14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel, að ekki verði komizt hjá því að vekja athygli þings og þjóðar á því, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki lengur vera þeim vanda vaxin, sem sérhver ríkisstj. hlýtur að eiga við að glíma. Ríkisstj. er augljóslega sjálfri sér svo sundurþykk í veigamiklum atriðum og stuðningur hennar á Alþ. er augljóslega orðinn svo hæpinn, að segja má, að í raun og réttri sé landið stjórnlaust að verulegu leyti. Ég skal finna þessum orðum mínum stað, greina frá því, hvers vegna ég vek athygli á jafnalvarlegu ástandi í stjórnmálum og stjórnarháttum landsins og ég tel nú eiga sér stað.

Í fyrradag er útbýtt hér í hv. Nd. stjfrv. frá ríkisstj., sem gerir ráð fyrir tveim breytingum á vísitölugrundvellinum, þeirri viðmiðun, sem kaupgjald í landinu allt á að breytast eftir. Öllum er kunnugt, hvað í þessu felst. Meiningin er sú að láta vísitölu 1. marz n.k. og þar með kaupgjald hækka um það bil 2.8% minna en ella hefði átt sér stað, um 2.8% minna en það á að hækka samkv. þeim samningum milli vinnuveitenda og launþega, sem í gildi eru og ríkisstj. átti á sínum tíma aðild að, að gerðir væru, og fagnaði mjög. Nú hefur hins vegar gerzt samkv. blaðafyrirsögn í morgun, að einn helzti stuðningsmaður ríkisstj. og einn sá valdamesti, hv. þm. Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands, lýsir því yfir, að hann muni greiða atkv. gegn þessu frv. Hann skýrir jafnframt frá því, að ekkert samráð hafi verið haft við stjórn Alþýðusambands Íslands um flutning þessa máls. En eitt af stefnuskráratriðum núv. ríkisstj. hefur einmitt verið, það hefur verið margyfirlýst og ítrekuð stefna, að hafa samráð við launþegasamtök varðandi allar aðgerðir á því sviði, sem snerta kjarasamninga, og raunar um allar aðgerðir, sem hafa mikilvægar efnahagsafleiðingar.

Þetta frv. snertir að sjálfsögðu grundvöll gildandi kjarasamninga, því að í því felst, að með lögum sé því breytt, hvernig kaupgjald skuli reiknað út. Í kjarasamningunum er miðað við þann vísitölugrundvöll, sem nú er í gildi, en breyta á með þessum lögum, þannig að lagasetningu skv. frv. er augljóslega breyting á gildandi kjarasamningum. Samt lýsir hv. þm., forseti Alþýðusambands Íslands, yfir, að ekkert samráð hafi verið haft við hann eða stjórn Alþýðusambands Íslands um málið, hann sé frv. andvígur og muni greiða atkv. gegn því. Það er talið, að hið sama eigi við um annan þm. SF. þann þm. utan ráðherrahópsins, sem á sæti í þessari hv. d. Ef það er rétt, sem ég skal ekkert fullyrða um, fyrir því hef ég engar öruggar heimildir, — ef það er rétt, sem mér þætti ekki ósennilegt, þá er alveg augljóst, að þetta stjfrv. hefur ekki meirihluta fylgi á Alþ. Ef stjórnin gerði samþykkt þess að fráfararatriði, þá væri stjórnin þar með fallin, þá væri meirihlutastuðningur hennar hér á hinu háa Alþ. úr sögunni.

Það er einsdæmi, að ríkisstj. flytji stjfrv., án þess að það hafi verið lagt fyrir þá þingflokka, sem hana styðja. En af yfirlýsingu Björns Jónssonar, forseta ASÍ, í morgun virðist mega ráða, að ekkert samráð hafi verið haft við þingflokk hans, þ.e.a.s. þingflokk SF, um flutning þessa máls, og þá eflaust ekki heldur við þingflokk hæstv. forseta d. Slíkt er auðvitað algert einsdæmi.

