13.02.1973
Sameinað þing: 43. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

158. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evró

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að Alþ. heimili ríkisstj. að fullgilda samninga þá um viðskipti milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands og Kola- og stálbandalags Evrópu, sem undirritaðir voru 22. júlí á s.l. ári. Með þessari þáltill. hefur verið útbýtt hér á Alþ. samningum þessum og ítarlegri grg. um gang samningaviðræðnanna og skýringum á öllum helztu ákvæðum þessara samninga. Nauðsynlegt er, að samþykki Alþ. komi til varðandi fullgildingu þessara samninga, þar sem í þeim eru skuldbindandi ákvæði um lækkun og afnám tolla á ýmsum innfluttum vörum frá löndum Efnahagsbandalagsins.

Meginatriðin í samningunum við Efnahagsbandalagið eru þessi:

1. Innfluttar iðnaðarvörur frá löndum Efnahagsbandalagsins skulu njóta sömu tollfríðinda hér á landi og áður hafði verið samið fyrir vörur frá EFTA-löndum.

2. Sams konar tollfríðindi fær Ísland í löndum Efnahagsbandalagsins fyrir hliðstæðar íslenzkar iðnaðarvörur, sem fluttar eru út til landa handalagsins.

3. Ísland fær auk þess viss tollfríðindi fyrir tilteknar íslenzkar sjávarafurðir, sem fluttar eru út til bandalagslandanna, en þó eru þau skilyrði varðandi þessi réttindi, að bandalagið getur frestað framkvæmd á þeim, telji það, að ekki hafi fengizt viðunandi lausn á þeim efnahagslegu erfiðleikum, sem hljótast af ráðstöfunum Íslands varðandi fiskveiðiréttindi.

Eins og kunnugt er, voru innflutningstollar hér á landi lækkaðir um 30% samkv. EFTA samningnum á þeim iðnaðarvörum, sem sá samningur náði til. Þeir tollar lækka síðan samkv. áætlun og falla niður í ársbyrjun 1980. Sami háttur verður nú hafður á um hliðstæðar vörur frá Efnahagshandalagslöndunum, þ.e.a.s. fyrst er um að ræða 30% tollalækkun og síðan fylgja vörur frá þessum löndum sömu tollalækkunaráætluninni og samið hafði verið um við EFTA-löndin. Lækkun innflutningstolla á íslenzkum iðnaðarvörum í Efnahagsbandalagslöndunum fer hins vegar fram í 5 áföngum á rúmum 4 árum. Í grg. þeirri, sem fylgir með þáltill., er skýrt allítarlega frá gangi samningaviðræðnanna. Þær hófust 24. nóv. 1970, þegar þáv. viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, gerði ráðherraráði bandalagsins grein fyrir grundvallarsjónarmiðum íslenzku ríkisstj. til væntanlegra samninga Íslands við bandalagið. Samningaviðræðunum lauk svo 22. júlí á s.l. ári í Brüssel með undirskrift samninganna af beggja hálfu.

Eins og greinilega kemur fram í grg. þeirri, sem fylgir með þáltill., voru það einkum tvö atriði, sem erfiðleikum ollu í samningagerðinni. Hið fyrra var að fá bandalagið til að viðurkenna, að nauðsynlegt væri af Íslands hálfu að fá tollfríðindi fyrir sjávarafurðir, ef nokkurt teljandi gagn ætti að verða af samningunum fyrir Ísland. Í þeim efnum bentu samningamenn okkar ítrekað á það, að óhugsandi væri að ná nokkru jafnræði í samningagerðinni, ef tollréttindin ættu einvörðungu að ná til iðnaðarvara á báðar hliðar. Útflutningur iðnaðarvara frá Íslandi til bandalagsins er lítill, en hins vegar er útflutningur bandalagslandanna mikill á iðnaðarvörum hingað til Íslands. Þessa staðreynd viðurkenndu samningamenn bandalagsins tiltölulega fljótlega í viðræðunum, en það tók þó langan tíma að fá ráðamenn bandalagsins til að viðurkenna þessa staðreynd á raunhæfan hátt við samningagerð. Að því kom þó að lokum, að mikilvægur árangur náðist á þessu sviði.

