14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

159. mál, kaupgreiðsluvísitala

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þetta frv. kom á borð okkar þm. s.l. mánudag, og það háttar svo til, eins og fram hefur komið, að þm. eru nú að fara nokkrir á Norðurlandaráðsfund, forustumenn flokka og ráðh. og fleiri þm. Ég mæltist til þess samdægurs við hæstv. forsrh., að málið kæmi ekki á dagskrá í dag af þessum sökum, og það ætti ekki að skipta máli um afgreiðslu þess. Við höfum ekki haft aðstöðu til að ræða það í þingflokki Sjálfstfl., og auk þess eru nokkuð margir þm. veðurtepptir úti á landi og þ. á m. einn þm. í Sjálfstfl., sem á sæti í stjórn Alþýðusambands Íslands. Þetta er að vísu 1. umr. um málið, og venjulega er það svo, að það skiptir ekki miklu, þótt 1. umr. fari fram. Menn tjá sig þá að jafnaði ekki um málin, en láta þau ganga til nefndar, nema þeir, sem mæla fyrir þeim, — aðrir tjá sig ekki um málin, fyrr en n. hafa athugað þau. Hins vegar er það þingvenja, sem eflaust mun haldast áfram, að þegar stórmál eru á ferðinni, vilji menn gjarnan tjá sig strax í upphafi um mál, sem þannig eru vaxin. Og hér er um stórmál að ræða að vísu, af ástæðum, sem ég skal koma nánar að.

Frv. er tvíþætt, og ég skal í fyrsta lagi víkja að 1. gr. og tjá skoðun mína á henni, að ég tel hana mjög óviðeigandi, eins og aðstæður eru. Ég tel óviðeigandi að fela kauplagsnefnd að ákveða, að tiltekin þjónusta í landinu skuli verða þess valdandi, að vísitalan færist niður um eitt stig. Við vitum ekkert um, hver þessi þjónusta er. Ríkisstj. er að boða, að hún ætli að koma á einhverri tannlæknaþjónustu. Tannlæknaþjónusta hefur verið undanfarin ár, eftir að lögbundin var sú vísitala, sem nú er, af hálfu nokkurra sveitarfélaga, m.a. Reykjavíkur, ég veit ekki, hverra annarra, ég hef ekki haft tíma til að kanna það mál nánar. Upphaflega mun ríkissjóður, eftir að til þessarar þjónustu var stofnað, að börn í barnaskólum og nú víst á öllum skyldunámsaldrinum fá ókeypis tannlæknaþjónustu, hafa greitt á móti sveitarfélögum til helminga, en neitað hins vegar eða horfið frá því síðari árin, þannig að hlutur ríkissjóðs hefur þá verið minni. Nú á að auka hlut ríkissjóðs. En hvernig á að framkvæma þessa tannlæknaþjónustu, hvaða áhrif hún hefur á vísitöluna, það á ekki að bíða og sjá hvað setur um það og reikna það út eins og allar aðrar greinar vísitölunnar af kauplagsnefnd. Nei, henni er fyrirskipað hér með lögum: þetta er 1%.

Þetta er algerlega óviðunandi, því að kaupgreiðsluvísitalan er ekkert smámál. Hún mælir kaup allra launþega í landinu. Það verður ekki farið silkihönskum um það mál. Þess er krafizt af þm. og ríkisstj., að haldið sé með gát á þessum málum og hefur ævinlega verið gert, eins og dæmin sanna. Ég tel þess vegna, að sá eðlilegi háttur hefði verið, að ríkisstj. legði fram sínar till. og sín fjárframlög, — úr fjárvana ríkissjóði á það víst að vera, því að það er búið að segja okkur undanfarið, að hann sé algerlega botnlaus og miklu meira en það, — að hún sýni, hvar á að taka þessa peninga, sem á að láta í tannlæknaþjónustuna, með hverjum hætti það á að vera, og þegar það liggur fyrir, þá reiknar kauplagsnefndin samkv. lögum, hvaða áhrif þetta hefur á vísitöluna.

