14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

159. mál, kaupgreiðsluvísitala

Ólafur G. Einarason:

Herra forseti. Það voru atriði varðandi 1. gr. þessa frv., sem ég vildi gera að umræðuefni og reyna að fá upplýst.

„Þáttur hins opinbera í tannlækningum hefur verið aukinn, að ég held, að undanförnu,“ sagði hæstv, forsrh. hér áðan. Það má segja, að það vanti ekki sannfæringarkraftinn, þegar verið er að mæla fyrir stjfrv. Mig langar til að fá upplýst, að hvaða leyti þáttur hins opinbera hafi verið aukinn í tannlæknaþjónustu að undanförnu. Hafi hæstv. ráðh. átt við framlög úr ríkissjóði. þá leyfi ég mér að fullyrða, að þar hafi ekki verið um aukin framlög að ræða á undanförnum árum. Þvert á móti er hlutur ríkisins hlutfallslega minni en áður var og hefur verið það nú um nokkur ár. Ríkið hefur þverskallazt við að fara að lögum varðandi endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna tannlækninga skólabarna. Það eru fjölmörg sveitarfélög, sem halda uppi þessari þjónustu. Þau hafa tekið hana upp, vissulega af nauðsyn, og þau hafa talið með vísun til laga um skólakostnað, að þau ættu kröfu á helmingsendurgreiðslu úr ríkissjóði. Hæstv. fjmrh. talaði hér áðan um, að það hefði verið gerð breyting á skólakostnaðarl., að hann hélt 1967, í þessu efni. Því miður hef ég ekki lögin við hendina, en ég man ekki til, að nokkur breyting hafi verið gerð á I., sem heimili ríkissjóði að greiða annað en helming þessa kostnaðar. Það er til reglugerð um rekstrarkostnað skóla, nr. 26 frá 1971, og í 11. gr. hennar segir:

„Tanneftirlit og tannviðgerðir skyldunámsnemenda teljast til heilbrigðisþjónustu, sem Ríkissjóður greiðir að hálfu á móti sveitarfélögum.“ Þetta styðst við skólakostnaðarl., en svo er bætt við: „Þó ekki umfram það, að framlag ríkissjóðs sé 500 kr. á ári á hvern nemanda í skyldunámi“ o.s.frv.

Ég hefði viljað beina þeirri fsp. annaðhvort til hæstv. fjmrh. eða hæstv. menntmrh., hvort þeir telji, annar hvor eða báðir, — mér er sama, hvor svarar, — að þessi reglugerð styðjist við lög. Ég leyfi mér að draga það í efa. En fróðlegt væri að heyra, hvað hæstv, ráðh. segja um þetta.

Það væri einnig fróðlegt að vita, hvernig á að verja þessum 100 millj. kr., sem í grg. segir, að ráðgert sé að verja úr ríkissjóði í því skyni að auka tannlæknaþjónustu hins opinbera. Það var ekki orð um það í framsögu fyrir þessu frv. Á að greiða sveitarfélögunum það, sem sveitarstjórnirnar telja vera skuldir ríkissjóðs allt frá árinu 19697 Núv, ríkisstj. hefur í orði lýst því yfir, að hún heri hag sveitarfélaganna mjög fyrir brjósti, og því skyldi maður ætla, að nú yrði bætt úr því óréttlæti, sem ríkt hefur. Hæstv. fjmrh. sagði áðan, að gert væri ráð fyrir að taka upp að nýju þessa helmingsgreiðslu ríkissjóðs, og þeirri yfirlýsingu fagna ég að sjálfsögðu. Hluti af bessum 100 millj. fer væntanlega til þess.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv., en mér þætti gott að fá svör við þessum spurningum.