kalla hann gróðurverndarfulltrúa eða eftirlitsmann með beitarþoli afrétta eða eitthvað slíkt. Ég geri það ekki að neinu aðalatriði. Mér fannst þetta vera viðunanlegt nafn.

Ef n., sem fær þetta frv. til umsagnar, leggur til, að því sé eitthvað breytt, þá er það ekkert atriði út af fyrir sig. En ástæðan fyrir flutningi þessa frv. er sú, að ég álít, að afréttir, a.m.k. á mestum hluta landsins, séu ofbeittar. Þetta er náttúrlega misjafnt. Í góðum sumrum, eins og s.l. sumar var, þegar mikil spretta var á hálendinu, var ekki um ofbeit að ræða. En í bók, sem Ingvi Þorsteinsson hefur skrifað, og hann hefur kannað þetta mál betur en nokkur annar, telur hann, að afréttir á mestum hluta landsins séu yfirleitt ofbeittar. Og það er ekki nema í tveimur sýslum, sem hann telur, að mætti vera meiri búpeningur á afréttum heldur en er, og það eru Múlasýslurnar. Ég hef átt tal um þetta við hann, og hann hefur t.d. sagt mér, að það sé áreiðanlegt, að Auðkúluheiði, þar sem ég á upprekstur, sé ofbeitt sem nemur allri hrossaeigninni.

Ítölulög hafa lengi verið í gildi, en þau hafa hvergi verið framkvæmd, og það hygg ég, að sé m.a. vegna þess, að þau eru þannig úr garði gerð, að það er mjög erfitt að koma þeim í framkvæmd. Sýslurnar eiga að hafa frumkvæðið, en þær hafa annaðhvort ekkert gert í því eða ekki komið sér saman um málin. Það er nú þannig í sýslunum, að aðstaðan er ákaflega misjöfn. Í sumum hlutum sýslanna kæra þær sig ekki um að koma á ítölu eða það er ekki hægt. Þar sem er fjalllendi og ekki er girt milli afréttar og heimalanda, þar er raunar ekki til neins að tala um ítölu. Þar sem aftur er girt á milli afréttar og heimalanda, á að vera hægt að koma ítölu við. Það er þannig, að þegar ógirt er milli afréttar og heimalanda, fer búpeningurinn sjálfur til afréttanna, og svo kemur hann heim síðari hluta sumars, þannig að þar er í raun og veru ekki hægt að koma ítölu við.

Nú geri ég ekki ráð fyrir, — það má vera, að það verði gert, — en ég geri ekki ráð fyrir, að a.m.k. í náinni framtíð verði ítölu beitt gagnvart sauðfé. En gagnvart hrossum get ég vel búizt við, að á vissum stöðum sé nauðsynlegt að fara að hafa ítölu. Mér er vel ljóst, að þetta snertir ekki nærri því allar sýslur á landinu. Múlasýslurnar þurfa þess t.d. ekki með, og hér á Suðurlandi reka Rangvellingar mjög lítið af hrossum a.m.k. á afrétt og ekki nema takmarkað fé, að ég ætla. Árnesingar hafa girt af Hvítárnesið eða Biskupstungnaafrétt fyrir sitt stóð, og afréttir þeirra Sunnlendinga eru alls ekki fyrir hross. Það er í Húnavatnssýslum, Skagafirði og Mýra- og Borgarfjarðarsýslum e.t.v. að einhverju leyti, sem ítala kemur til greina.

Nú er það svo, að farið er að selja hross til annarra landa. Það getur haft þau áhrif, að einstakir bændur fari að fjölga mjög hrossum. Nú gefur auga leið, að það er ekki hagkvæmt fyrir heildina, ef einstakir menn eiga kannske 100– 200 hross og afréttir eru ofsetnar þannig. Í öðrum löndum, a.m.k. í Vestur-Evrópu, þar sem sauðfé er, — og það er þannig í Ástralíu líka, þar sem eru stór fjárbú, — þar eru heimalöndin afgirt. Þeir hafa ekki afréttir svipað og við. Nú er sjálfsagt fyrir okkur að nota afréttirnar. En ég hygg, að það reki að því, að heimalönd verði yfirleitt afgirt og að þau verði meira og minna hólfuð í sundur. Ég kynntist þessu í NýjaSjálandi, hvernig þeir höguðu beitinni þar. Þar girtu þeir tiltölulega lítið hólf fyrir féð. Ég spurði þá, hvers vegna þeir gerðu þetta. Þeir sögðu, að þetta væri betra, féð rásaði minna, þá fitnaði það meira, og í öðru lagi hefðu þeir vald á beitinni þannig, að þeir friðuðu alveg sum hólfin og gætu þá hleypt skepnunum á víxl í hólfin. Ég hygg, að það reki að því hér líka, — því að búin eru að stækka, þar sem byggðin á annað borð gisnar ekki allt of mikið, og jafnvel hvort sem er, — að í þeim byggðarlögum, sem byggð helzt í, sem við vonum, að verði að mestu, muni búin stækka. Það er ákaflega mikill munur á fjárfjölda eða skepnufjölda nú og áður var, og þó að slægi ofurlítið á þessa skepnufjölgun nú í hörðu árunum, er mjög hröð fjölgun líklega yfirleitt á landinu núna, þannig að ég hygg, að það reki að því, að bændur fari að girða lönd sín meira og minna í sundur. Það getur líka komið til greina með afréttirnar að girða viss svæði, þar sem hross væru t.d., í staðinn fyrir að láta þau vera óhindruð hvar sem er.