Annað meginvandamálið, sem við var að glíma í samningagerðinni, var krafa bandalagsins um að binda saman fiskveiðiréttindi bandalagslandanna hér á Íslandsmiðum og almenn viðskiptaréttindi á milli samningsaðila. Lengst af var það bein krafa bandalagsins, að ekki yrðu skert fiskveiðiréttindi bandalagslandanna við Ísland frá því, sem þau voru fyrir útfærslu fiskveiðilandhelginnar 1. sept. 1972, ef tollfríðindi ætti að veita fyrir íslenzkar sjávarafurðir í löndum bandalagsins. Þessum kröfum handalagsins tókst þó að fá breytt í verulegum atriðum, þó að því miður tækist ekki að hnekkja þeim kröfum að fullu. Eins og gengið var frá samningunum að lokum, getur bandalagið ákveðið, að Ísland njóti ekki þeirra tollfríðinda fyrir útfluttar sjávarafurðir, sem ráðgerð eru í samningunum, telji bandalagið, að lönd þess hafi ekki fengið viðunandi lausn á efnahagserfiðleikum sínum vegna ráðstafana Íslands í fiskveiðiréttarmálum. Þessi fyrirvari bandalagsins er auðvitað mjög andstæður hagsmunum okkar, þar sem meginhluti okkar útflutnings til bandalagsins er sjávarafurðir. Við undirskrift samningsins í Brüssel 22. júlí s.l. var það skýrt tekið fram af Íslands hálfu, að ef þessi fyrirvari yrði látinn koma til framkvæmda, væri framtíð samningsins í hættu.

Ég skal nú með nokkrum orðum gera grein fyrir gildi samninganna fyrir Ísland. Þau ákvæði samninganna, sem eru föst og alveg fullákveðin, eru um lækkun tolla og afnám tolla í bandalagslöndunum á iðnaðarvörum frá Íslandi. Þessi tollalækkun nær til eftirfarandi iðnaðarvara: Þar er um að ræða kísilgúr, en á honum er nú mjög lítill tollur eða aðeins 0.5%, en hann á að falla niður samkv. samningnum. Þá er kasein, en tollur á því er 10%, loðskinn sútuð, tollur á þeim er 4.5%, og loðskinnavörur, tollar á þeim eru 7–9.5%, pappaöskjur, tollur á þeim er 15%, fiskilínur, en á þeim er 13% tollur, fiskinet, á þeim er 13.5% tollur, ullarpeysur, á þeim er tollur, sem nemur 10.5–18%, ullarteppi, á þeim er 14% tollur, ál en á því er 7% tollur, og vélar til matvælaiðnaðar, en á þeim er 5% tollur. Tollur af þessum iðnaðarvarningi á að falla niður samkv. samningunum á þeim ákvörðunardögum, sem þar eru settir.

Sé litið á útflutning okkar á þessum iðnaðarvörum til Efnahagsbandalagslandanna á árunum 1970 og 1971, en sérstakar töflur eru birtar yfir þennan útflutning í grg., sem fylgir till., þá kemur í ljós, að útflutningur þessara vara frá Íslandi á þessum árum var ekki mikill. Árið 1970 nam útflutningur þessara vara til bandalagslandanna 107.1 millj. kr., en árið 1971 100.3 millj. kr., en þá er ekki andvirði kísilgúrs eða áls þar talið með. Á þessum árum var flutt út héðan ál til bandalagslandanna: árið 1970 fyrir 1349.8 millj. kr. og árið 1971 fyrir 851.5 millj. kr., og kísilgúr var fluttur út árið 1970 fyrir 104.1 millj. og árið 1971 fyrir 115.7 millj. kr. En eins og ég sagði áður, er tollur á kísilgúr mjög lítill, svo að þar er ekki um stóran ávinning að ræða. Hins vegar er tollurinn á áli 7%, og munar auðvitað tiltölulega mest um það í þessum samningum, þar sem sá útflutningur er langsamlega mestur inn á bandalagssvæðið.

