13.02.1973
Sameinað þing: 43. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1899 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

158. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evró

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég fagna því, að þessi till. til þál., sem hér liggur fyrir, er fram komin, en harma það hins vegar, hversu hún er siðbúin. Ég get hins vegar afdráttarlaust lýst því yfir fyrir hönd þm. Sjálfstfl., að við teljum mikilvægt að afgreiða þessa þáltill. svo fljótt sem verða má og einnig að fá úr því skorið, annaðhvort með afdráttarlausum yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. eða með atkvgr. hér í þinginu, að samningurinn verði fullgiltur fyrir næstu mánaðamót. Því miður var hæstv. viðskrh., sem talaði fyrir þessari till., mjög hikandi og loðinn í þessu tilliti, og það hlýtur að vekja hugboð um það, að eitthvað liggi á bak við þann mikla seinagang, sem verið hefur á að leggja þetta mál fyrir þingið. Ráðh. var að gera því skóna, að okkur lægi ekki nokkurn skapaðan hlut á og það mætti alveg eins dragast fram í nóv., — ég veit ekki, hvað hann hefur fyrir sér í því, hvaða tímamörk, — og það ætti ekki að fullgilda þennan samning fyrr en væri hagkvæmt að gera það. En hver á að meta það: hæstv. viðskrh. eða ríkisstj. í heild eða hæstv. utanrrh.? Það er altalað, að hæstv. utanrrh. sé einráðinn í því, að vilji hans sé að staðfesta samninginn og það við fyrsta tækifæri. Allt þetta verður að upplýsa í þessu máli. Það er hins vegar líka altalað, að ríkisstj. hafi ekki í heild tekið afstöðu til þess, hvenær eigi að fullgilda hann, en til þess ber henni skylda. Fyrst hún er ekki búin að gera það nú, hefur hún enga afsökun í að draga það og verður að gera það, áður en meðferð þessa máls lýkur hér í þinginu.

Það er alger fyrirsláttur, sem enga þýðingu hefur, að segja sem svo: Við viljum ekki fullgilda þennan samning, fyrr en séð er, að fyrirvaranum varðandi landhelgismálið verði ekki beitt. — Ef við fullgildum samninginn, þá er það rétt, að þjóðirnar í Efnahagshandalaginu hafa einhliða rétt til að beita fyrirvaranum. En beita þær honum, þegar við erum búnir að fullgilda hann? Það hefur engu hernaðarlega þýðingu í þessu máli, ef svo má að orði komast, að reyna að tryggja það fyrir fram, að honum verði ekki beitt. Við skulum bara láta á það reyna, hvort honum verður beitt. Og verði honum beitt, þá er að halda áfram að vinna að því að losna við, að honum sé beitt í framkvæmd. Þetta er eðlilegur gangur málsins.

Þetta minnir að vísu á það, að margir hefðu álitið, fyrst hér var um jafnþýðingarmikið mál að ræða eins og hæstv. viðskrh. vildi í öðru orðinu láta að liggja, að það hefði þurft að ganga dálítið röggsamlegar fram í því að tryggja, að fyrirvaranum yrði ekki heitt, heldur en hæstv. ríkisstj. hefur gert.

Það er á almannavitorði, að innan ríkisstj. er sífelldur ágreiningur um aðgerðir í landhelgismálinu, um hugsanlega samningsgerð og bráðabirgðasamkomulag við Þjóðverja og Breta. Og margt er mjög furðulegt, sem þar hefur komið upp og á eftir að skýrast betur. Við í stjórnarandstöðunni höfum ekki gengið fram fyrir skjöldu til þess að ræða á opinberum vettvangi ýmislegt í meðferð þess máls, sem full ástæða væri til. Ég hef í fórum mínum, í skjalatösku, ýmiss konar gögn, sem varpa vissulega vafasömu ljósi á það, hvernig að þessum málum hefur verið staðið, þó að það hafi ekki enn verið gert að opinberu umtalsefni. Og ég vona, að það þurfi ekki til þess að koma. Ég hef alltaf sett traust mitt á það, og ég veit, að það hefur verið vilji hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., að okkur tækist að ná bráðabirgðasamkomulagi í þessari deilu við Breta og Þjóðverja, í trausti þess, fullu trausti þess, að okkar verði sigurinn að fullu að lokum í þessu máli og tíminn vinni fyrir okkur, en þar sem við höfum margra hagsmuna að gæta annarra en að selja fisk og veiða fisk, há sé einnig þýðingarmikið að geta náð einhverju bráðabirgðasamkomulagi, þar til fullur sigur er unninn í því mikla máli.

Það er sem sé óhjákvæmilegt, að það liggi fyrir hér, áður en þetta mál er afgreitt, hvað verður um notkun heimildarinnar. Ef ekki fást fullar yfirlýsingar um, að hún verði notuð fyrir næstu mánaðamót af hæstv. ríkisstj., þá er rétt, að Alþ. skeri úr um það og taki afstöðu til þess með brtt., sem þá yrði flutt við þessa þáltill., um að fela ríkisstj. að fullgilda samninginn fyrir tiltekin tímamörk. En það er óþarft, ef hæstv. ríkisstj. lýsir því yfir, að hún muni gera það.

Málsmeðferðin er harla einkennileg. Það, sem alvarlegast er, er hinn mikli dráttur. Hitt er meira broslegt að leggja fram þáltill. og segja svo í grg. í lokin, að samningurinn ásamt grg. um hann verði lagður fyrir Alþ. síðar. Ég minnist ekki þess, að þáltill. í jafnþýðingarmiklum málum og þessum hafi verið lagðar fram og sagt, að grg. verði lögð fram síðar, og þó er ríkisstj. búin að hafa þetta mál til meðferðar frá því að samningurinn var undirritaður 22. júlí á s.l. sumri. Hæstv. utanrrh. undirritaði samninginn. Formlega séð er auðvitað miklu eðlilegra, að hann fylgi samningnum úr hlaði fyrir hönd ríkisstj. Það er hann, hæstv. utanrrh., sem á fyrir hönd ríkisstj. að fullgilda samninginn. En ég skal ekki fara frekari orðum um það og segi eins og ég sagði áðan, að veigamesta atriðið er auðvitað drátturinn í þessu máli, sem er lítt skiljanlegur.