Svo er önnur spurningin. Hún er, að þessi þjónusta kemur, eftir að vísitölugrundvöllurinn er lagður, sem unnið er eftir. Það má til sanns vegar færa, að þess vegna væri kannske rétt að láta þetta koma inn í vísitöluna. En hér eru hlunnindi, sem fólk er búið að fá og búið að fella sig við að verulegu leyti, nema það, sem við bætist úr ríkissjóði. Og þá á allt í einu að svipta það fólk, sem tekur laun, áhrifum af þessum hlunnindum. Ég gæti vel trúað því, þó að ég hafi ekki haft aðstöðu til þess að kanna það, að það séu mörg önnur tilvik í þjóðfélaginu, sem er svipað ástatt um, annaðhvort þannig, að þau hafi verið tekin upp til hagsbóta fyrir almenning í landinu, eftir að vísitölugrundvöllurinn var lagður, eða þá á hinn veginn, að sumt hafi komið fram, sem ekki er reiknað í vísitölunni, en er til óhagræðis fyrir almenning, að var ekki í vísitölugrundvellinum, þegar hann var lagður. Ég tel þess vegna efnislega séð mjög ábótavant þessari gr. og ef eigi að keyra hana gegnum þingið, þá þurfi hún vissulega lagfæringar við. Skal ég svo ekki segja meira um það.

Þá kem ég að hinni gr. Hún er um það, að við útreikning kauplagsnefndar á kaupgreiðsluvísitölunni fyrir marz–maí, júní–ágúst, sept.–nóv. skuli eigi taka tillit til þeirrar vísitöluhækkunar, sem leiðir af verðhækkun áfengis og tóbaks hinn 20. des. 1972. Um þetta vil ég segja það, og það gildir einnig um fyrra atriðið, að ég er engan veginn mótfallinn því, að vísitölugrundvöllurinn sé endurskoðaður og við reynum að skapa okkur betri og heilbrigðari grundvöll en fyrir hendi er í dag. En það á ekki að vera með þetta kák í sambandi við þessi mál, að taka einn og einn lið út úr vísitölunni, því að allt er þetta ein heild, sem er mjög viðkvæm viðureignar. Það stendur fyrir dyrum endurskoðun á vísitölugrundvellinum, og þess vegna væri að sjálfsögðu eðlilegt, að þessi mál eins og mörg önnur féllu inn í þá almennu endurskoðun á vísitölugrundvellinum, sem fyrir dyrum stendur. Þetta er þess vegna bráðræði. Það er eins og það hvíli örlög yfir þessari ríkisstj. að hrapa að málum í einhverju ráðleysi. Jafnvel þó að efnislega kunni hún að hafa ýmislegt til síns máls í sambandi við eitthvert mál, þá vantar alltaf heildarsýnina yfir málið. Það vantar heildarsýnina yfir efnahagsmálin. Það er lækkað gengi krónunnar fyrir áramótin. Þegar Seðlabankinn gefur út tilkynningu sína um gengisfellinguna, segir hann, að það ríki fullkomin óvissa um það, hvaða áhrif gengisfellingin hafi, af því að það séu svo margir aðrir liðir snertandi efnahagsmálin, sem er gengið alveg fram hjá að taka afstöðu til. Það er allt í þoku eftir gengisfellinguna. Svo eru gerðar ráðstafanir milli jóla og nýárs, einhvers konar nýjar uppbætur fyrir útveginn. Hann á að sleppa við söluskatt, og ef hann leggur í eigin sjóði, þá ætlar ríkið að leggja jafnmikið á móti. Það munu sennilega vera einar 160 millj. kr. þarna, sem ríkið hefur tekið á sig, án þess að Alþ. hafi nokkuð um það fjallað. Menn furða sig á því, ef svona aðgerðir eru gerðar, hvað verði um útflutningsiðnaðinn. Hann var auðvitað látinn sitja hjá. Hér var eitt stökk, sem einn ráðh. gerði, að mér er sagt meðan fjmrh. var ekki í bænum, og skuldbatt ríkisstj. gagnvart útvegsmönnum. Þarna eru sennilega um 160 millj. kr. Í sambandi við erfiðleika í Vestmannaeyjum var talað um 160 millj. kr. líka úr ríkissjóði að lokum, eftir að margsinnis hafði verið talað um, að ríkissjóður væri alls ekki aflögufær. Dæmið er aldrei gert upp í heild. Það er það, sem við þurfum að fá hér í þinginu. Við þurfum að fá mynd af dæminu í efnahagsmálum í heild hjá ríkisstj., og ef hún kann ekki að setja upp það dæmi, á hún ekki að vera að burðast við að reyna að stjórna.