Það verður því að segja eins og það er, að hagnaður okkar samkv. þessum samningum af útfluttum iðnaðarvörum, almennum iðnaðarvörum, til bandalagslandanna, er ekki ýkjamikill, eins og þessi útflutningur hefur verið. En hér er þó um þýðingarmikil réttindi að ræða, — réttindi, sem vissulega geta þýtt miklu meira fyrir okkur á komandi árum, því að afnám tollanna getur að sjálfsögðu lyft undir aukinn útflutning þessara vara, og svo geta einnig komið til nýjar útflutningsvörur, og vitum við um, að í mörgum tilfellum hefur einmitt ýmislegt bent til þess, að um útflutning á slíkum vörum gæti orðið að ræða, ef innflutningstollurinn í bandalagslöndunum yrði afnuminn.

Eins og nú standa sakir, fer meginhlutinn af okkar útfluttu iðnaðarvörum á Bandaríkjamarkað og Rússlandsmarkað, og það eru þýðingarmestu markaðir fyrir okkar iðnaðarvörur, eins og sakir standa.

En það er rétt að undirstrika það, að þótt við höfum ekki beinan hagnað af niðurfellingu þessara tolla, svo að verulegum fjárhæðum nemi, eins og sakir standa, þá er hér um mikilvæg réttindi að ræða, sem skapa okkur nýja möguleika, sem e.t.v. gætu orðið okkur á komandi árum þýðingarmikil réttindi og gætu lyft hér undir vissa iðnaðarframleiðslu til útflutnings.

Útflutningur okkar á sjávarafurðum til bandalagslandanna hefur hins vegar verið miklum mun meiri, og í sjálfu sér eru þau réttindi, sem samið var um í þessum samningum varðandi útflutning á sjávarafurðum, miklu þýðingarmeiri fyrir okkar utanríkisverzlun, eins og nú standa sakir. Þær sjávarafurðir, sem mundu njóta tollfríðinda samkv. samningnum, eru aðallega þessar: Hvalkjöt, en á því er nú 10% innflutningstollur í löndum bandalagsins, fryst fiskflök, en tollur á þeim er 15%, lifur, hrogn og svil, ný, fryst eða kæld, en á þessum vörum er 10% innflutningstollur, en lifur, hrogn og svil, söltuð, þurrkuð eða reykt, á þeim er 11% innflutningstollur. Á öllum þessum vörum mundi tollurinn falla niður að fullu, þegar samningarnir eru að fullu komnir til framkvæmda. Þá er um að ræða rækjur, nýjar, frystar, saltaðar eða í saltlegi eða soðnar í vatni með skel, tollur á þeim er nú 12%. Þá er lýsi, en tollur á því er allt frá því að vera enginn upp í 6%, hann mundi falla niður að öllu, hert feiti og olíur úr fiski og sjávarspendýrum, sá tollur er nú 17–20%, kavíar og kavíareftirlíkingar, tollur á slíkum vörum er 30%, krabbadýr og lindýr, tilreidd eða niðursoðin, á þeim er tollurinn nú 16–20%, og fiskimjöl, þar er tollurinn 2%. Tollur á þessum vörum, sem allar eru þýðingarmiklar útflutningsvörur okkar og við flytjum í talsverðum mæli til bandalagslandanna, mundi samkv. samningnum falla niður að öllu, þegar samningurinn er að fullu kominn til framkvæmda. Þá er einnig gert ráð fyrir verulegri lækkun á tollum í bandalaginu á ýmsum öðrum fisktegundum, eins og ísfiski, og einnig um verulega lækkun á tollum að ræða á niðurlögðum og niðursoðnum sjávarafurðum.

Útflutningur okkar til bandalagslandanna á þessum sjávarafurðum var árið 1970 1875.4 millj. kr. og árið 1971 1486.9 millj. kr. Hér er því um mjög þýðingarmikil réttindi að ræða fyrir okkur, eins og sakir standa, og gæti þó auðveldlega veitt okkur enn þá meiri réttindi í framtíðinni, ef útflutningur okkar þróaðist á þá lund, sem vel gæti verið, eftir að tollbreytingin hefði átt sér stað.