En þegar við höfum þetta mál hér til meðferðar, er rétt að rifja upp fyrir okkur ýmislegt, sem er undanfari þessa máls og er í raun og veru grundvöllur þeirrar aðstöðu, sem við höfum haft til að ná jafnhagstæðum samningi við Efnahagsbandalagið og raun ber vitni. Það má segja, að þetta sé í raun og veru nýr EFTA-samningur við lönd Efnahagsbandalagsins, því að efni samningsins grundvallast á efni og eðli EFTA-samkomulagsins og EFTA-bandalagsins. Það er vissulega gleðilegt, að þeir menn, sem eyddu miklum tíma Alþingis í að bölsótast yfir EFTA-samkomulaginu og aðild okkar að því, skuli nú hafa vitkazt það mikið, að þeir vilji leggja til, að við gerum hliðstæða samninga við lönd Efnahagsbandalagsins, aðeins í öðru formi, að við gerum nú samninga við bandalag kapítalismans, sem á sér ekkert föðurland, eins og fulltrúar kommúnista og Alþb. hafa komizt að orði, — og skyldu þeir þó ekkert vera að fárast yfir því, þó að einhver aðili eigi sér ekkert. föðurland. Er ekki Internationalen þeirra föðurland? Það kemur líka greinilega fram í grg. hæstv. ríkisstj., hversu gersamlega Fríverzlunarbandalagsaðild okkar og samkomulagið um hana er grundvöllur þess, sem hér er verið að gera. En áður en ég vík að því, vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að í grg. ríkisstj. er vitnað í ræðu dr. Gylfa Þ. Gíslasonar, sem var viðskrh. í tíð fyrrv. ríkisstj., og vakin athygli á aðalatriðunum, sem þáv. hæstv. utanrrh. lagði áherzlu á og ríkisstj. í heild, því að um það var enginn ágreiningur innan fyrrv. ríkisstj., að það væri hreint hagsmunamál Íslendinga, að lausn væri fundin á þeim vanda, sem stækkun Efnahagsbandalagsins hefði í för með sér, og í öðru lagi, að Ísland óskaði eftir því, að slíkt samkomulag við Efnahagsbandalagið hvíldi á hinum sömu almennu skilmálum og samið var um við inngöngu þess í EFTA, þannig að þeir minnstu einnig gilda fyrir hið stækkaða Efnahagsbandalag. En auk þess væri nauðsynlegt, að fríverzlunin náði til allra sjávarafurða, en ekki aðeins til þeirra, sem féllu undir EFTA-samninginn. Ég fagna því, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert þessi stefnusjónarmið fyrrv. ríkisstj. að sínum einkunnarorðum við undirbúning þessarar samningsgerðar.

Þá skulum við athuga nokkru nánar tengsl þessa máls við EFTA-samkomulagið, til þess að við getum skilið í rann og veru, hvað er eðli og inntak þessa samkomulags, líkt og aðild okkar að EFTA-samningnum. Það skiptir að vísu miklu máli, en er ekki aðalatriðið í þessu sambandi né heldur var það í sambandi við inngönguna í EFTA, hvað menn geta tölulega tíundað, að tollar lækki, eins og ástandið er á þeim tíma, sem þeir eru að tala um það, heldur er það sú framtíð, sem í því felst að eiga aðgang að stórum mörkuðum í Evrópu og geta haldið áfram að auka viðskipti okkar. Það var sagt hér, þegar við vorum að tala um EFTA-aðildina: Að eiga stóran markað skiptir engu máli, það þarf að komast inn á markaðinn. — En það kemst enginn inn á þann markað, sem ekki er til. Fyrsta skilyrðið er, að markaðurinn sé opinn, og þá reynir fyrst á okkur, hvort við höfum aðstöðu, hæfileika og getu til þess að komast inn á markaðinn. Það var gert í Fríverzlunarbandalaginu, og nú er verið að víkka út þessa markaði.

Þó að hæstv. viðskrh. geti tíundað það hér, að tollar á iðnaðarvörum skipti ekki miklu máli, eins og nú standa sakir, þá er það framtíðin, sem skiptir máli. Til hvers er verið að tala um iðnbyltingu af hálfu hæstv. iðnrh., sem boðar, að hann sé með einhverja iðnaðaráætlun á milli handanna s.l. haust, á þeim tíma, sem engin iðnaðaráætlun var til. Það voru slitur af áætlun á ensku máli í iðnrn. Fólk, sem hafði áhuga á þessu, hringdi upp í stjórnarráð, iðnrn., og bað um að fá eintak af þessari áætlun. Nei, það er engin áætlun til, er svarið hjá afgreiðslufólkinu þar. Það var verið að vinna að iðnaðaráætlun í framhaldi af iðnþróunaráætlun, sem fyrrv. ríkisstj. lét vinna að, og að miklu leyti byggt á þeim grundvallarsjónarmiðum, sem þar voru lögð fram. Vissir erlendir aðilar, sem ég hafði hlutazt til um fyrir hönd fyrrv. ríkisstj., að kæmu hingað til lands til þess að vinna að slíkri iðnaðaráætlun, héldu áfram verkinu, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. Það var ekki horfið frá því að gera þessa iðnþróunaráætlun, og þeirra sjónarmið voru komin fram í ýmsum eintökum á erlendu máli, á slitróttan hátt þó. Hvort þessi áætlun er núna að verða til, veit ég ekki, en það var ákaflega einkennilegt að vera að belgja sig upp með auglýsingar um hana, áður en hún var til. Ef hún er til í höndum sérfræðinganna, hefur þá ríkisstj. fjallað um þessa iðnþróunaráætlun og hefur hún fallizt á áætlanir sérfræðinganna, fallizt á þær ráðagerðir, sem þeir eru með? Er einhver stefnumótun orðin til hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum? Það er auðvitað mikilvægt og ánægjulegt, að haldið sé áfram þeirri iðnþróunaráætlun, sem lagður var grundvöllur að í táð fyrrv. ríkisstj., og ég er samþykktur því. Auðvitað er með slíkri iðnþróunaráætlun verið að styrkja áform okkar og ásetning um að efla iðnað á Íslandi og ekki sízt útflutningsiðnað. Einn veigamesti þáttur áætlunarinnar snýst um útflutningsiðnað, og það er á því sviði, sem möguleikarnir opnuðust við aðildina að Fríverzlunarbandalaginu og eru opnaðir í enn ríkara mæli við þá samningsgerð, sem hér liggur fyrir, þegar hún hefur verið fullgilt og þegar hún kemur til framkvæmda. Og hún kemur til framkvæmda varðandi iðnvarninginn, þó að hún frestist í framkvæmd varðandi sjávarafurðirnar.