Hæstv. forsrh. lagði mjög mikla áherzlu á, að ef þjóðaratkvgr. færi fram um, hvort ætti að reikna áfengi og tóbak í kaupgreiðsluvísitölunni, þá mundi þjóðin eflaust vera á móti því. Og hann vildi láta reyna á það, hverjir alþm. vildu láta reikna áfengi og tóbak í vísitölunni, þjóðin mundi áreiðanlega fylgjast með því og dæma þá menn. Nú spyr ég: Hvenær vitkaðist hæstv. forsrh.? Hvað gerði hæstv. forsrh. í júlí 1971? Þá var áfengi og tóbak ekki reiknað með í vísitölunni, hafði verið tekið út úr vísitölunni með sérstökum hætti, sem ég skal koma nánar að, með verðstöðvunarlögum fyrrv. ríkisstj. haustið 1970. Það, sem núv. ríkisstj., hæstv. forsrh. lá mest á að gera, var að taka þetta aftur inn í vísitöluna. Nú segir hæstv. ráðh.: Það er ekki nokkur skynsemi í því að láta hækkun á áfengi og tóbaki hafa áhrif á vísitöluna. — Þess vegna spurði ég: Hvenær vitkaðist hæstv. forsrh.? Það var nefnilega veizlugleði í júlímánuði 1971, og þá hældu menn sér yfir því, að nú væri búið að leiðrétta ranglæti fyrrv. ríkisstj., nú væri verið að taka áfengi og tóbak inn í vísitöluna, svo að það hafi áhrif á kaupgreiðslur. Auðvitað hækkaði fjmrh. áfengi og tóbak nokkru seinna til þess að fá tekjur. En þá átti hann að borga meira eða a.m.k. álíka mikið út í launum og greiðslum, — ætlaði sér fyrst að fá tekjur af hækkun áfengis og tóbaks og missti það svo allt út úr hinum vasanum, af því að hann var búinn að taka áfengi og tóbak inn í kaupgreiðsluvísitöluna.

