12.02.1973
Neðri deild: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

150. mál, ítala

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu að svara. Ég held, að hv. 5. þm. Norðurl. v. sé eitthvað pínulítið afbrýðisamur, honum finnist, að hafi verið gengið fram hjá gróðurverndarnefnd. En það er fjarri því. Ef einhver hefði samið svona gott frv., hefði ég verið manna fyrstur til að rétta upp höndina með því. En það er einfaldlega það, að þessi blessuð ítölulög eru svo lélega samin, að það er ómögulegt að notast við þau. Ég ætla bara að biðja ykkur að lesa þau, og lesið þið svo frv., sem ég flyt, og athugið, hvort er auðveldara að koma á ítölu samkv. þeim lögum, sem eru í gildi núna, eða frv.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. var að tala um, að frv, væri eigi til bóta um framkvæmd ítölu. En það er einmitt höfuðatriðið, að það gerir það svo auðvelt sem mögulegt er. Lesið þið bara hin lögin. Það er nefnilega gersamlega ómögulegt að koma með brtt. við lögin, þar er svo mikill hrærigrautur. Lögin um fjallskilamálin eru öll illa samin, enda sennilega aðallega samin af mönnum, sem lítið hafa fengizt við fjallskilamál. En það er gersamlega ómögulegt að semja frv. um ítölu eða fjallskilamál vel fyrir aðra en mann, sem er þaulvanur að fást við þetta rétta- og gangnastúss. Annars veit ég ekki, hverjir sömdu það frv. En lesið bara kaflann um ítölu, sjáið þá grautargerð. Það er fáránlegt að taka það, sem til bóta er, úr frv. og fella inn í þá grautargerð. Það er nefnilega ómögulegt að koma með brtt. við þau lög. Það þarf að semja þau alveg um. Gróðurverndarfulltrúinn á að geta haft frumkvæði, en bændurnir alveg jafnt, og það er allt í höndum bændanna. Ef þeir telja þess ekki þörf, er ekkert framkvæmt. En gróðurverndarfulltrúinn á að vera ráðunautur. Það er það, sem aðallega er jákvætt við frv. hjá mér, að hað er auðvelt að koma ítölu í framkvæmd. Það geta báðir aðilarnir haft frumkvæðið, en þó verður ekkert framkvæmt, nema meiri hluti bændanna vilji það. Lesið bara lögin, sem fyrir eru, og frv. og sjáið muninn. Það er alveg rangt hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að heimaaðilar sjálfir eigi ekki eða geti ekki haft frumkvæðið. Þeir geta það alveg jafnt og gróðurverndarfulltrúinn. Það er bara sagt, að gróðurverndarfulltrúinn eigi að vera til leiðbeiningar og geti bent bændunum á, að það sé þörf á ítölu.

Viðvíkjandi því, að það sé einhver sérstakur ráðunautur, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. minntist á, þá tel ég það óþarft, það er ekki fullt starf fyrir mann. Ég held, að Ingvi Þorsteinsson sé búinn að kynna sér þetta nokkurn veginn, og ég er ekki að segja, að hann eigi að vera gróðurverndarfulltrúi. Ég hafði hann í huga í fyrra, þegar ég var að tala um að það ætti að vera sérfræðingur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. En ég breytti því, af því að mér fannst eins og þar væri einhver fyrirstaða, einhver smárígur, svo að ég breytti því og legg til, að maðurinn sé skipaður eftir till. Búnaðarfélagsins á þriggja ára fresti. Það getur ýmislegt komið til greina, þannig að það sé hentugt að skipta um mann. Ég held, að það sé fullt eins hagkvæmt.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. var að tala um, að ítala hefði verið framkvæmd í Rangárþingi. Það er í grg. Páls sáluga, fyrrv. sandgræðslustjóra, hann tekur þar fram, að þetta sé rétt hjá mér, ítala hafi hvergi verið framkvæmd, og það hefur engin ítala verið framkvæmd í Rangárvallasýslu. En þeir komu sér saman um það í einum eða tveimur hreppum að reka ekki nema ákveðna tölu á afrétt, án þess að ítala væri formlega framkvæmd, þannig að það var bara samkomulag, en ekki að ítölulögin væru framkvæmd, enda eru þau gagnslaus eins og þau eru. Það eru engin viðurlög, og ýmis fleiri atriði, sem ég talaði um áðan, sem valda því, að þau eru annaðhvort óframkvæmanleg eða gagnslaus. Þó að ítala væri samþykkt þá, eru engin viðurlög og ekkert eftirlit.

Við búum víst nóg af nefndum og kostnaði. Þó að Ingvi Þorsteinsson hafi verið að ferðast um heiðarnar og kynna sér þetta, hefur hann haft ýmis önnur störf og er duglegur maður.

Hvort maðurinn er starfsmaður hjá Búnaðarfélagi Íslands eða rannsóknastofnuninni, það skiptir út af fyrir sig ekki máli, bara að það sé hæfur maður. En að öðru leyti virtist mér hv. 5. þm Norðurl. v. vera mér sammála í flestum atriðum, svo að ég þarf ekki að deila við hann um það, nema þessi smávegis afbrýðisemi út af því, að ég sé að ganga fram hjá gróðurverndarnefnd. Auðvitað hafa þeir sínar till. og geta starfað áfram alveg jafnt, þó að þetta frv. komi fram. En ég vil taka vara fyrir því að vera ekki að hnoða brtt. við þessa ítöluklausu, sem fyrir er, því að hún er svo dæmalaus, að það er ómögulegt að notast við hana, bæði margorð og hálfgert bull.

Ég held, að það hafi ekki verið neitt sérstakt fleira, sem ég þurfti að tala um. Við vorum sammála um öll aðalatriði. Hitt er svo annað, ef Pálmi Jónsson eða einhver góður maður getur gert þetta frv., sem ég flyt núna, betra en það er, þá skal ég fallast á það og taka því með þökkum. En ég held, að það verði afar erfitt að gera það og líklegt, að það verði frekar til ills, ef einhver færi að breyta einhverju í því. En hvað um það, ef það kemur í ljós, að það er til bóta, þá er það ágætt.

Aðalmenn:

Helgi Bergs bankastjóri,

Guðlaugur Gíslason alþm.,

Garðar Sigurðsson alþm.,

Vilhjálmur Jónsson forstjóri,

Gísli Gíslason bæjarfulltrúi,

Tómas Þorvaldsson útgerðarmaður,

Bergur Sigurbjörnsson framkvstj.

Varamenn:

Sigurður Markússon framkvstj.,

Jóhann Friðfinnsson kaupmaður,

Guðmunda Gunnarsdóttir frú,

Ólafur Jensson verkfræðingur,

Björn Guðmundsson útgerðarmaður,

Helgi G. Þórðarson verkfræðingur,

Halldór S. Magnússon viðskiptafræðingur.