En þetta er ekki einasta ástæðan til þess, að ég vek athygli á því alvarlega ástandi, sem ég tel ríkja í stjórnmálum og stjórnarháttum landsins. Í gær fóru hér fram umr. um eitt stærsta mál, sem fyrir þetta Alþ. hefur verið lagt, þ.e. till. um staðfestingu samnings um aðild Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Hér er um að ræða stærsta viðskiptasamning, sem Íslendingar hafa gert í gervallri viðskiptasögu sinni. Þennan samning gerði ríkisstj. á s.l. sumri í Büssel. Hann tekur ekki gildi, fyrr en Alþ. hefur staðfest hann, hefur fullgilt hann. Það er vitað, að innan ríkisstj. og þá væntanlega einnig stuðningsflokka ríkisstj., hefur verið ágreiningur um það, hvort staðfesta eigi samninginn eða ekki, vegna þeirra bókana, sem báðir samningsaðilar gerðu í tilefni af landhelgisdeilunni. Ég hef flutt till. um, að Alþ. feli ríkisstj. að fullgilda þennan samning, og það er skoðun flokks míns, að það eigi ríkisstj. að gera fyrir 1. marz n.k., til þess að hann geti tekið gildi að því er snertir viðskipti með iðnaðarvörur og ýmsar sjávarafurðir þegar 1. apríl n.k. Það mundi vera til tvímælalauss hagnaðar fyrir íslenzkan iðnað og fyrir íslenzkan sjávarútveg, þótt viss tollfríðindi hans kæmu ekki til framkvæmda vegna landhelgisdeilunnar. Frsm. fyrir till. ríkisstj. um að heimila ríkisstj. að fullgilda samninginn var hæstv. viðskrh. Hann talaði gegn því, að samningurinn yrði fullgiltur fyrir 1. marz n.k., öðruvísi a.m.k. urðu orð hans ekki skilin. Ég skildi þau og túlkaði þau þannig í ræðu, sem ég flutti á eftir ræðu hans í gær, og óskaði eftir því, að ef hér væri um misskilning að ræða, vegna þess að ráðh. tók ekki mjög ljóst til orða frekar en fyrri daginn, að hann leiðrétti túlkun mína, ef ég hefði misskilið hann. En hann gerði það ekki, og hlýt ég að taka það sem staðfestingu á því, að hann sé andvígur því, að samningurinn sé fullgiltur fyrir 1. marz n.k. og taki gildi 1. apríl.

Í tilefni af þessu beindi ég þeirri ákveðnu fsp. til anraðhvort hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh., hvort hæstv. viðskrh. talaði hér í nafni ríkisstj. eða ekki og hvort ríkisstj. mundi vilja gefa yfirlýsingu um það, hvað hún hygðist gera í málinu fyrir 1. marz. Hæstv. forsrh. var því miður ekki staddur á fundi Sþ., þegar ég flutti ræðu mína. Hæstv. utanrrh. var hins vegar staddur í d. og heyrði mál mitt, en kaus að svara ekki neinu. Af þessu taldi ég mig ekki geta dregið aðra ályktun en þá, að ríkisstj. hefði enn ekki tekið afstöðu til málsins, hún væri sundruð í afstöðu sinni, sumir ráðh. væru með staðfestingu á samningnum, aðrir, eins og hæstv. viðskrh., væru henni andvígir. M.ö.o.: líka í þessu stærsta utanríkisviðskiptamáli, sem Alþ. hefur fjallað um árum saman, máli, sem er enn stærra en aðildin að EFTA á sínum tíma, er ríkisstj. sundruð. Ráðh. virðast hafa hver sína skoðun á málinu og ekki vera búnir að koma sér saman um, hver niðurstaðan eigi að vera, og hið sama gildir þá væntanlega einnig um stuðningsflokka ríkisstj.