Sá galli er á, eins og ég vék að áður, varðandi þessi réttindi, sem gert er ráð fyrir okkur til handa í þessum samningum, að við eigum ekki neina fullvissu á, að við verðum þeirra aðnjótandi, vegna þess að af hálfu bandalagsins er tekið fram í samningnum sjálfum, að það geti frestað framkvæmd á þessum réttindakafla samningsins, ef það telur, að lönd bandalagsins hafi ekki fengið viðhlítandi lausn varðandi fiskveiðiréttindi sin og ráðstafanir Íslands í sambandi við útfærslu á okkar fiskveiðilandhelgi. Það er því vissulega mikilvægt atriði fyrir okkur Íslendinga að reyna eins og tök ern á að halda þannig á málinu, að þessi ákvæði í samningunum komi til framkvæmda, að fyrirvaranum verði ekki beitt, við ekki svipt þeim rétti, sem þarna er um að ræða, því að fari svo, þá er ekki um það að villast, eins og málin standa nú, að þá mundi mjög halla á okkur í þessari samningagerð, þar sem lönd bandalagsins fengju þá tollalækkanir hér á landi fyrir fjölmargar innfluttar iðnaðarvörur hingað, á sama tíma sem við fengjum að vísu lækkun á innflutningstollum í bandalagslöndunum fyrir okkar iðnaðarvörur, en þær eru bara tiltölulega fáar og eru seldar þangað fyrir tiltölulega litlar fjárhæðir, eins og sakir standa.

Það þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram, að til þess hefur aldrei getað komið og mun aldrei geta komið, að við Íslendingar léðum máls á því að slá af í landhelgismálinu frá mótaðri stefnu okkar til þess að láta undan bandalagslöndunum og til þess á þann hátt að ná okkur í þessi viðskiptalegu réttindi, sem samningurinn annars gerir ráð fyrir. Það höfum við í allri samningagerðinni gert viðsemjendum okkar fyllilega ljóst, að til slíks gæti aldrei komið.

Áfram verður að sjálfsögðu af okkar hálfu unnið að því að reyna að tryggja það, eins og hugsanlegt er, að þau réttindi, sem samningurinn gerir ráð fyrir okkur til handa fyrir okkar útfluttu sjávarafurðir, verði framkvæmd, en að bandalagslöndin falli í reynd frá sínum fyrirvara.

Það hefur nokkuð borið á því að undanförnu, að einstakir aðilar hér á landi væru órólegir yfir því, að við Íslendingar skyldum ekki þegar hafa staðfest þennan samning, eins og hann liggur fyrir. Ástæðurnar til þess frests eru þær, að það er enn þá unnið að því að reyna að koma í veg fyrir, að þessum fyrirvara verði beitt gegn okkur, því að eins og ég hef sagt, væri samningurinn í rauninni ósanngjarn gagnvart okkur og ekki á neinum jafnréttisgrundvelli, ef fella ætti út í framkvæmd þennan hluta samningsins og eftir ættu að standa aðeins ákvæðin um almennan iðnaðarvarning.

Ef við fullgildum þennan samning fyrir næstu mánaðamót, geta ákvæði hans tekið gildi 1. apríl n.k., en við höfum fullan rétt til þess, ef okkur þykir ástæða til, að draga þessa fullgildingu fram eftir árinu, fram í nóvembermánuð. Það er mín skoðun, að í þeim efnum verðum við að fara fyrst og fremst eftir okkar heildarhagsmunum í þessu máli og flana ekki að neinu, því að hér er vissulega um mikið að tefla fyrir okkar útflutningshagsmuni, og það er í rauninni ekkert, sem rekur okkur til þess á viðkvæmu stigi landhelgismálsins að staðfesta þennan samning vegna iðnaðarvaranna einna saman. En það er nauðsynlegt, að ríkisstj. hafi fulla heimild frá Alþingi til þess að fullgilda samninginn, og að sjálfsögðu verður hann fullgiltur svo fljótt sem við teljum, að sé okkur Íslendingum hagstætt að gera það.