Þegar við vorum hér að ræða um EFTA-aðildina, var hún talin einskis virði, eins og ég sagði áðan. Þá var talið einkis virði að eiga aðgang að stærri mörkuðum, og ýmislegt annað þurfti að gera, m.a. að semja iðnþróunaráætlun, sem þá var vitað, að ríkisstj. var að vinna að. Því var meira að segja haldið fram af talsmönnum Alþb. hér í þinginu, að EFTA væri staðnað, væri stöðnuð stofnun, staðnað bandalag og þýðingarlaust að fara í það, það væri í dauðateygjunum, og við hefðum bölvun af því að tengja okkur við það. Og það kom fram í nál. hjá framsóknarmönnum, að það væri bara. til ills fyrir okkur að tengja okkur við EFTA, sem væri að gefa upp andann, og mundi torvelda okkur að öðru leyti samninga við Efnahagsbandalagið eða lönd Efnahagsbandalagsins, í hvaða formi sem það yrði. Allt hefur þetta reynzt misskilningur og glámskyggni hjá þessum hv. þm., en hefur sjálfsagt verið gert af góðum hug.

Það segir í grg. hæstv. ríkisstj., sem ég vona, að megi teljast orð hæstv. ríkisstj. og hún heri ábyrgð á, en þetta séu ekki bara orð embættismanna, sem ég veit að hafa samið grg. fyrir ríkisstj., en ríkisstj. verður að gangast við barninu og bera ábyrgð á því, — þar segir m.a.: „Var það eflaust styrkur fyrir Ísland að vera í flokki með öðrum EFTA-löndum“, þegar til þessarar samningagerðar kom. Það er staðfesting á því, sem við sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn — stuðningsmenn fyrrv. ríkisstj. —héldum eindregið fram, þegar við vorum að fjalla um þessi fríverzlunarmál eða Efnagsbandalagsmál í einu eða öðru formi á sínum tíma. „Efnahagsbandalagið,“ segir einnig, „féllst einnig á, að íslenzkir verndartollar yrðu afnumdir eftir sömu áætlun og samið var um við EFTA“ — skyldi nú ekki hafa verið betra að vera búinn að gera þessa samninga við EFTA? — „þ.e.a.s. á tímabilinu til 1. jan. 1980 og að sömu innflutningshöft og EFTA hafði viðurkennt, þ.e.a.s. á benzíni, olíum og burstum, gætu gilt eftir 1. jan. 1975.“ Það liggur í augum uppi, að ef við hefðum ekki gengið í Fríverzlunarbandalagið, EFTA, mundi það að sjálfsögðu ekki hafa verið að kenna neinni handvömm hjá núv. ríkisstj., að það lægi ekki fyrir samkomulag við Efnahagsbandalagið. Það er miklu líklegra, að hvorki þessi ríkisstj. né önnur hefði náð neinu viðunandi samkomulagi við Efnahagsbandalagið undir þeim kringumstæðum, þó að fullur vilji hefði verið fyrir hendi. Enn fremur segir í grg.: „Það kom í ljós, að enginn verulegur ágreiningur var um flest almenn ákvæði samningsins, svo sem varðandi reglur um uppruna, samkeppni og undanþágur, enda voru þau svipuð gildandi reglum í EFTA.“ Það ber allt að sama brunni. „Þá var einnig samkomulag um niðurfellingu verndartolla og hafta eftir sams konar reglum og giltu í samningi Íslands við EFTA.“

Ég fagna því vissulega, að þeim mönnum, sem stóðu í þessum ræðustól og fluttu langar ræður á móti aðild Íslands að Fríverzlunarbandalaginu, hefur vissulega snúizt hugur, því að það var alveg rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það er úrsagnarákvæði úr EFTA. Ef hv. þm. Alþb. taka nokkurt mark á öllum þeim töluðu orðum, sem hér eru skrifuð í ræðum þessara hv. þm., ef þeir sjálfir taka nokkurt mark á þeim núna eða þegar þeir fóru í ríkisstj., þá hefðu þeir auðvitað sagt Ísland úr Fríverzlunarbandalaginu, úr EFTA. Það þurfti ekki nema 12 mánuði til þess. Í stað þess koma þeir nú og vilja gera breytingu á samningnum og eru í raun og veru að staðfesta með því, að allt hafi verið meira og minna tóm vitleysa, sem þeir voru að segja hér á sínum tíma, enda hefur ekkert af þeim hrakspám komið í ljós, sem þessir menn báru sér í munni. Við áttum að vera leppar útlendinga og ekki hafa áhuga á neinu nema erlendum aðilum og erlendum atvinnurekstri hér. Og það átti að vera eitt aðalatriðið í sambandi við Fríverzlunarbandalagið að fá erlend fyrirtæki til þess að setjast hér að. Það var þó vitað, að ríkisstj. ber fram á sama tíma tvö frv., bæði um iðju og iðnað og um verzlunaratvinnu, sem girtu fyrir það, að nokkur erlend fyrirtæki gætu fengið leyfi til atvinnurekstrar hér á landi í einu formi eða öðru nema með samþykki íslenzkra stjórnvalda, og ekkert fyrirtæki hefur, svo að mér sé kunnugt, verið stofnsett hér á þennan hátt, eftir að við gengum í Fríverzlunarbandalagið.

Því er spáð, að atvinnuleysi mundi magnast hér í landi við inngönguna í EFTA. Því var spáð, að iðngreinar mundu lokast og fjöldi verndaðra iðngreina mundi leggja upp laupana. Ég held, að ekkert af þessu hafi gerzt. Þvert á móti vitum við, að atvinnuleysi fór þverrandi og hvarf með öllu, áður en núv. ríkisstj. tók við völdum, og uppgangur iðnaðarins hefur aldrei verið meiri en á árunum 1969–1971, framleiðsluaukning og magnaukning meiri en nokkru sinni áður og meiri en í nokkurri annarri atvinnugrein, frá 10% og upp í 15% framleiðsluaukning og magnaukning tilsvarandi á þessu tímabili. Þetta er mesta uppgangstímabil íslenzks iðnaðar á Íslandi. En hér liggja spádómarnir fyrir í nál. frá fulltrúa Alþb. á sínum tíma, og í þessum ræðum eru sömu spádómar: Iðnfyrirtækin lokast, leggjast niður, það verður stórkostlegt atvinnuleysi í iðnaði, þar sem 4000 manns hafa atvinnu. En það er gott, þegar menn átta sig á hlutunum og læra eitthvað af reynslunni og skilja, hversu mikla vitleysu menn hafa farið með.