Það er í sjálfu sér ágætt, þegar hæstv. ríkisstj. vitnar til aðgerða fyrrv. ríkisstj. og telur þær sér til framdráttar, eins og gert er í grg. þessa frv., að verð á áfengi og tóbaki hafi verið tekið út úr, við reikning kaupgreiðsluvísitölunnar 1970. En þá stóð bara allt öðruvísi á, og það er í skemmstu máli þetta: Þá lagði ríkisstj. fyrir Alþ. áætlun um aðgerðir í verðstöðvunarlöggjöf sinni, og það hvíldi á þremur atriðum aðallega: að skattleggja atvinnurekendurna, að fresta greiðslu vísitölustiga hjá launþegunum og afla ríkissjóði tekna, m.a. af áfengi og tóbaki, til þess að geta greitt niður verð á neyzluvörum almennings. Þá var rökstuðningur ríkisstj. fyrir þessu heildarkerfi níu mánaða ráðgerð verðstöðvun, og þó kom skerðingin á vísitölunni ekki til greina fyrr en í febrúar, þannig að hún hefði ekki orðið nema um 6 mánaða skeið. Það rar grundvöllurinn undir þessu kerfi, þessu tímasetta kerfi, að rannverulegar tekjur launamanna mundu verða hærri, meiri kaupmáttaraukning mundi eiga sér stað með þessum hætti en ef víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags væru látnar halda áfram. Þetta var tíundað fyrir fulltrúum verkalýðssamtakanna, Alþýðusambandi Íslands, á sumrinu 1970 og á haustmánuðum, og þessar staðhæfingar ríkisstj. stóðust. Það liggur nú fyrir í útreikningum frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, að kaupmáttaraukning launafólksins á árunum 1970 og 1971 er rúmlega 27.3%, á þessum tveimur árum. Þessar ráðagerðir stóðust allar, og áætlanirnar voru byggðar á þeim grundvelli, sem ríkisstj. sjálf hafði treyst, að mundi standast, enda var það svo. Í raun og veru var kaupmáttaraukningin sennilega um 18% á eins árs tímabili, frá maíjúní 1970 til maí–júní 1971. En á tveggja ára tímabilinu 1970–1971 er kaupmáttaraukning verkamanna, sjómanna, iðnverkafólks og almennra launþega rúmlega 27%, á þessum tveimur árum. Nú er verið að gera því skóna af ríkisstj., sem tók verðhækkanir á áfengi og tóbaki inn í vísitöluna, að kippa þeim út úr vísitölunni, miklu meiri en áður var, helmingi meiri áhrif eiga þær hækkanir að hafa á vísitöluna, og það er ekki vitað, að neitt samráð hafi verið haft um framlagningu þessa frv. við fulltrúa launþegasamtakanna í landinu. Frv. kemur fulltrúum þessara aðila algerlega á óvart.

Ég tel þess vegna, að það þurfi mjög vendilega að athuga þetta frv. í þeirri n., sem fær það til meðferðar, og fyrst og fremst held ég, að sé nauðsynlegt að skoða afgreiðslu þessa máls í því ljósi, að þetta er, eins og nú standa sakir, skerðing á gildandi kjarasamningum, en í ráði er heildarendurskoðun á vísitölukerfinu, áður en nýir kjarasamningar verða gerðir á næsta hausti, og hafa hliðsjón af þessari aðstöðu í þjóðfélaginu. Hæstv. forsrh. bjóst við, að allri þjóðinni fyndist þetta sanngjarnt og það mælti engin skynsemi með öðru en lögfesta það, sem hér er lagt til. Samt sem áður þykir það ekki ástæða til að fullvissa sig um það, þegar ríkisstj. leggur fram svona mál, sem snertir mælinn á kaupgreiðslur í landinu, hvort hún hafi stuðning eigin stjórnarflokka. Það er eins og hæstv. ríkisstj. sé alls varnað. Nei, það þykir engin ástæða til þess. Hún ætlar að láta reyna á það, eins og stendur í frv., hún ætlar að fá úr því skorið, hvort meiri hl. er fyrir framgangi þess eða ekki. Það er raunalegt að sjá svona setningar í stjfrv. í jafnveigamiklu máli og hér er um að ræða, hvernig sem menn vilja að öðru leyti taka á málinu, og stríðir í raun og veru gegn öllum okkar venjum í sambandi við stjórnarhætti í þingræðisþjóðfélagi.

Þegar verið er að tala um, að það mæli öll skynsemi með því að samþykkja þetta, þá hef ég bent á, að skynsemin var ekki fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj. í júlímánuði 1971, og í blöðum fyrrv. stjórnarandstæðinga er ýmislegt, sem er gaman að rifja upp núna, því að í okt. 1970 segir í forustugrein í Þjóðviljanum, að ríkisstj. ætli að fara í kringum vandamál efnahagsmálanna með því að ákveða, að auknar álögur í því skyni að greiða niður verðlag skuli ekki hafa nein áhrif á vísitöluna. Það átti sem sé að falsa vísitölugrundvöllinn, eins og hér er verið að gera, ef maður vill viðhafa það orðbragð. Sú ráðstöfun ríkisstj. að hækka verð á áfengi og tóbaki til þess að greiða niður verð á mjólk og rjóma er hugsuð á hliðstæðum forsendum, að falsa vísitöluna.