Upphaflega átti það drjúgan þátt í því, að ég flutti þetta frv., að oddvitarnir heima í mínu héraði töldu, að þeir gætu ekki komið á ítölu samkv. þeim lögum, sem voru um þetta efni. Þetta frv. er sérstaklega frábrugðið þeim lögum, sem í gildi eru, að því leyti, að það er sérstakur maður, sem getur a.m.k. haft frumkvæði og á að hafa leiðbeiningarstarfsemi í því efni, hvort afréttir séu ofbeittar eða ekki. Og eins eiga bændur samkv. þessu frv. að geta haft frumkvæðið sjálfir og leitað þá til þessa gróðurverndarfulltrúa til að fá umsögn um, hvort þörf sé á ítölu eða ekki.

Í öðru lagi er það í þessu frv., að það á að vera starfandi ítölunefnd, og ég álít, að það sé nauðsynlegt, að hún sé starfandi í hverju upprekstrarfélagi, því að það getur verið breytilegt og þarf náttúrlega að endurskoða þær reglur öðru verju, hve einstaklingur má hafa margt á afrétt, og eins á reynslan að skera úr um það, hvaða beitarþol afréttirnar hafa. Það getur því orðið breyting frá því, sem upphaflega er ákveðið, að hver bóndi megi reka á afrétt. Ef reynslan sýnir, að óhætt sé að reka meira eða ástæða sé til þess að fækka í afrétt, þá er nauðsynlegt að hafa ítölunefnd starfandi.

Í gildandi lögum eru ekki nein viðurlög önnur en þau, að ef lögin eru brotin, þá liggur þar við refsing, og það mundi kosta málaferli að koma nokkrum viðurlögum við. En málaferli eru dýr og tekur mörg ár að reka málin. Í því frv., sem ég flyt hér, er gert ráð fyrir, að ákvæðin verði þannig, að fjallskilin verði hærri og fari hækkandi, er um endurtekin brot er að ræða. Og þetta frv. miðar að því að gera sem auðveldast að framkvæma þetta.

Þeir aðilar, sem fengu frv. til umsagnar í fyrra, höfðu ekkert út á það að setja. Það komu tvær smáaths. frá Búnaðarféfaginu. Finnst mér dálitið hart að afgreiða ekki frv., sem enginn getur sett eiginlega neitt út á, er allt að því fullkomið samkv. því.

Ég geri ráð fyrir, að þetta frv. verði sent aftur til umsagnar Búnaðarfélaginu t.d. Nú er Búnaðarþing að byrja að starfa, og það væri afar æskilegt, að Búnaðarfélagið fengi frv. til umsagnar núna, meðan Búnaðarþing er, þannig að Búnaðarþing gæti fjallað um málið. Ég álít nauðsynlegt að endurbæta ítölulögin frá því, sem þau eru nú. Og það væri ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að Búnaðarþing fjallaði um það mál, og ef það getur gert þetta frv. betra en það er frá minni hendi, þá hef ég ekkert við því að segja, er ánægður með það.

Það er sjálfsagt að nota afréttirnar til fulls. En það má ekki ofbeita þær, við vitum það ósköp vel. Þegar mikill hrossagrúi gengur á afréttunum, bíta þau grösin, sem kjarnbezt eru, og taka þau frá fénu, þannig að við megum búast við að fá rýrara fé. Og þá er ekki nema um tvennt að ræða: að takmarka fénaðinn og þá fyrst og fremst stóðið, takmarka tölu þess, eða þá að hafa það í sérstökum girðingum. Nú er mér sagt, að á bændafundi norður í Húnavatnssýslu hafi verið samþykkt að hætta að reka hross á afrétt í sýslunni. Þetta var á almennum fundi, þannig að sú samþykkt hefur ekki gildi, nema sveitarstjórnirnar taki ákvörðun um það mál. Af því sjáið þið, að ekki er að öllu leyti ástæðulaust að fara að athuga nm það að stilla þessu eitthvað í hóf.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að ég sé að rekja einstakar gr. frv. Þeir, sem hafa áhuga á þessu máli, sem e.t.v. eru ekki margir, því að þetta frv, snertir ekki nema lítinn hluta af þm. persónulega, geta lesið frv., og náttúrlega geta allir komið með brtt., ef þeim sýnist svo. En ég vænti þess, hvað sem því líður, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég hef ekkert við það að athuga, að einhverjar breytingar komi fram, ef þær eru ekki til að spilla neitt fyrir þeirri gagnsemi, sem ætti að verða af þessu lagafrv., ef það verður að lögum. En ég álít, að það sé nauðsyn að gera einhverjar breytingar á ítöfulögunum.

Svo legg ég til, að þessu frv. verði vísað til landbn.