Í öðru lagi segir í þessu nál. og einnig í ræðum þessara ágætu manna: „Aðild að stórum markaði tryggir enga iðnvæðingu.“ Það er þó líklega það fyrsta að hafa möguleika á stórum markaði til þess, ef mönnum tekst vel til, að þeir geti orðið samkeppnisfærir á honum og náð tilteknum hluta undir sig.

Þegar fyrrv. ríkisstj. beitti sér fyrir inngöngu Íslands í EFTA, var afltaf til þess vitnað, að eðlilegt væri, að leið Íslands til víðtækara og nánara efnahagssamstarfs í Evrópu lægi um EFTA. Sömuleiðis var iðulega bent á, að þrátt fyrir það, að tiltölulega mikill hluti heildarútflutnings okkar færi til Bandaríkjanna og Rússlands, kæmi meiri hluti innflutningsins frá löndum í Vestur-Evrópu og Íslendingar væru Evrópuþjóð í menningarlegu og sögulegu tilliti. Það er rétt, að Ísland var síðbúið til fríverzlunarsamstarfs, og þar kom bæði til fæð landsmanna og sú staðreynd, að iðnaðinum óx seint fiskur um hrygg. Norðurlöndin sýndu fyllsta skilning við inngöngu okkar í Fríverzlunarbandalagið með stofnun norræna iðnþróunarsjóðsins fyrir Ísland, sem gegnir vissulega mjög mikilvægu hlutverki í uppbyggingu iðnaðarins og er einn sá ávinningur, sem við höfðum af því að gerast aðilar í Fríverzlunarbandalaginu.

Eftir að við eignuðumst þennan stærri markað, hefur orðið mikill uppgangur í iðnaði, eins og ég sagði áðan. Sumt hefur að vísu farið á aðra markaði. En þó að það hafi farið utan Fríverzlunarbandalagsins, var það fyrir þá uppörvun til útflutnings, sem menn fengu í sambandi við inngöngu okkar í EFTA, og það hefur líka komið í ljós, að meginhlutinn er á þá sveifina. Útflutningur iðnaðarvara áttfaldaðist rúmlega frá 1968–1971, ef við teljum ál, kísilgúr og niðursoðnar sjávarafurði með, sem sjálfsagt er, en þar fyrir utan hygg ég, að sé upp undir fjórföldun á útflutningnum, sem miðað er við almennt. Það er athyglisvert, að árið 1968 fóru 47% útfluttra iðnaðarvara til Sovétríkjanna, 28% til Bandaríkjanna, en 18% til EFTA-landa og 7% til Efnahagsbandalagslanda. Árið 1971 var hlutur EFTA-landanna hins vegar orðinn 55% og 33% án áls, en var 18% 1968, og 19% fóru 1971 til Efnahagsbandalagslandanna í staðinn fyrir 7% 1968, 12% til Sovétríkjanna í staðinn fyrir 47%, 9% til Bandaríkjanna í staðinn fyrir 28% og 9% til annarra landa. Þannig fóru 74% af útfluttri iðnaðarvöru til EFTA- og Efnahagsbandalagslandanna 1971 í staðinn fyrir 25% árið 1968. Svo segja menn, að þetta hafi ekki neina þýðingu haft, að stærri markaðir hafi enga þýðingu.

Það kom dálítið upp nú hjá hæstv. viðskrh. það sama og þegar við vorum að ræða um aðildina að Fríverzlunarbandalaginu. Þessi rótgróna vantrú á íslenzkum iðnaði og þróun hans. Þar á hann nú við eigin flokksbróður, hæstv. iðnrh., sem virðist hafa dálítið aðra skoðun á þeim málum. Ef ég man rétt, birtist í Þjóðviljanum, þegar var verið að segja frá þessari iðnþróunaráætlun, sem ekki var til, að það mundi eiga sér stað iðnbylting á grundvelli þessarar iðnþróunaráætlunar, sem ekki var til, á næstu árum og 1980 mundi útflutningur iðnaðarvara vera orðinn 60% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar og sjávarútvegurinn vera orðinn litli bróðir í þeim leik. Það getur vel verið, að sérfræðingarnir frá Sameinuðu þjóðunum hafi þessa skoðun, og það er mikil bjartsýni í garð iðnaðarins.

Í iðnþróunaráformum fyrrv. ríkisstjórnar, sem unnið var að af dr. Guðmundi Magnússyni prófessor og voru afhent þm. í maí 1971, þar er einnig dálítil spá í þessum efnum af sérfræðingsins hálfu um, hvers vænta mætti í þessu sambandi, og hún er nokkuð fróðleg. Það er spá um vöruútflutningsverðmæti og hlutdeild iðnaðarins og hinna ýmsu atvinnugreina 1971–1974 og svo 1980. Þar er gert ráð fyrir því, að árið 1973, sem við nú stöndum á, verði sjávarafurðir fluttar út fyrir 69%, ál og önnur orkufrek framleiðsla 22%, annar iðnaður 6% og landbúnaður 3%. Og árið 1974 eru tvær spár. Önnur er með því, að við séum búnir að koma hér upp álsteypu, og hin, að það verði ekki búið að koma upp þessari álsteypu. Án álsteypu er sjávarútvegur enn áætlaður með 69%, ál og önnur orkufrek framleiðsla 21%, annar iðnaður 7% og landbúnaður 3%. En ef álsteypa hefði verið komin upp, sem við stefndum að og mér skilst, að hæst. iðnrh. hafi líka áhuga á, að komið verði upp hér, þá eru sjávarvörurnar 67% af útflutningnum og ál og önnur orkufrek framleiðsla 23%, annar iðnaður 7% og landbúnaður 3%. En ef við hlaupum svo fram til ársins 1980, þá var spá dr. Guðmundar Magnússonar á þá leið, að þá mundu sjávarafurðir nema 56% af útflutningnum, ál og önnur orkufrek framleiðsla 32%, annar iðnaður 10% og landbúnaður 2%.

