13.02.1973
Sameinað þing: 44. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

117. mál, notkun svartolíu í togaraflota

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Þessari spurningu er hægt að svara í mjög stuttu máli á þann veg, að þessi rannsókn hefur ekki enn verið gerð til hlítar, því miður. Það er búin að standa yfir alllangan tíma athugun á þessu máli, og nokkrar tilraunir hafa verið gerðar, en ekki er hægt að segja, að málið hafi enn fengið athugun, sem verður að telja fullnægjandi, til þess að hægt sé að þrýsta verulega á þá, sem ráða rekstri togaraflotans í landinu, að taka upp notkun á þessari olíutegund. En það er mjög margt, sem bendir til þess, að við ættum að geta notfært okkur þessa brennsluaðferð á jafnstórar vélar og þær, sem nú eru notaðar í okkar togaraflota. En það er margt, sem grípur hér inn í, ýmiss konar vantrú og tregða og kannske of lítil þekking þeirra, sem helzt eiga hlut að máli.

Athuganir á þessu máli hafa staðið yfir, eins og ég sagði, í alllangan tíma. Það var strax á árinu 1968, sem nokkuð var hafizt handa í þessum efnum, og síðan hafa athuganir meira og minna farið fram á hverju ári. Það hefur sérstaklega verið Ólafur Eiríksson tæknifræðingur, sem hefur haft áhuga á því að koma fram þessum breytingum í rekstri okkar stærri skipa. Hann hefur kynnt sér þessi mál meira en flestir aðrir, bæði fylgzt með rannsóknum hérlendis og kynnt sér málið erlendis frá. En sem sagt, þær rannsóknir, sem fram hafa farið, hafa ekki enn leitt til þess, að fært þyki að knýja verulega á þá aðila, sem ráða rekstri togaraflotans, að taka upp notkun á þessari olíu. En rannsóknum þessum verður haldið áfram, og ég tek undir það með fyrirspyrjanda, að það væri auðvitað æskilegast að velja til þessara rannsókna tæknimenntaða menn, sem gætu lagt alveg ótvíræðan dóm á það, hvort rétt væri að ráðast í að taka almennt upp notkun á þessari olíutegund á okkar stærri fiskiskipum.

Það var til þess ætlazt af mér, þegar ég kom inn í þetta mál, að undir forustu Fiskifélagsins, sem að eðlilegum hætti á að láta sig mál eins og þetta varða, yrði á vegum þess framkvæmd allítarleg rannsókn, þar sem t.d. Ólafur Eiríksson tæknifræðingur og Gunnar Bjarnason fyrrv. skólastjóri Vélskólans, sem einnig hefur sýnt mikinn áhuga á þessu máli og er kunnáttumaður í þessum efnum, þeir gætu framkvæmt á vegum Fiskifélagsins nægilega ítarlega rannsókn varðandi málið, sem síðar mætti byggja á. Því miður hefur þetta ekki tekizt enn. En reynt verður að vinna að framhaldsrannsóknum til þess að fá lyktir í þessu máli.

Eins og ég sagði, hafa komið fram ýmsar efasemdir og tregða, og af hálfu Fiskifélagsins hefur verið bent á margvíslega agnúa, sem séu á því að taka upp þessa breytingu. Ég ætla þó, að hægt verði að fá endanlega úr því skorið innan tíðar, hvort þetta er tiltækilegt og hvort hægt verður að spara verulega fjármuni við rekstur hinna stærri fiskiskipa. En á því leikur lítill vafi, því að ef ekki koma fram neinir verulegir gallar við að taka upp notkun á þessari olíu í vélunum, gæti hér verið um mikinn sparnað að ræða.

Sem sagt, svar mitt er, að það hefur ekki farið fram fullnaðarathugun á málinu, en rannsókn verður haldið áfram.