Nú lagði hæstv. forsrh. áherzlu á, að hér væri um munaðarvörur að ræða og verið væri að afla fátækum ríkissjóði tekna, sem ættu að fara til þess að greiða niður nauðsynjavörur almennings. Það hefði verið betra að skilja ekki ríkissjóðinn eftir allslausan fyrir jólin við afgreiðslu fjárl., með 500 millj. kr. greiðsluhalla, eins og ríkisstj. gerði. Til þess að vega upp þennan greiðsluhalla, til þess að hafa eitthvað í niðurgreiðslurnar á nauðsynjavörunum, leitaði ríkisstj. sér heimilda íil að skera niður framkvæmdir og fresta framkvæmdum um allt að 500 millj. kr. eða rúmlega það. Hún hefur gert ráð fyrir að skera niður um 15%, sem gætu verið 500– 600 millj. kr. Ríkisstj. segist vera að nota þessar heimildir núna vegna hallans, af því að það var enginn eyrir upp í þetta. En það er búið að jafna hallann, og á að vera hægt að greiða niður nauðsynjavörurnar, þegar búið er að skera niður um 15%. En það er eitthvað meira, sem vantar á, því að þetta gefur aukalega 420 millj. kr. Það þarf ekki endilega að vera að eyrnamerkja þetta við niðurgreiðslur á nauðsynjavörunum, því að það var í fjárl. gert ráð fyrir því. Þó vantaði fyrir því! En það var veitt heimild til þess að skera niður framkvæmdir. Við skulum ekki vera að fegra þetta mál með því, að þessi áfengis- og tóbakspeningar eigi endilega að fara til þess að greiða niður smjörið, mjólkina og rjómann.

Í sömu forustugrein, sem ég las upp úr áðan, — hún var í Þjóðviljanum, það er líklega rétt að eyrnamerkja þetta betur, ég held, að það hafi verið 10. okt. 1970, — segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er að sjálfsögðu um að ræða algert brot á kjarasamningunum frá því í vor. Vísitöluákvæðin voru meginatriðin í þeim samningum, og forsenda þeirra ákvæða var sú, að vísitölugrundvöllurinn héldist óskertur á samningstímabilinu.“ Það stendur víst alveg eins á núna. Í sama leiðara segir einnig: „Í öðru lagi er grundvöllur vísitölunnar falsaður með því að taka út úr honum hækkun á áfengi og tóbaki.“ Allt var þetta fölsun á vísitölunni, svik við verkalýðinn og brot á kjarasamningum. Það segir enn fremur — með leyfi hæstv. forseta — í sama leiðara: „Hér er um að ræða algert brot á kjarasamningum, árús, sem verkalýðshreyfingin lítur mjög alvarlegum augum.“

Þetta var sagt þá, og nú þykir ekki einu sinni ásfæða til þess að láta fyrirsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar vita af því, að þetta frv. eigi að leggja fram í þinginu. Það kemur þeim alveg á óvart. Þeir rekast á þetta á borðinu sínu án þess að hafa nokkra minnstu hugmynd um, frv. um breytingu á útreikningi kaupgreiðsluvísitölu. Formaður Dagsbrúnar, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, sagði líka um þetta leyti, 8. nóv. 1970, í Þjóðviljanum: „Að mínum dómi er þessi röskun á vísitölugrundvellinum mjög alvarlegt mál, því að það er með löggjöf verið að raska sjálfri undirstöðunni, sem samningar hvíldu á.“