Nú get ég ekki fullyrt neitt um það, hvort muni verða líklegra, spá þessa sérfræðings eða spá hinna sérfræðinganna, sem mér skilst, að sé á þá lund, að útflutningsiðnaðurinn verði kominn yfir 60% alls útflutningsverðmætisins á árinu 1980. En þessi spá er m.a. byggð á því, að Sigölduvirkjun verði lokið árið 1975 og virkjun við Hrauneyjarfoss árið 1979, ásamt því, að orkan verði notuð til tiltekinnar framleiðslu með tiltekinni tímasetningu. Og þá fæst þessi niðurstaða um spádóminn 1980 í þessum iðnþróunaráformum frá tíð fyrrv. ríkisstj. Þá er gert ráð fyrir 50 þús. tonna málmbræðslu fyrir málmblendi, að hún sé komin hér upp og farin að framleiða til útflutnings, 70 þús. tonna álveri, þ.e.a.s. álverið sé búið að stækka, eins og það er nú þegar búið að gera í Straumsvík, 10 þús. tonna álsteypa sé komin upp og sjóefnaiðja með 250 þús. tonna saltverksmiðju, 24 þús. tonna magnesíumverksmiðju o.fl.

Ég held, að hvort sem einn eða annar af sérfræðingum og stjórnmálamönnum eða öðrum aðilum fjallar um þessi mál, þá þurfi mönnum ekki að blandast hugur um það, að iðnaðurinn á mikla framtíð fyrir sér. Hvort þróunin verður eins ör og þeir bjartsýnustu gera sér vonir um, skal ég alveg láta liggja á milli hluta. En hitt er staðreynd, að atvinnuöryggi okkar Íslendinga liggur í engu frekar en hinar bjartsýnustu spár um iðnþróun í landinu rætist. Þó að sjávarútvegur eflist hér og aflabrögð séu góð, er tæknin orðin svo mikil, að þess er ekki að vænta, að hann geti tekið við neinu sem verulegu nemur af auknu vinnuafli. Alveg sama má segja um landbúnaðinn. Það hefur verið þannig um landbúnað á undanförnum árum, að um leið og framleiðslan hefur stórkostlega aukizt, framleiðslumagnið og framleiðsluverðmætið, hefur fólkinu fækkað, sem við þetta hefur unnið, vegna hinnar öru tækniþróunar. En það er í iðnaðinum og þjónustustarfseminni í sambandi við hann og sem af honum leiðir, sem fyrst og fremst skapast miklir möguleikar fyrir það vinnuafl, sem kemur inn á markaðinn í framtíðinni, að það verði fullnýtt, en þurfi ekki að sitja auðum höndum.

En það var talið og ekki sízt af hæstv. viðskrh., að iðnaðurinn væri lítils megnugur og lítils virði og mundi verða það. Hann taldi, að kannske mundu ekki ske nein ósköp, eins og hann sagði, þó að við gengjum í EFTA, en bjóst þó við því, að afleiðingarnar yrðu þær, að á næstu árum yrði nokkur samdráttur í tímaendum iðnaði og yrði þrengra um það að fá atvinnu, kjör vinnandi fólks versnuðu á margan hátt, og hann bjóst við, að það yrði miklu torsóttara fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu að sækja fram til hækkaðs kaupgjalds o.s.frv. Og svo einkennist öll þessi langa ræða hæstv, viðskrh. þá um fríverzlunarsamtökin í Evrópu eða Fríverzlunarbandalagið af vantrú á, að þetta geti leitt til nokkurs góðs, og sérstaklega á vantrú á nokkurri uppbyggingu iðnaðarins. Það er m.a. lögð áherzla á að vekja athygli á því, að útflutningsframleiðslan sé fyrst og fremst hjá sjávarútveginum og hann sé grundvöllur og undirstaða alls, og ef einhvers sé af iðnaðinum að vænta, þá sé það fyrst og fremst vegna þess, að ríkisstj. þáv. hugsi ekki um annað en draga erlent fjármagn til landsins, og það yrði þá aðallega iðnþróun, sem yrði í höndum útlendinga, og okkur Íslendingum til bölvunar í alla staði.

Þá sagði hæstv. viðskrh., með leyfi hæstv. forseta, m.a.: „Við vitum, að allur okkar heimaiðnaður, sem hefur aðallega byggzt upp á okkar innanlandsmarkaði, er fjárvana framleiðsla, sem stendur ekki að neinu leyti á sambærilegu stigi við það, sem iðnaðurinn er yfirleitt einnig í tiltölulega litlum fyrirtækjum í iðnþróuðum löndum. Og það er einmitt vegna þessa, sem við vitum, að ef við opnum íslenzka markaðinn fyrir innflutningi frá hinum iðnþróuðu löndum, þá eru allar líkur, sem benda til þess, að iðnaður okkar láti í minni pokann í slíkri samkeppni.“ Allt var þetta dauðadæmt fyrir fram, að láta sér detta í hug, að iðnaðurinn gæti nokkuð blómgazt hér á landi við þátttöku okkar í Fríverzlunarbandalaginu.

Það voru ýmsar aðgerðir framkvæmdar af hálfu fyrrv. ríkisstj. í sambandi við inngönguna í Fríverzlunarbandalagið, sem einnig liggja til grundvallar því, að samningur sá, sem hér liggur fyrir, geti orðið okkur að nokkru gagni. Það voru sett lög um útflutningslánasjóð og um útflutningsábyrgðir, til þess að íslenzkur iðnaður gæti veitt kreditlán, exportlán með iðnvarningi sínum til útlanda, á svipaðan hátt og við höfum á ýmsum sviðum fengið lán hjá erlendum iðnaðarfyrirtækjum, sem flutt hafa iðnvarninginn til Íslands. Það var sett löggjöf um útflutningsmiðstöð iðnaðarins, sem nú hefur starfað í 2–3 ár. Vissulega hefur allt þetta stuðlað að verulegri aukningu iðnaðarins í landinu — útflutningsiðnaðarins — á undanförnum árum og það á mörgum sviðum.

Ég fagna því, að hæstv. ráðh., einkum hæstv. viðskrh. og hæstv. iðnrh., hafa nú snúið við hlaðinu. Og þá gleður það mig að minna á nokkur ummæli frá hæstv. viðskrh., þegar við vorum að ræða um aðildina að Fríverzlunarbandalaginu, en þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Við skulum gera okkur það ljóst, að sú stefna, sem mörkuð er í EFTA-samningnum, er í mjög nánu samræmi við þá viðreisnarstefnu, sem hæstv, ríkisstj. hefur verið að burðast við að reyna að framkvæma hér á Íslandi undanfarin 10 ár. Með aðild að EFTA er verið að taka ákvörðun m.a. um ýmis mjög stórfelld deilumál, sem flokka hér á Alþ. hefur greint mjög á um. Og það er enginn vafi á því, að þessi festing viðreisnarstefnunnar er einn megintilgangur hæstv. ríkisstj.