Þetta er annað dæmið um svo augljósa sundrung innan ríkisstj. og innan þess liðs, sem ber ábyrgð á henni hér á hinu háa Alþ., að það hlýtur að teljast hið allra alvarlegasta ástand. Frekari dæmi skal ég nefna.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að því miður hafa nokkrar deilur orðið milli blaða og stjórnmálamanna um samstöðu Alþ. í viðlagasjóðsmálinu, þ.e.a.s. um þá aðstoð, sem Vestmanneyingum á að veita með stofnun Viðlagasjóðs. Menn hafa sagt forsögu málsins með mjög ólíkum hætti. Það er saga, sem væri ástæða til að rekja miklu nánar og mun verða gert síðar. Ég sé ekki ástæðu til að gera það ítarlega nú, en vil þó nefna eitt mikilvægt atriði í þessu sambandi, sem er enn eitt dæmi um það, hvernig stjórnin og stuðningsflokkar hennar eru sjálfum sér sundurþykk. Einn hæstv. ráðh., hæstv. iðnrh., átti viðtal við blað sitt, Þjóðviljann, fyrir meira en viku og ræddi þar um þær frumtill. um málið, sem embættismenn hefðu gert, og átti hann þar við fyrsta frv., sem lagt var fram á ráðherrafundi, þar sem við formaður Sjálfstfl., Jóhann Hafstein, vorum staddir. Þetta frv. kallaði ráðh. frv. embættismanna, sem væri ríkisstj. algerlega óviðkomandi, enda hefði ríkisstj. síðar samið annað frv. úr þessu frv. embættismannanna. Þessi saga er síðan ekki aðeins endursögð, heldur margítrekuð og undirstrikuð í aðalmálgagni hæstv. ríkisstj., blaði hæstv. forsrh., Tímanum, s.l. sunnudag í heillar síðu helgargrein. Þar er í ítarlegu máli talað annars vegar um frv. embættismannanna, hugmyndir embættismannanna, og hins vegar um síðari till. ríkisstj. í málinu. Hér er hallað réttu máli. Af hálfu hæstv. iðnrh. er áreiðanlega vísvitandi hallað réttu máli. Hann var á ráðherrafundinum, sem við Jóhann Hafstein vorum á, og veit vel, hvað þar gerðist, og einnig um aðdraganda þess ráðherrafundar. Ég get auðvitað ekki fullyrt, að blaðamaður við Tímann, þótt ritstjóri sé, viti allan sannleikann í málinu. En hann hefði átt að afla sér réttra upplýsinga, áður en hann skrifaði, eins og hann skrifaði s.l. sunnudag. Sannleikurinn er sá, að þrem dögum áður en þessi ráðherrafundur á laugardagsmorgni var haldinn, hafði forsrh. gert boð fyrir okkur formann Sjálfstfl. og kynnt okkur, hvað ríkisstj. hefði á prjónunum varðandi hinn mikla vanda, sem upp væri kominn vegna hamfaranna í Vestmannaeyjum. Þau atriði, sem hann sagði, að ríkisstj. væri að hugleiða og hefði beðið embættismenn, — ég endurtek: hefði beðið embættismenn um að færa í frv.- form, voru í aðalatriðum þessi, — þau voru 8, en ég nefni 5 aðalatriðin:

1. Að fresta þeirri 6–7% kauphækkun, sem taka átti gildi 1. marz n.k.

2. Skerðing á vísitölunni, þ.e.a.s. binding kaupgjaldsvísitölunnar við ákveðin vísitölustig án tillits til þess, hvernig þessi vísitala ætti að vera samkv. framfærsluvísitölu.

3. Bann gegn kauphækkunum til loka núv. samningstímabils.

4. Hækkun á söluskatti, án þess að kaupgjald hækkaði á móti.

5. Frestun á opinberum framkvæmdum. Þetta voru aðalatriðin í því, sem hæstv. forsrh. tjáði okkur formanni Sjálfstfl. á tveim fundum með honum einum, þar sem við vorum eingöngu þrír, sem hann tjáði okkur á tveim fundum í þessari viku, að væru hugmyndir ríkisstj. og tveir embættismenn, þeir Jóhannes Nordal og Jón Sigurðsson, hefðu verið beðnir um að færa í frv.-form. Það var þetta frv., sem barst inn á ráðherrafundinn, sem við Jóhann Hafstein sátum umræddan laugardagsmorgun. Það er án efa rétt, að ráðh. sáu frv. þá fyrst, enda var samningnum ekki lokið fyrir þann morgun, svo að við sáum frv. jafnsnemma og þeir. En við Jóhann Hafstein vissum jafnvel um innihald frv. og ráðh. sjálfir, því að innihaldið hafði áður verið rætt á ráðherrafundum. Mér kemur ekki til hugar, að hæstv. forsrh. hefði skýrt okkur frá þessum efnisatriðum nema að undangengnum umr. á væntanlega fleiri en einum ráðherrafundi. Það eru því augljóslega bein ósannindi, þegar einn af ráðh. kennir þetta frv. við embættismennina og kallar það þeirra hugmyndir. Það eru bein ósannindi, þegar einn af ritstjórum Tímans skrifar heillar síðu grein s.l. sunnudag og heldur áfram að kenna þetta frv. við embættismennina og segir ríkisstj. enga ábyrgð hafa borið á innihaldi þess. Hitt er svo rétt, að ríkisstj. breytti þessu frv. í ýmsum atriðum og endanlegt samkomulag var byggt á allt öðrum grundvelli en efnisinnihaldi þessara tveggja frv., sem ríkisstj. lét embættismennina semja. Þess má geta, að þeir sömdu líka seinna frv., svo að með nákvæmlega sama rétti hefði mátt kenna það við embættismennina. Þeir sömdu bæði frv. eftir beinum fyrirmælum hæstv. forsrh., auðvitað gefnum í nafni allrar ríkisstj. Mér dettur ekki í hug, að hann hegði sér öðruvísi en þannig að hafa félaga sína í ríkisstj. á bak við sig, þegar hann gefur embættismönnunum fyrirmæli um jafnmikilvæg atriði og þau að festa í frv.-form lagafyrirmæli um ákveðnar efnahagsráðstafanir.