Hæstv. núv. viðskrh. sagði mörg fögur orð líka hér á Alþ., og m.a. var haft eftir honum í Þjóðviljanum: „Ótrúlegt væri, að það gæti viðgengizt, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur féllust á tiltekinn vísitölugrundvöll, sem miða skuli við framfærsluvísitölu og kaupgjaldsvísitölu, og rétt á eftir kæmi hún svo með till. um að svíkja þennan grundvöll og breyta honum einhliða.“ Það er gert með þessu frv., því að tilteknar hækkanir, sem samkv. vísitölugrundvellinum ættu að reiknast með, eru teknar út. Þetta er verið að gera hér líka.

Þá sagði blað Framsfl., Tíminn, í 5 dálka fyrirsögn 10. nóv. 1970: „Framsfl. tekur ekki þátt í því að eyðileggja nýgerða kjarasamninga.“ Nei, hann tekur ekki þátt í því.

En það er svo mikið, sem hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar eru búnir að éta ofan í sig, síðan þeir tóku við völdum, þó að þeir séu ekki búnir að sitja lengi, að það er ekki mikið, þó að einn bitinn bætist við, þó að hann sé dálítið stór. Nú á að gleypa það, sem áður var fordæmt í fari fyrrv. ríkisstj., og taka út það, sem var tekið inn í vísitöluna aftur í fögnuði þess að hafa nýtekið við stjórnartaumunum í júlímánuði 1971. Og nú eru þessir sömu menn búnir að átta sig á því, að það er engin skynsemi í því, sem þeir gerðu í veizlugleðinni. Þessi ríkisstj. og stuðningsmenn hennar eru líka búnir að éta ofan í sig frestun á tilteknum stigum kaupgreiðsluvísitölunnar. Þeir eru líka búnir að éta ofan í sig yfir höfuð verðstöðvun. Þeir framlengdu verðstöðvunina, sem þeir fordæmdu 1971, og síðan settu þeir á nýja verðstöðvun á sumrinu 1972. Þetta eru þeir búnir að éta ofan í sig. Þeir eru búnir að éta ofan í sig það, að þeir ætli aldrei að grípa til gengislækkunar, það sé ein höfuðstefna ríkisstj. að lækka ekki gengi krónunnar. Það er búið að éta það ofan í sig. Það er reyndar búið að gera það í tvígang, fyrir jólin 1971 og svo gengislækkun núna fyrir jólin. Og nú stöndum við frammi fyrir þeim vanda, að ríkisstj. er sennilega neydd til þess að lækka gengið. En hvað mikið verður það lækkað? Verður notað tækifærið til þess að lækka jafnt dollar, eða verður farið bil beggja, eins og talað var um 1971, þó að það væri ekki efnt þá?

Það er á miklu fleiri sviðum, sem við getum gripið niður, þar sem allt það, sem áður var fordæmt, þykir nú gott. Þessu á að sjálfsögðu að hrósa hjá þessum ágætu mönnum, því að það er kannski það bezta í fari þeirra, þegar þeir fara að einhverju leyti að dæmi fyrrv. ríkisstj. En það er ekki nóg, eins og hér er gert, að vitna til þess, að áfengi og tóbak hafi ekki verið láta hafa áhrif á kaupgreiðsluvísitölu í tíð fyrrv. stjórnar með verðstöðvunarlögunum, vegna þess að þar er allt öðruvísi að málunum staðið. Það er sett fram í heildarskipulagi ákveðinna aðgerða í efnahagsmálunum, sem duga, en óvissan eykst ekki við einstakt kák, eins og ríkisstj. nú er að gera og gerði fyrir jólin. Þetta er hennar höfuðmein og hennar veikleiki, að geta aldrei haft yfirsýn yfir efnahagsmálin og skapað neitt traust hjá almenningi í landinu á því, sem hún er að gera. Þetta er allt saman fálm og fum og einstakir þættir. öll þjóðin veit, að það voru þrjár stefnur uppi í ríkisstj. um lausn á efnahagsmálunum fyrir jólin og ofan á varð svo gengislækkunin með þeim hætti, sem ég lýsti áðan, að Seðlabankinn gaf þá yfirlýsingu, að í raun og veru væri óvissan alveg jafnmikil í þjóðfélaginu, því að það væri ekki hægt að ráða neitt í, hvar yrði um efnahagsvandann, vegna þess að það vantaði vitneskju um það, hvaða aðgerðir aðrar ríkisstj. ætlaði að gera. Hún er byrjuð á nokkrum aðgerðum um áramótin, og svo er þetta núna. En hvað kemur næst, ef þetta nær þá nokkru sinni fram að ganga?