Nú er þessi hæstv. ráðh. að hnykkja á, ekki með því að segja upp EFTA-samningnum, heldur með því að leggja fram tili. um lagfæringu á honum, sem leiðir af þeirri samningsgerð, sem hér er um að ræða, og dettur ekki í hug að segja upp þessum samningi, sem þeir þá sögðu, að væri í raun og veru til staðfestingar á viðreisnarstefnunni, — viðreisnarstefnu fyrrv. hæstv. ríkisstj. Og sami hæstv. ráðh. vitnaði einmitt í orð Ólafs Björnssonar prófessors á sínum tíma, þar sem hann segir, að hann hafi sagt berum orðum, — og það er hann að vitna í til þess að árétta skoðun sína á EFTA, að með aðild að EFTA skuldbindum við okkur til þess að framkvæma áfram þá viðreisnarstefnu, sem upp var tekin 1960. Hann segir, að með aðild að EFTA fáum við ekki lengur að taka upp félagslega stefnu, ekki skipulega stjórn á efnahagsmálum okkar, ekki sérstaka aðstoð við íslenzkar atvinnugreinar, sem lenda í örðugleikum og við viljum ekki án vera. Enn fremur segir sami hæstv. ráðh. þá, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvaða ríkisstj. sem settist að völdum á Íslandi yrði að mati hv. þm. Ólafs Björnssonar að fylgja viðreisnarstefnunni, reglum siðmenningarþjóða í viðskiptum,“ — það er nú ekkert verra, — „eins og hann orðar það á meðan við erum í EFTA. Og það er einmitt þess vegna, sem svona mikið liggur á. Hæstv. ríkisstj. vill skuldbinda okkur með milliríkjasamningi til þess að halda við meginatriðum viðreisnarstefnunnar.“

Með sama hætti mætti nú segja, að hæstv. viðskrh. væri að skuldbinda okkur með gerð þessa samnings, sem grundvallast á EFTA-samkomulaginu og er til orðin vegna þess og með því að leggja til breytingar á EFTA-samningnum án þess að segja honum upp, að skuldbinda sig og aðra hæstv. ráðh. og hv. stjórnarstuðningsmenn til að halda við meginatriðum viðreisnarstefnunnar. Þessu vil ég fagna.

Þá kem ég að einu atriði, sem var verulega mikil fordæming á, þegar við áttum að gerast aðilar að Fríverzlunarbandalaginu og yfirleitt að tengjast nokkrum efnahagsbandalögum Evrópu, hvort sem það væri EFTA eða Efnahagsbandalagið, og það er þetta, sem kemur fram hjá hæstv. iðnrh., sem þá var talsmaður Alþb. í þingmannahópi. „Á því er ekki nokkur vafi, að gengislækkunarskriðan, sem gengið hefur yfir Ísland, hefur haft ákaflega háskaleg áhrif. Hún hefur haft ákaflega háskaleg áhrif. Hún hefur haft ákaflega háskaleg áhrif á atvinnuvegi okkar, hún hefur haft ákaflega háskaleg áhrif á viðhorf og skoðanir landsmanna og trú landsmanna á því, að hægt væri að halda hér uppi sjálfstæðu þjóðfélagi. Ég held, að ein meginnauðsyn okkar hefði verið sú að reyna að tryggja einhverja þá samstöðu í þjóðfélaginu, sem gæti komið í veg fyrir slíka gengislækkanaskriðu.“

Var ekki samstaðan fengin við myndun vinstri stjórnarinnar á sumrinu 1971, einmitt samstaðan til að koma í veg fyrir gengislækkunarskriðuna? Var ekki þá verið að lýsa því yfir fyrir og eftir kosningar, að nú skyldi komið í veg fyrir gengislækkunarskriðuna, og yfirlýsingar gefnar um það í stjórnarsáttmálanum? En það er ekki nema einn af þeim mörgu stóru bitum, sem þessir hv. þm. og hæstv. ráðh. hafa þurft að kingja, eftir að þeir sjálfir tóku sæti í ráðherrastólum. Og hvað er nú á seyði? Verður nú þriðja gengisfellingin hjá hæstv. ríkisstj. Fyrsta gengisfelling hæstv. ríkisstj. var í des. 1971. Þá lækkaði Bandaríkjadollar gagnvart gulli um 8% eða um það bil. Bæði hæstv. viðskrh. og seðlahankastjóri, dr. Jóhannes Nordal, voru búnir að láta orð að því liggja á opinberum vettvangi, í samtökum viðskiptalífsins hér, að eftir því að dæma, að dollarinn yrði felldur, þá virtist eðlilegt að fara bil beggja um það, hvað krónan lækkaði, m.ö.o.: við værum svo háðir viðskiptum með Bandaríkjadollar, að við mættum ekki búast við öðru en það hefði áhrif á gengisskráningu ísl. kr. Og ég er sammála að því leyti. En þá lá það fyrir, að gjaldeyrisöflun okkar er um 60% í dollurum og 40% í öðrum gjaldeyri, aðallega Evrópugjaldeyri. Samkv. því hefði íslenzka krónan átt að falla um af því, sem Bandaríkjadollar féll, ef við hefðum farið bil beggja. Í staðinn var það gert 100%, lækkað eins og dollarinn, sem leiddi aftur til þess, að varningur, sem við flytjum inn í verulegum meiri hluta einmitt frá Evrópulöndum gegn Evrópugjaldeyri, varð hér dýrari í verði og jók á dýrtíðina innanlands.

Það verður ekki séð, að þetta hafi verið skynsamleg ráðstöfun, að fylgja þessu í einu og öllu. Og það er raunverulega undarlegt, að það skuli í árslok 1971 þurfa að fylgja dollaraum að fullu í gengislækkun, þegar ekki er liðið nema hálft annað ár frá því, að fyrrv. ríkisstj. lagði til og var með tillögugerð um gengishækkun á Íslandi vegna þess, hve efnahagsástandið var gott í þjóðfélaginu og hafði blómgazt mikið eftir áfallaárin 1967 og 1968. Þá finnst núv. hæstv. ríkisstj., eftir að hún er búinn að sitja hálft ár að völdum, að hún þurfi að fella gengi krónunnar nákvæmlega jafnmikið og Bandaríkjadollar, þegar hann fellur. En við skulum athuga það, að þó að við seljum þau gjaldeyrisverðmæti, sem við sköpum sjálfir, í einu eða öðru formi um 60% í dollurum, þá er salan á erlendum gjaldeyri ekki nema 26%, þ.e.a.s. þeir, sem kaupa gjaldeyri í bönkunum til þess að kaupa erlenda vöru, kaupa 26% í dollurum, það eru 74% í Evrópugjaldeyri. Og ef við ætlum stöðugt að lækka krónuna með dollarnum 100%, þá hækka þessar vörur stórkostlega í verði hér. Hvað hefur krónan fallið mikið gagnvart Evrópugjaldeyri í tíð núv. hæstv. ríkisstj? Ætli það sé ekki eitthvað um 30%? Þá hef ég í huga líka þær tegundir af Evrópugjaldeyri, sem hafa hækkað á heimsmarkaðinum. Það væri ástæða til þess að athuga þetta nánar.