Ástæðan til þess, að hvorugt þessara frv., ekki seinna frv. heldur, var lagt fram, var ekki fyrst og fremst ágreiningur við stjórnarandstöðuna, eins og látið hefur verið að liggja, án þess þó að fullyrða það beinlínis. Ástæðan til þess, að frv. var ekki sýnt mánudaginn eftir, var sú, að um helgina kom í ljós, að það hafði verið vanrækt, þótt full samstaða væri innan ríkisstj., að hafa samráð við alla stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hér á hinu háa Alþ. Það hafði verið vanrækt að hafa nokkurt samband við stjórn Alþýðusambandsins, og var meira að segja lýst yfir, að ekki væri meiningin að gera það. Það hafði verið vanrækt að hafa samstarf við forseta Alþýðusambandsins. Það hafði verið vanrækt að hafa full samráð við þingflokk hans, þingflokk SF, og þá kom í ljós hið sama, sem ég var að geta um í upphafi máls míns, að hefði komið í ljós um frv. um vísitöluskerðinguna nú, að hálfur þingflokkur SF. þ.e.a.s. þeir tveir þm. hans, sem eru ekki ráðh., voru frv. — seinna frv. líka — algerlega andvígir. M.ö.o.: það frv. hafði ekki þingmeirihl. að baki sér frekar en frv., sem ég gerði að umtakefni í upphafi máls míns.

Ríkisstj. gat auðvitað ekki reiknað með því, að stjórnarandstaðan samþykkti með henni frv., sem tveir af helztu stuðningsmönnum hennar, hvor í sinni d., væru algerlega andvígir, og þá var vitað um, að stjórn Alþýðusambandsins var algerlega andvígir, Það var vegna þessa ágreinings, sem frv, var ekki sýnt á mánudeginum, eins og upphaflega hafði verið tilætlunin, en breytt um stefnu í þá átt, að mínu viti mjög hyggilega og skynsamlega, að kjósa 7 manna n. til þess að semja nýtt frv. um aðstoðina við Vestmannaeyjar. Það tókst samstarf um kosningu þeirrar n. og samstarf í n. undir mjög ánægjulegri og farsælli forustu hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar. Ég veit, að allur þingheimur og þjóðin hefur fagnað því, að samkomulag skyldi nást í þeirri n. Það var ekki vandalaust. Allir urðu að slá nokkuð af því, sem þeir töldu réttast, en formaður n. leiddi þá samninga af hyggindum og festu og samkomulag náðist. Það varð ágreiningur í n.. sem ég skal ekki víkja að nú til þess að blanda honum ekki inn í þetta mál. Það er þessu máli, sem ég hér er að tala um, í raun og veru algerlega óviðkomandi. En sú saga verður líklega að segjast öll, þó að síðar verði.

Hér hef ég nefnt þrjú dæmi: vísitölufrv., sem er lagt fram í dag, Efnahagsbandalagsmálið, sem augljóslega er ekki samstaða um innan ríkisstj. sjálfrar, þótt stórmál sé, og svo Viðlagasjóðsmálið, sem sannleikurinn hefur ekki verið sagður um fram að þessu jafnumbúðalaus og ég hef sagt hann hér. Ágreiningur í stjórnarflokkunum hefur verið slíkur, að meiri hl. stjórnarinnar á þinginu hefur raunverulega verið brostinn. Þessi þrjú dæmi sýna, að eðlilegur og traustur samstarfsgrundvöllur þessara stjórnarflokka er í raun og veru brostinn,

