26.10.1972
Sameinað þing: 8. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

Umræður utand dagskrár

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hér eru hafnar umr. utan dagskrár um það, sem hæstv. forsrh. á að hafa sagt í hv. Ed. í gær. Ég átti þess kost að hlýða á mál forsrh. í gær. En mér er kunnugt um, að hv. 7. þm. Reykv. átti þess ekki kost og var þar ekki og byggir því allar sínar fsp. á einhverjum milliliðum mér ókunnugum. Ég held, að það hefði verið meiri varfærni af honum að fá örugga vitneskju um það, um hvað mál forsrh. snerist.

Það var til umr. frv. um brbl. um verðstöðvun, og út frá því ræddi forsrh. sínar persónulegu skoðanir og tók fram, að það væru hans persónulegu skoðanir. Ég hygg, að það geti enginn véfengt það, að forsrh. hlýtur auðvitað að vera farinn að hugleiða þau efnahagslegu vandamál, sem fram undan eru, og er frjáls að því hvenær sem er að skýra frá sínum persónulegu skoðunum. Hverjum dettur annað í hug? Ég held því, að það hafi verið alveg sjálfsagt og ekkert til þess að hneykslast á, að forsrh. skýrði frá sínum persónulegu skoðunum um þessi vandamál. Hann skýrði frá því, að það hefðu oft gilt hér á landi ýmiss konar reglur um útreikninga vísitölu, stundum afnumin, stundum bönnuð, stundum lögfest og stundum breytt grundvellinum, og hann var að velta fyrir sér öllum þessum möguleikum í sambandi við hugsanlegar lausnir á efnahagsvandamálunum. Hins vegar, þegar spurt er um það, hvort þetta beri vott um ágreining í ríkisstj., þá svara ég því auðvitað neitandi. Þetta er ekki frásögn af ríkisstjórnarfundi. Þetta hvort tveggja hefur verið upplýst hér. Við höfum auðvitað, allir ráðh., persónulegar skoðanir um, hvernig eigi að snúast við vandamálum efnahagsmálanna í landinu. Og vitanlega hefur fyrrv. ríkisstj. haft oft og tíðum þungar áhyggjur af efnahagsmálunum og þróuninni, og ráðh. hafa auðvitað allir haft sínar persónulegu skoðanir. Ég hygg, að það sé enginn hér innan veggja, sem ekki hefur myndað sér einhverjar persónulegar um vanda efnahagsmálanna, sem fram undan er. Það væri undarlegt, og ég mundi hneykslast á því, ef einhver væri hér innan veggja, sem ekki hefði myndað sér einhverjar persónulegar skoðanir um þessi mál.

Ég held, að það sé alveg ótímabært að taka afstöðu til persónulegra skoðana forsrh, eða annarra manna, sem tjá sína persónulegu afstöðu til máls. Hins vegar er öllum kunnugt, að það er sérfræðinganefnd á vegum ríkisstj., sem er að kanna öll rök í efnahagsmálunum, og það var m.a. upplýst af forsætisrh. í gær, að niðurstöður þeirrar sérfræðingaathugunar í efnahagsmálum væru væntanlegar upp úr næstu mánaðarmótum, ekki síðar heldur en viku af nóv. Þetta var eitt af því, sem hann upplýsti, og málið kæmi þannig fyrir Alþ. upp úr því. Það er meira bráðlætið hjá mönnum, ef þeir geta ekki beðið eftir þessu og þykir eitthvert undur hafa skeð, þótt forsrh. landsins láti í ljós sínar persónulegu skoðanir á vandamálum, sem fram undan eru, en blasa við í ákveðinni skýrri mynd fyrir öllum þingheimi eftir nokkra daga. Ég sé ekkert undarlegt við þetta. Þá fyrst mun ég og aðrir þm. telja okkur í aðstöðu til þess að taka afstöðu til vandamálanna, þegar sérfræðinganefndin hefur lagt málið fyrir í heild.