13.02.1973
Sameinað þing: 44. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

117. mál, notkun svartolíu í togaraflota

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í tæpt hálft ár hefur togarinn Narfi gert tilraunir með brennslu svartolíu. Hafa þessar tilraunir verið styrktar af opinberum aðilum, og er þetta í annað sinn, sem slíkar tilraunir hafa verið gerðar á togaranum Narfa.

Brennsla svartolíu í dísilvélum er í sjálfu sér ekkert nýmæli hér á landi. Nokkur íslenzk flutningaskip hafa notað svartolíu um árabil með ágætum arangri, en notkun svartolíu í fiskiskipum með miklu minni vélar er sem sagt á frumstigi hér á landi og nánast óþekkt erlendis. Reikna má með, að sá mikli skuttogarafloti, sem nú er að koma til landsins, muni nota gasolíu fyrir 300–400 millj. kr. árlega, og þegar haft er í huga, að verð svartolíu er aðeins 60% af verði gasolíu, er augljóst, að hér er um að ræða gífurleg verðmæti, sem kynni að vera unnt að spara, ef notkun svartolíu reynist tæknilega skynsamleg og fær leið.

Nú er málið að sjálfsögðu ekki svo einfalt, að reikna megi til nettóhagnaðar verðmuninn á svartolíu og gasolíu. Brennslu svartolíu fylgir vafalaust einhver aukakostnaður og talsverð fyrirhöfn, og til eru þeir, sem halda því jafnvel fram, að svartolían hafi í för með sér slíkt slit á vélum, að notkun hennar sé alls ekki fjárhagslega hagkvæm, þegar til lengdar lætur, og feli í sér of mikla áhættu. Ég er að sjálfsögðu ekki í hópi deiluaðila í þessu máli og hef enga fastmótaða sannfæringu um það, hvað rétt kann að vera í þessu efni, til þess skortir mig þekkingu. En mér virðist þó ljóst, að brýna nauðsyn beri til að fá úr því skorið, hvort það sé rétt, að spara megi kannske allt að 100 millj. kr. árlega með notkun svartolíu í íslenzkum togurum. Tilraunin, sem undanfarið hefur farið fram í togaranum Narfa, var fyrst um sinn miðuð við s.l. áramót, og virðist mér einsýnt, að henni beri að halda áfram. Jafnframt hlýtur að vera til athugunar, að sérstökum aðila, t.d. nefnd skipuð tæknilega sérmenntuðum mönnum, verði falið að tryggja framhald þessara rannsókna á vísindalegum grundvelli, þannig að senn fáist sem áreiðanlegust niðurstaða í þessu efni. Ef niðurstaðan yrði jákvæð, yrði jafnframt verkefni þessarar n. að gera till, um ýmsar nauðsynlegar ráðstafanir, sem sjálfsagt er að gera, ef stefnt verður að almennri notkun svartolíu á togaraflotanum.

Herra forseti. Þetta eru þau meginsjónarmið, sem búa að baki spurningu minni til hæstv. sjútvrh., þegar ég spyr, hvort þetta mikilvæga mál hafi verið kannað til hlítar.