Það hefur stundum verið á það bent, að með þátttöku Breta og Dana í EBE, en þeir voru áður með okkur í EFTA, breyttist viðskiptaaðstaða okkar gagnvart þessum löndum, ef við staðfestum ekki þann samning, sem hér er um að ræða. Við höldum fullum fríverzlunarréttindum hjá þessum löndum til 1. apríl n.k. og mundum eflaust geta fengið slík réttindi framlengd hjá þeim, — eða allar líkur benda til þess, að við gætum það, eins og Finnar og Norðmenn hafa þegar tryggt sér í sérsamningum við Dani og Breta, en þeir hafa tryggt sér að fullu fríverzlunarréttindi út allt þetta ár, þó að þeir verði ekki búnir að semja við EBE. Á það hefur ekki reynt hjá okkur enn þá að leita eftir fríverzlunarsamningum út árið við Dani og Breta. Það stafar af þeirri óvissu, sem verið hefur um það, hvort rétt væri eins og sakir standa að fullgilda þennan samning strax eða hvort rétt væri að doka enn við, á meðan leitazt er við að tryggja, að fyrirvara bandalagsins varðandi sjávarafurðir okkar verði ekki beitt.

Í þessari þáltill. er einnig gert ráð fyrir því að heimila ríkisstj. að samþykkja þær breytingar á EFTA-samningnum, sem beinlínis leiðir af brottför Bretlands og Danmerkur úr samtökunum. Þar er aðeins um formsatriði að ræða, í rauninni engin sérstök efnisatriði. En það þykir rétt að leita eftir formlegu samþykki Alþingis til þess að mega breyta þeim samningi til samræmis við þessar breyttu aðstæður.

Sá samningur, sem hér liggur einnig fyrir við Kola- og stálbandalag Evrópu, er nánast formsatriði, og sé ég ekki ástæðu til að fara neitt frekar út í hann. Hann liggur hér fyrir. En það varð ekki komizt hjá því að gera einnig þann samning um leið og samið var við EBE um þessi mál.

Ég hef nú gert grein fyrir þessari till. í aðalatriðum, en vísa alveg sérstaklega til ítarlegrar grg., sem hér fylgir með og hefur verið lögð á borð þm. um málið. Hér er vissulega um þýðingarmikið mál fyrir okkur Íslendinga að ræða. Við þurfum að tryggja okkur sem frjálsasta viðskiptaaðstöðu við lönd hins n§ja og stækkaða EBE. Við eigum mikil viðskipti við þessi lönd og hljótum eðli málsins samkvæmt að eiga áfram mikil viðskipti við þau. En viðskiptasamningur af þeirri tegund, sem hér er um að ræða, verður að byggjast á gagnkvæmum réttindum samningsaðila. Það er augljóst, eins og fram hefur verið tekið, bæði af fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj. og öllum þeim, sem með þetta mál hafa haft að gera, frá því er samningaviðræður fyrst hófust, að það er ekki um það að ræða, að hægt sé að ná jafnræðisaðstöðu á milli samningsaðila, ef semja á einvörðungu um tollréttindi fyrir almennar iðnaðarvörur. Eins og framleiðslu okkar Íslendinga er háttað og útflutningi, er slíku ekki hægt að koma við. Krafa okkar um það, að við fáum að njóta nokkurra tollfríðinda fyrir ýmsar okkar sjávarafurðir, var því alveg augljós strax frá upphafi. Það var fagnaðarefni, þegar fallizt var á það af okkar viðsemjendum, þetta sjónarmið. Hins vegar skyggði heldur á þessa samningagerð, þegar það kom upp, að forustumenn bandalagsins vildu hafa rétt til að láta þessi réttindi ekki taka gildi, nema þeir teldu, að þannig hefði tekizt til um fiskveiðiréttarmál þeirra landa hér við Íslandsstrendur, að þeir væru sæmilega ánægðir. Það er rétt að hafa það í huga, að eftir að við höfum fullgilt samninginn og hann tekið gildi, hefur bandalagið einhliða rétt til að beita þessum fyrirvara og svipta okkur þessum réttindum, sem samningurinn annars gerði ráð fyrir, og við eigum þar ekki margra kosta völ. Því skiptir höfuðmáli, að við gerum það, sem í okkar valdi stendur, til þess að koma fyrir fram í veg fyrir, að þessum fyrirvara verði beitt.

Ég skal svo ekki hafa um þetta mál fleiri orð að þessu sinni. Mér sýnist rétt, að málinu verði vísað til hv. utanrmn. til íhugunar, en vil vænta þess, að afgreiðsla málsins þaðan geti orðið fljótlega, svo að það liggi opið fyrir, að hægt verði að fullgilda þessa samninga fyrir næstu mánaðamót, sé það að athuguðu máli talið hentugt.