15.02.1973
Sameinað þing: 45. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessari till. felst það, að Alþ. feli hæstv. ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir Alþ. frv. til l. um lífeyrissjóð allra landsmanna. Það hefur verið og er stefna Alþfl., að allir landsmenn skuli vera í lífeyrissjóði. Þegar þeir Emil Jónsson og Eggert G. Þorsteinsson fóru með félagsmál í ríkisstj., höfðu þeir forgöngu um, að ítarlegar athuganir væru gerðar á þessu máli, og var Haraldi Guðmundssyni, fyrrum forstjóra Tryggingarstofnunar ríkisins, falin sérstök könnun þess. Samdi hann vandlega álitsgerð um málið, og var þar að því stefnt, að lífeyrismál Íslendinga kæmust í svipað horf og á sér stað á Norðurlöndum, þar sem skipan hessara mála má teljast komin í einna bezt horf.

Áður en unnt reyndist að ganga frá fullbúnu frv. um nýskipan lífeyrismálanna, en hér er um mjög flókið og vandasamt efni að ræða, tóku lífeyrismálin í heild hins vegar nokkuð aðra stefnu hér á landi en Alþfl. hafði gert ráð fyrir og fylgt hafði verið annars staðar. Stofnun lífeyrissjóða fyrir þá, sem ekki nutu slíkra réttinda, varð að þætti í kjarasamningum launþegasamtaka og vinnuveitanda, og var þar að sjálfsögðu um miklar hagsbætur að ræða. Í kjölfar víðtækra kjarasamninga 1969 var komið á fót nýjum lífeyrissjóðum fyrir mikinn fjölda manna. Áður en hinum nýju sjóðum var komið á fót, munu um 25–35 þús. manns hafa átt aðild að lífeyrissjóði, en nú má ætla, að tala félaga í lífeyrissjóðum sé komin upp í 50–60 þús. manns. Fjöldi vinnandi manna í landinu mun nú um 83 þús., svo að enn eiga margir ekki aðild að lífeyrissjóði.

Það á að vera megintilgangur þeirrar löggjafar, sem hér er lagt til, að undirbúin verði, að tryggja þeim, sem nú eiga ekki aðild að lífeyrissjóði, þau réttindi, sem slíkri aðild fylgja. Einnig hefur komið í ljós, að það er galli á núverandi kerfi, hversu lífeyrissjóðirnir eru margir og að réttindi þau, sem þeir veita, skuli ekki vera samræmd, og ólíkar reglur gilda um starfsemi þeirra að öðru leyti og þá fyrst og fremst um ráðstöfun þeirra á fé sínu. Í því sambandi má t.d. nefna, að sumir sjóðir eru verðtryggðir af atvinnurekendum, en aðrir ekki. Verðtryggðir sjóðir eiga tæplega helming af heildareign allra sjóðanna, en hinn helmingurinn er ekki verðtryggður. Er hér um að ræða eitt meginvandamálið í sambandi við framtíð lífeyrissjóðanna og réttindi félaga þeirra.

Sem dæmi um það, að hér er um víðtækt og mikið fjárhagsmál að ræða, má geta þess, að eignir lífeyrissjóðanna munu í árslok 1971 hafa numið 4760 millj. kr. Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir, sem allir eru gamlar og grónar stofnanir, eiga tæplega 57% þessarar eignar. Iðgjaldatekjur nýjustu sjóðanna, sem stofnaðir voru í kjölfar kjarasamninganna 1969, voru um 180 millj. kr. á árinu 1971. Á því ári, árinu 1971, var ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til eignaaukningar um 1140 millj. kr. Sparnaður þeirra það ár nam 913 millj. kr., og svarar það til tæplega 6% af heildarsparnaði þjóðarinnar. Sést á þessu, að hér er um mjög mikilvæg fjárhagsatriði að ræða, sem skipta miklu máli í íslenzku efnahagslífi. Stór hluti fjármagns sjóðanna er bundinn í útlánum, eða um 3560 millj. kr. af 4760 millj. kr. heildareign. Verðtryggðu lífeyrissjóðirnir eiga um 2050 millj. kr., en 2710 millj. kr. eru í sjóðum, sem eru ekki verðtryggðir.

Þessi till. gerir ekki ráð fyrir því, að þeir lífeyrissjóðir, sem nú starfa, verði lagðir niður eða væntanleg löggjöf breyti starfsreglum þeirra. Til þess er ekki ætlazt, að ný löggjöf breyti réttindum þeirra, sem nú eiga aðild að lífeyrissjóði, eða rýri að nokkru leyti vald þeirra stjórna, sem stjórna þeim lífeyrissjóðum, sem nú starfa. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að allir lífeyrissjóðir, sem nú starfa, verði aðilar að allsherjar lífeyrissjóðnum, lífeyrissjóði allra landsmanna, og skuli honum stjórnað af sérstöku fulltrúaráði og sérstakri stjórn. Í fulltrúaráðinu skulu eiga sæti fulltrúar þeirra lífeyrissjóða, sem aðild eiga að lífeyrissjóði allra landsmanna, en í stjórn hans fulltrúar kjörnir af fulltrúaráði, forstjóri Tryggingarstofnunar ríkisins og fulltrúi fjmrh., sem vera skal formaður stjórnarinnar.

