14.02.1973
Efri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls beindi ég þeirri ósk til sjútvn., að hún tæki málið til frekari athugunar í tilefni af brtt., sem ég hafði borið fram á þskj. 121. Hv. 4. þm. Vestf., formaður sjútvn., hefur greint hér frá niðurstöðum athugana sjútvn. á málinu, sem liggja fyrir í brtt, á þskj. 298. Ég skal ekki fjölyrða um þá till. Ég vil aðeins taka fram, að mér þykir þar mikil bót gerð á frumvarpsgreininni, og þar er, eins og hv. 4. þm. Vest. tók fram, kveðið miklu nánar á um þessi efni. Í staðinn fyrir, að í frvgr. var talað um, að stefnt skyldi að því að koma upp rannsóknastofum utan Reykjavíkur eða úti á landsbyggðinni, er nú tekið skýrt fram, að starfræktar skuli rannsóknastofur utan Reykjavíkur. Enn fremur er mikið til bóta, að tekið er fram í tili. sjútvn., hve mikill stofnkostnaðurinn á að vera, sem ríkið greiðir. Um þetta var fullkomin óvissa samkv. frvgr. Það er rétt, sem hv. 4. þm. Vestf. segir, að till. sjútvn. gengur í átt til þess, sem ég hef haldið fram í þessu máli, en að vísu hefur sjútvn. ekki mælt með samþykkt minnar brtt. Ég fyrir mitt leyti hefði talið, að það hefði vel mátt fara saman að gera það og breyta frvgr. á þann veg að öðru leyti, sem n. gerir till. um.

Ég skal ekki orðlengja hér eða fara að endurtaka þau rök, sem ég hef flutt við fyrri umr. um þetta mál. En með tilliti til þess, að það var ég, sem óskaði eftir, að sjútvn. tæki málið til frekari athugunar, og með tilliti til þess, að till. sjútvn. gengur verulega í þá átt til þess, sem mér þykir betra, og í þriðja lagi með tilliti til þess, að það hefur náðst samstaða í sjútvn. um málið, þá dreg ég till. mína til baka.