14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Ég ætla að biðja hæstv. forsrh. að fara ekki úr salnum, því að ég ætla þá að bíða, þangað til hann kemur aftur, því að ég þarf að beina einni fsp. til hans.

Herra forseti. Það er kannske óþarfi, að ég sé að tefja þingstörfin með því að koma hér upp í ræðustólinn aftur, en ég vildi aðeins, að við hefðum alveg á hreinu það, sem hér hefur verið rætt um. Hv. 7, þm. Reykv. sagði og tvítók það í sinni ræðu núna, að hæstv. forsrh. hefði sagt, að hann vildi fullgilda samninginn fyrir 1. marz. Nú bið ég afsökunar á því, ef það er rangt hjá mér og það hafi farið fram hjá mér, að það kæmi fram í svari forsrh., að hann vildi fullgilda samninginn við Efnahagsbandalagið fyrir 1. marz, og þess vegna spurði ég sérstaklega um það, hvort það væri afstaða hæstv. forsrh. að vilja fullgilda samninginn fyrir 1. marz þrátt fyrir þann fyrirvara, sem væri í honum. Ef þetta er rangt hjá mér, þá bið ég afsökunar á því, en að öðru leyti vil ég biðja hæstv. forsrh. að taka af vafa um þetta.