Ég gat þess áðan, að meginhlutverk lífeyrissjóðs allra landsmanna skuli vera að vinna að því, að þeir, sem nú njóta ekki lífeyrisréttinda, öðlist þau. Annað meginverkefni hins nýja allsherjar lífeyrissjóðs á síðan að vera að samræma störf þeirra lífeyrissjóða, sem nú starfa, bæði að því er varðar réttindi þau, sem þeir veita, og ráðstöfun á fjármagni þeirra. Í þriðja lagi skal vera verkefni lífeyrissjóðs allra landsmanna að stuðla að því, að rekstur lífeyrissjóðanna verði sem hagkvæmastur.

Rétt er að vekja athygli á nokkuð sérstæðu vandamáli í sambandi við lífeyrismál, en það eru hugsanleg lífeyrisréttindi húsmæðra, sem starfa á heimilum. Konur, bæði giftar konur og ógiftar, eiga nú að sjálfsögðu aðild að ýmsum lífeyrissjóðum. T.d. eiga verkakonur aðild að lífeyrissjóði Dagsbrúnar og verkakvennafélagsins Framsóknar, og fjölmargar konur, bæði giftar og ógiftar, eiga að sjálfsögðu aðild að lífeyrissjóði verzlunarmanna. En húsmæður, sem starfa á heimilum, hafa engin sjálfstæð lífeyrisréttindi og engin skilyrði til þess að öðlast þau, að frátöldum ekkjulífeyri úr sjóðum þeim, sem eiginmenn þeirra eru aðilar að, og ekkjulífeyri úr almannatryggingakerfinu. Þessi skipan mála stendur í sambandi við reglur þær, sem gilda um sameiginlega skattgreiðslu og útsvarsgreiðslu af tekjum og eignum hjóna. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að reglum þessum ætti að breyta og að gift kona, sem starfar á heimili, eigi að verða sjálfstæður skattþegn með þeim hætti, að henni sé reiknaður til tekna hluti af tekjum eiginmannsins sem endurgjald fyrir heimilisstörfin, en skattstigum þá að sjálfsögðu breytt til samræmis við það.

Fyrir hönd þingflokks Alþfl. flutti ég brtt. varðandi þetta efni, þegar skattal. voru til meðferðar á síðasta Alþ. Í tilefni af flutningi þessarar till. og umr. um hana lýsti hæstv. fjmrh. yfir, að þessi hugmynd skyldi verða athuguð rækilega í sambandi við þá framhaldsendurskoðun skattal., sem ákveðin var og nú stendur yfir. En hér er um mjög flókið og vandmeðfarið mál að ræða. Vegna þessarar yfirlýsingar varð samkomulag um, að till. skyldi dregin til baka, og treysti ég því að sjálfsögðu, að hugmyndin fái nauðsynlega sérfræðilega athugun. Ef gildandi reglum um skattgreiðslur hjóna yrði breytt á þann veg, að gift kona, sem starfar á heimili, verði sjálfstæður skattþegn, yrði það eðlileg afleiðing af því, að hún gæti eignazt sjálfstæða aðild að lífeyrissjóði. Meginvandamálið í því sambandi er, hvaða aðili ætti að greiða í slíkan lífeyrissjóð á móti eiginkonunni, eins og atvinnurekandinn greiðir nú mótframlag vegna greiðslu starfsmanns síns og opinberir sjóðir vegna framlags opinberra starfsmanna. Þetta vandamál yrði með einhverjum hætti að leysa á vegum almannatryggingakerfisins, því að ekki væri eðlilegt, að eiginmaðurinn væri sá aðili, sem mótframlagið greiddi.

Við þm. Alþfl. teljum, að löggjöf sú, sem þessi till. fjallar um, sé stórmál fyrir íslenzka launþega og þá um leið fyrir landsmenn alla. Það spor verður að stíga til fulls, að anir landsmenn eigi aðild að lífeyrissjóði, þ.e.a.s. þeir landsmenn, sem nú eru ekki í lífeyrissjóði, öðlist slíka aðild. Vegna þess, hve lífeyrissjóðirnir hafa yfir miklu fjármagni að ráða, teljum við nauðsynlegt, að stefna þeirra og störf séu samræmd til þess að tryggja sem skynsamlegasta nýtingu þeirrar fjármagnsmyndunar, sem um er að ræða, frá sjónarmiði heildarinnar, án þess að skerða sjálfstæði sjóðanna eða draga nokkuð úr þeim réttindum, sem þeir hafa þegar áunnið sér. Hins vegar er æskilegt, að hafizt verði handa um samræmingu á réttindum þeim, sem sjóðirnir veita félögum sínum. Samræmd heildarstefna í þessum málum, bæði að því er snertir réttindi sjóðsfélaganna og ráðstöfun á því mikla fjármagni, sem hér er um að ræða og eykst með ári hverju, hlýtur að teljast mjög mikilvæg frá þjóðhagslegu sjónarmiði og um leið frá sjónarmiði launþeganna sjálfra. Af þessum sökum vonum við þm. Alþfl., að mál þetta, sem við teljum hið mikilvægasta, hljóti góðar undirtektir og till. verði samþ., þannig að stefna verði mótuð í þessu mikilvæga máli.

Að svo mæltu legg ég til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.