Ég vék að þessu núna líka af því, að ég geri ekki ráð fyrir, að það gagni fyrir mig að spyrja hæstv. ríkisstj. um það nú, hvað hún hyggist fyrir í sambandi við lækkun á gengi Bandaríkjadollars. En ég vil vara hæstv. ríkisstj. við því að haga því með sama hætti og síðast, fyrir jólin 1971, og dylja almenning gjörsamlega þess, hvað um er að vera. Það er látið heita svo sem sjálfsagður hlutur, ef Bandaríkjadollarinn falli, að þá falli íslenzka krónan jafnt. Þessu verður hæstv. ríkisstj. að gera sér grein fyrir. Er ekki hagkvæmara að fara bil beggja, eins og spáð var í af fyrirsvarsmönnum stjórnarinnar fyrir gengislækkunina 1971, og verður ekki að taka mið af því, hvað er líklegt, að innflutningur vara hækki mikið og valdi okkur miklum erfiðleikum, og meta þá erfiðleika við það að vera einhvers staðar á milli þess, sem dollarinn hefur fallið, í hlutfalli við það, sem við seljum í dollurum, og í hlutfalli við það, sem við kaupum í dollurum.

Því miður stendur útvegurinn, sem er stærsti útflutningsframleiðandinn, ekki svo vel að vígi nú, að menn geti búizt við því, að hann geti tekið dollarafallinu, án þess að einhver breyting verði á genginu. Hann gat gert það að okkar dómi 1970, þó að gengið hefði verið hækkað. En hann getur það því miður ekki núna, að því er ég hygg, og hefur þá margt komið til og flest fyrir tilverknað núv. valdhafa, a.m.k. það, sem hefur hallazt á hjá útveginum. Það hefur veiðzt vel, og miðin hafa verið sótt. En ríkisstj. hefur verið með alls konar ráðagerðir og brugg á bak við tjöldin og aðgerðir, sem hafa verið höfuðorsök þeirrar verðbólgu, sem skapazt hefur í landinu og skapar þessum atvinnuvegi eins og öðrum erfiðleika, þann tíma, sem hún hefur setið að völdum.

Svo var eitt, sem okkur hafði láðst, þegar við vorum að berjast hér fyrir aðildinni að EFTA eða Fríverzlunarbandalaginu, sem er að vissu leyti hliðstætt þessum samningi, sem ég í upphafi sagði, að væri eins konar EFTA-samningur við lönd Efnahagsbandalagsins, og það var að hafa samráð við almannasamtökin. Við vorum mikið gagnrýndir fyrir að hafa ekki haft samráð við almannasamtökin í landinu. Nú hefur líklega verið haft samráð við almannasamtökin í landinu, ég efast ekki um það. Og það væri gaman að heyra, hvort þau væru nú orðin allt í einu hlynnt því, að við gerðum þennan eins konar EFTA-samning við lönd Efnahagsbandalagsins, þar sem því var fjálglega lýst hér yfir, að þau hefðu verið mjög andvíg því, almannasamtökin, að við gengjum í EFTA. Þá lýsti núv. hæstv. iðnrh, því yfir, með leyfi hæstv. forseta, að hæstv. ríkisstj. hefði „ekki haft neitt samráð við almannasamtök í landinu. Hún hefur haft samráð við kaupsýslumenn og atvinnurekendur, en hún hefur ekki haft samráð við hagsmunasamtök almennings. Málið hefur verið tekið til umr. í ýmsum verkalýðsfélögum, og þau hafa öll tekið afstöðu á móti aðild. Sömuleiðis hefur Stéttarsamband bænda fjallað um þetta mál og tekið afstöðu á móti. Og ég tel, að það eigi að vera mönnum ærið umhugsunarefni, að þau almannasamtök, sem hafa fjallað um þetta mál, rætt það og markað stefna í því, hafa öll tekið afstöðu á móti. Það er aðeins nokkur hluti atvinnurekenda, sem er með, og þá fyrst og fremst stóratvinnurekendur, út frá þeirri alkunnu staðreynd, að fjármagnið á sér ekkert föðurland.“

Nú hljótum við að fá upplýsingar um það, hver afstaða almannasamtakanna er til þeirrar samningagerðar, sem hér liggur fyrir. Og ég býst við því, að okkur gefist tækifæri til þess á morgun að fá að heyra afstöðu almannasamtakanna til annars frv. ríkisstj., um lögbindingu eða ákveðna úttekningu á kaupgreiðsluvísitölunni. Við skulum ekki leiða það inn í umr. núna, en sjálfsagt fáum við að vita, hvert viðhorf almannasamtakanna er til þess. Það hefur hins vegar kvisazt, að helztu fyrirsvarsmenn almannasamtakanna og Alþýðusambandsins hafi ekki haft hugmynd um þetta, fyrr en þeir sáu frv. á borðinu hjá sér í sölum Alþ. Það verður til umr. hjá okkur á morgun.