Ég skal ekki hafa orð mín fleiri um þetta frv., en mér finnst það lýsa ákaflega miklu ráðleysi og fálmi hjá hæstv. ríkisstj. Það er einkennilegt af hennar hálfu að leggja slíkt frv. fram án þess að láta fulltrúa verkalýðssamtakanna fá nokkra vitneskju um það og alveg sér í lagi eftir það, sem þeir voru búnir að segja um þessar hugmyndir ríkisstj. á ráðstefnu Alþýðusambandsins, sem haldin var í jan.

Ég fyrir mitt leyti tel, að það sé mjög eðlilegt að endurskoða vísitölugrundvöllinn, og ég veit ekki betur en það sé að því stefnt. Það er eðlilegt, að það sé gert í sambandi við það, að kjarasamningar renna út á næsta hausti og nýir kjarasamningar taka þá við. En það er mjög hæpið að mínum dómi að fikta þannig við kaupgreiðsluvísitöluna, án þess að um neina heildarlausn á efnahagsvandanum sé að ræða. Það er vitað, að auk þess sem þessi hækkun er helmingi meiri en sú hækkun, sem tekin var út úr vísitölunni 1970, var þá gert ráð fyrir og það stóðst, að fólkið fengi kjarabætur, að kaupmáttur fólksins mundi aukast. Það er vitað í dag og boðað af hæstv. ríkisstj. og sérfræðingum hennar, að það verði engin kaupmáttaraukning hjá launþegunum á þessu ári. Það er það síðasta, sem liggur fyrir. Þess vegna er ekki með nokkru móti hægt að verja þessar aðgerðir með svipuðum hætti og gert var með aðgerðum fyrrv. ríkisstj.

Þetta mál verður að sjálfsögðu athugað nánar í n., og mun þá Sjálfstfl. taka endanlega afstöðu til þess, hvaða hátt hann vill hafa á afgreiðslu þess. Eins og ég sagði áðan, höfum við ekki rætt málið í þingflokknum, ekki haft aðstöðu til þess, og þess vegna bað ég um frestun á því nú. Ég tel frv. meingallað, tel alveg víst, að Sjálfstfl. muni gera verulegar aths. við framgang málsins. E.t.v. reynir ekki fyllilega á það, að Sjálfstfl. þurfi að skýra þetta mál af sinni hálfu nánar, en hann mun ekki fara leynt með það, og hæstv. forsrh. skal fá það algerlega umbúðalaust, þó að við eigum erfitt með að draga svör upp úr ráðh. umbúðalaust. En það er sýnt þegar á því, sem fram hefur komið í þinginu, að þetta frv. nær ekki fram að ganga í þeirri mynd, sem það er nú. Það nær ekki fram að ganga vegna þess, hversu það er borið fram í miklu ráðleysi og flaustri og meingallað, þó að hugsun geti verið á bak við það, ef hún væri öðruvísi fram sett og í tengslum við aðrar efnahagsaðgerðir. Því vil ég ráðleggja hæstv. forsrh. það, og það geri ég með góðum hug í hans garð, að hann taki þetta frv. til baka og hafi ekki meiri umsvif um það.