Þetta er þeim mun alvarlegra, — og nú kem ég að niðurstöðu máls míns, — þetta er þeim mun alvarlegra vegna þess, að nú dynja yfir Ísland efnahagserfiðleikar utan að, sem eru mjög alvarlegir og hljóta að setja þjóðina í mikinn vanda og verða henni til mikillar byrði. Við eigum ekki aðeins við að etja náttúruöflin, svo óskapleg, svo hörmuleg sem sú viðureign þó er, og orðlengi ég ekki um það. Það hefur einnig gerzt, að okkar stærsta viðskiptaþjóð, Bandaríkin, hefur fellt gengi sitt um 10%. Það rýrir verðmæti þeirrar vöru, sem við flytjum til Bandaríkjanna, og þar er um að ræða hvorki meira né minna en 31% af heildarútflutningi okkar. Það rýrir verðgildi þeirrar vöru, hvernig sem á málinu verður tekið, um 10%. 31% af heildarútflutningi okkar rýrna um 10% í verðmæti vegna þessara ráðstafana. Hér er auðvitað um stóráfall að ræða. Það má mæta þessu áfalli með ýmsum hætti. Ef því yrði mætt þannig, að dollarinn yrði látinn lækka úr tæpum 100 kr. í tæpar 90 kr., þá yrðu þeir, sem flytja á Ameríkumarkað, að bera þetta áfall. Við flytjum hins vegar ekki nema um 7–8% af innflutningi okkar inn frá Bandaríkjunum, svo að lækkun vöruverðs hér vegna lækkaðs innflutningsverðs frá Bandaríkjunum mundi verða tiltölulega mjög lítil. Í þessu er fólgið tjón okkar. Það verður 10% lækkun á næstum 1/3 af okkar útflutningi, það verður 10% lækkun á 1/12–13 af okkar innflutningi. Þetta er tjón, tjón í raunverulegum verðmætum, sem með einhverjum hætti verður að bera. Verði það borið þannig, að dollarinn verði látinn lækka og gengi annarrar myntar látið haldast óbreytt, þá bera tjónið þeir útflytjendur, sem flytja vörur á Bandaríkjamarkað. Verði við því brugðizt eins og síðast, þegar slíkir atburðir gerðust, að krónan fylgi dollarnum, þá hækka allar aðrar myntir í verði um ca. 10%. Útflutningur til þeirra landa hækkar um 10%, og innflutningur frá þeim hækkar líka um 10%. En um öll önnur lönd en Bandaríkin, ef við tökum þau sem heild, gildir öfugt, ef að líkum lætur. Við flytjum miklu meira inn þaðan heldur en út þangað, þannig að sú hækkun, sem útflytjendur fengju á sínar vörur, sem við flytjum til annarra markaða en á Bandaríkjamarkað, koma á hlutfallslega miklu minni hluta í útflutningsverzluninni heldur en sú hækkun, sem verður á þeim vörum, sem við flytjum inn þaðan. Verði þessi kostur tekinn, að láta krónuna fylgja dollarnum, þá á sér stað gífurleg verðhækkun á öllum vörum, sem við flytjum inn frá öðrum löndum en Bandaríkjunum. þá kemur tjón þjóðarheildarinnar fram í því formi: Þá hækkar verðlag og framfærslukostnaður hér innanlands og þá væntanlega einnig kaupgjald að óbreyttum samningum stéttarfélaga. Hér er um mikinn viðbótarvanda að ræða, viðbótarvanda við þann, sem hæstv. ríkisstj. skapar sjálf, og þann gífurlega vanda, sem náttúruhamfarirnar í Eyjum hafa fært þjóðinni, hér er um enn nýjan vanda að ræða, og þá er ástandið á stjórnarheimilinu þannig, þá er ástandið í æðstu stjórn landsins þannig, að við völd situr stjórn, sem er sjálfri sér sundurþykk og í raun og veru veit ekki, hvort hún hefur meirihlutafylgi hér á Alþ. eða ekki. Það er þetta alvarlega ástand, sem ég hef talið mér skylt að vekja sérstaka athygli á.

Ég mun hafa látið svo um mælt, — og þetta skulu vera síðustu orð mín, — ég mun hafa látið svo um mælt í umr. um efnahagsmál í des. s.l., að þær efnahagsráðstafanir, sem ríkisstj. þá að lokum eftir miklar deilur og mikla sundrung sameinaðist um, bæru þess vott, að dauðastríð ríkisstj. væri hafið. Ég minnti á þau fleygu orð Steins Steinarr, að það vinni „ekki neinn sitt dauðastríð“. Auðvitað er ríkisstj. nú að tapa dauðastríði sínu. En undir lokin ættu hún að leiða hugann að hagsmunum alþjóðar og játa ósigur sinn.