Það er ótalmargt, sem ástæða væri til að ræða á þessum vettvangi einmitt í sambandi við þetta mál, því að réttur skilningur á þeim hlutum er grundvallarundirstaða undir mati manna á því, hvort á að gera svona viðskiptasamninga og framkvæma svona viðskiptasamninga á fríverzlunargrundvelli, eins og hér er lagt til. Auðvitað hafa hæstv. ráðh., sem voru á móti aðildinni að EFTA, áttað sig á villu síns vegar og snúið við og skilja nú betur en áður, og um það hef ég áður sagt, að því fagna ég. En varðandi erfiðleika fólksins, iðnverkafólksins og launamanna almennt, sem leiða átti af aðildinni að EFTA, og hið mikla atvinnuleysi, þá fengum við þm. þær upplýsingar um það hér í þinginu frá Framkvæmdastofnun ríkisins, hagrannsóknadeildinni, að einmitt á árunum 1970 og 1971, áður en efnahagsvitsmuna núv. hæstv. ríkisstj. fór að gæta í efnahagslífinu, hefði kaupmáttur atvinnutekna verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna — á þessum tveimur árum — aukizt um 27.6%. Þegar ríkisstj. tók við völdum, lofaði hún kaupmáttaraukningu á tveimur árum um 20%, en þarna er kaupmáttaraukningin á tveimur árum 27.6%. En það versta er, að hæstv. ríkisstj. á eftir að standa við þetta loforð um kaupmáttaraukninguna. Eftir því sem ég bezt veit, eru ekki neinar ráðagerðir um nokkra kaupmáttaraukningu á þessu ári, og ef hún hefur verið orðin - við skulum segja um 15% á s.l. ári og dregur úr henni í staðinn fyrir að hún aukist á þessu ári, þá er, eins og ég sagði, eftir að efna fyrirheitin. En einmitt vegna þessarar samningsgerðar m.a. og vegna aukinna tengsla við lönd fríverzlunarinnar í Vestur-Evrópu og annars staðar í Evrópu, Norðurlöndin líka, voru viðskiptakjör okkar mjög hagstæð og áttu sinn þátt í því, að hægt var að auka kaupmátt launa verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna, um 27.6% á tveimur árum, þegar þjóðartekjurnar á mann jukust ekki nema um 22%, þannig að þeir fengu verulegan hlut af kökunni. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að hafa kaffihlé kl. 4. Mundi vera heppilegt fyrir hv. þm. að hafa greinaskil núna eða —?) Er ekki bezt, að ég haldi svolítið áfram, svona 10 mínútur eða korter, svo að ég geti lokið ræðunni, því að ef ég byrja aftur eftir kaffihléið, gæti það orðið miklu lengra. (Forseti: Ef það er tryggt, að hv. þm. tali ekki lengur en korter, þá —) Við skulum gera ráð fyrir því.

Ég held, að ég hafi nægjanlega dregið fram í dagsljósið, hversu mikla þýðingu það hefur haft fyrir okkur Íslendinga að einangrast ekki í viðskiptalífi okkar frá Evrópuþjóðunum, þar sem rætur okkar standa svo djúpt á margan hátt, og þess vegna, eins og ég sagði í upphafi, fögnum við sjálfstæðismenn því, að þessi till. til þál. er flutt hér, og styðjum að því af mætti, að hún nái fram að ganga. Þá er aðalatriðið í því máli, að við drögum ekki lengur að gera gangskör að því að fullgilda þetta samkomulag. Og ég ítreka þá ósk, að ríkisstj. lýsi því yfir eindregið, að hún muni nota heimildina, sem felst í þessum samningi, hún vilji nota heimildina og vilji nota heimildina strax fyrir mánaðarmótin. Ég tel mig hafa ástæðu til þess að ætla, að í sölum Alþingis kunni að vera verulegur meiri hl. fyrir því, að með það sé ekki beðið, og enda þótt það hafi verið svo á sínum tíma, að Framsfl. hafi viljað fresta inngöngunni í Fríverzlunarbandalagið, þá held ég, að viðhorfin hafi í augum flestra þeirra, sem ég þekki úr þeirra hópi, skýrzt þannig, að þeir hafi þá rangmetið aðstöðu okkar og skilji nú, hversu þýðingarmikið það samkomulag var og hversu þýðingarmikið er að grundvalla nýjan samning og fullgilda nýjan samning á sams konar grundvelli, eins og lýst hefur verið og segja má, að þetta samkomulag sé að eðli sínu grundvallað á innihaldi og efni fyrra samkomulagsins.

Ég vil sérstaklega, áður en ég lýk máli mínu, leggja áherzlu á, að það fáist skýrari viðhorf en fram komu hjá hæstv. viðskrh. í máli hans, hvað hann hyggst fyrir í þessu máli, og það dragist ekki úr þessu fyrir hæstv. ríkisstj. að gera sér grein fyrir, hvort hentugt sé að fullgilda þennan samning núna, eins og efni standa til og eins og hann liggur fyrir. Við höfum hvorki heyrt nú né höfum heyrt annars staðar, t.d. í stjórnmálablöðum, ágreining um það, að vel hafi verið unnið að gerð þessa samnings í beinu framhaldi af þeim grundvelli, sem lagður var í tíð fyrrv. ríkisstj., og samningurinn sé okkur mikils virði. Hins vegar leiðir það ef eðli málsins, að framtíðin sker að verulegu leyti úr um það, að hve miklu leyti hann verður okkur mikilvægur á sviði iðnaðarins.

Það kemur, eins og ég sagði, til vegna þess, að við getum ekki sér fyrir endann á því á þessari stundu, hversu miklir iðnþróunarmöguleikar okkar Íslendinga eru og hversu mikla möguleika við höfum til þess að afla nýrra útflutningsmarkaða. En það reynir fyrst og fremst á það, þegar þessir markaðir eru ekki lokaðir fyrir okkur eða hindraðir af háum tollmúrum, sem gera okkur erfiðari samkeppnina við aðra aðila og á vissan hátt útiloka okkur algerlega frá hagnýtingu þessara markaða.

Ég skal svo ekki á þessu stigi málsins hafa orð mín fleiri. Mér þætti vænt um, að það skýrðust ýmis þau viðhorf til þessara mála, sem ég hef vakið athygli á. Og ég tel nauðsynlegt, að menn geri sér grein fyrir því, einmitt þegar jafnmikilvægt mál er á ferðinni, hvernig málin hafa þróazt að undanförnu, hvernig deilur hafa staðið um aðild okkar að viðskiptasamböndum í einu eða öðru formi.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því, að ef það er skoðun þeirra manna, sem nú standa að þessum samningi, að meginhluti allra þeirra mörgu orða, sem þeir höfðu, og fordæminga á EFTA- aðild á sínum tíma hafi verið misskilningur og vitleysa, þá höfum við vissulega náð miklum árangri og þá hafa þessir hæstv. ráðh., sem verstir voru viðmóts í sambandi við EFTA- málið, — og þar á ég að sjálfsögðu ekki við hæstv. samgrh., sem fylgdi málinu og hans flokkur, — þá hafa þeir lært nokkuð á því að vera þó ekki nema þennan tíma í ríkisstj. Verður að ætla, að á því tímabili hafi þeir tamið sér fremur en meðan þeir voru í stjórnarandstöðu að líta á málin frá ábyrgum sjónarmiðum.